14.11.1939
Efri deild: 60. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2856)

34. mál, lögreglustjóri í Hrísey

*Magnús Gíslason:

Eins og tekið hefir verið fram, hefir verið tekið upp af síðustu þingum að skipa sérstaka lögreglustjóra í ýms kauptún landsins. Það er vitanlegt, að þetta hefir ekki verið gert nema af því, að Alþingi hefir séð, að þess var þörf, m. a. af því, að þau störf, sem hreppsnefndum eru ætluð á þessum stöðum, mundu verða rækt betur, ef breytt væri til. Það má um það deila, hvort það er heppileg leið, sem Alþingi hefir snúið hér inn á. En eftir því, sem ég veit, hefir ekki komið fram önnur lausn á þessum málefnum. Spurningin er því hér, ef Alþingi vill ekki taka upp annað fyrirkomulag á þessu, hvort þeir verzlunarstaðir, sem teknir hafa verið upp í þetta frv., sem hér liggur fyrir, eigi ekki sama rétt eins og hinir verzlunarstaðirnir, t. d. Keflavík, Akranes, Bolungavík og fleiri, þar sem þessari skipun hefir verið komið á. Hugsanlegt er, að þessu hefði mátt koma fyrir á hagkvæmari hátt með því að auka við skrifstofufé sýslumanna og gefa þeim tækifæri til að fá skipaða löglærða menn sem fulltrúa, er gætu framkvæmt ýms lögfræðileg störf í umboði sýslumanna. Frv. felur í sér talsverðan aukakostnað fyrir ríkissjóð, af því ég veit ekki til, að nokkurstaðar hafi verið lækkuð laun sýslumanna eða dregið úr skrifstofukostnaði þeirra, svo hér hefir alltaf verið um aukin útgjöld að ræða, en þar, sem þessi skipun hefir verið tekin upp, hefir áður verið mjög erfitt að fá hæfan mann til þess að gegna þessum störfum.

Eins og ég gat um áðan, var meiri hl. n. samþykkur því að mæla með frv. og bæta því við, eftir ósk hreppsnefndar Búðakauptúns, að Búðakauptún fengi einnig skipaðan lögreglustjóra, og var það m. a. vegna þess, að okkur var ekki kunnugt um neina stefnubreyt. í þessu efni. Ég skal játa það, að ég er ekki vel kunnugur því hver þörf er fyrir skipun sérstaks lögreglustjóra í Hrísey, en það er kunnugt, að um síldveiðitímann er talsvert mikið um að vera, og er líklegt, að a. m. k. um þann tíma sé eins mikil þörf fyrir lögreglustjóra þar eins og í Keflavík og á Akranesi. Um Búðakauptún er mér kunnugt, að þar er fullkomin þörf breytingar, og það sérstaklega fyrir það, hve miklar siglingar eru á staðnum. Það hagar svo til, að sum af þeim skipum, sem sigla frá útlöndum, t. d. Nóva, taka þar fyrst höfn. Svo er einnig um skip Eimskipafélagsins, sem sigla til útlanda. En það er nauðsynlegt, að þar sé góður maður til að taka á móti skipum, sem sigla með kola- og saltfarma til Austur- og Norðurlandsins og taka fyrst höfn á Fáskrúðsfirði. Auk þess er miklu umhlaðið þar af vörum, sem fara eiga til Breiðdalsvíkur, Stöðvarfjarðar, að ég ekki tali um til Hornafjarðar, og sem verður að innheimta tolla af. Það hefir verið þannig hin síðustu árin, að þær tekjur, sem umboðsmaður sýslumanns hefir innheimt á Fáskrúðsfirði, hafa numið tugum þúsunda og farið um helming fram úr þeim tekjum, sem innheimtar eru í heilum sýslum. Það er því mikils virði, að það sé góður maður, sem hefir þessi störf með höndum á ábyrgð sýslumanns, einkum þar sem sýslumaðurinn situr á Eskifirði, en þaðan er erfitt að sækja á Fáskrúðsfjörð, því það er sjaldnast farið nema á sjó.

Borið saman við þá staði, þar sem lögreglustjóri hefir verið skipaður áður, hygg ég, að Fáskrúðsfjörður þoli samanburð, og að þar sé engu síður þörf en annarstaðar.