14.11.1939
Efri deild: 60. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (2858)

34. mál, lögreglustjóri í Hrísey

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er búið að ræða talsvert um þetta mál. Ég skal því ekki lengja umr. mikið úr þessu.

Viðvíkjandi því, sem hv. 11. landsk. sagði, er það að segja, að nú, þegar lítur út fyrir, að tollgreiðslur fari aðallega fram á einum stað í landinu, eins og fram hefir komið í umr., þá virðist sízt þörf á að fjölga embættismönnum úti um landið til að inna af hendi tollheimtu.

Hv. fyrri þm. Eyf. sagði, að hér kæmi aðeins einn opinber starfsmaður í staðinn fyrir tvo, sem færu. Þetta er rétt, en það kemur bara einn starfsmaður ríkisins í staðinn fyrir einn, sem fer, því um oddvitann er ekki að ræða, hann er starfsmaður hreppsins. Hreppstjórinn í Hrísey mun hafa í laun 200–225 kr. á ári. Um oddvitann er það að segja, að þó lögreglustjóri hafi verið skipaður og oddvitastarfið lagt niður um leið, þá hefir það a. m. k. sumstaðar, verið tekið upp aftur, eins og t. d. á Akranesi. Þetta getur vel farið þannig í Hrísey, eins og á Akranesi, og er því hæpið að telja þetta með, þegar rætt er um sparnað í sambandi við þetta frv. Hv. þm. talaði um, að ekki væri verið að spara embættismennina í Reykjavík og launin þar. Það væri þess vegna engin ástæða fyrir hann að vera að hugsa um sparnað. Ég veit ekki, hvernig færi, ef allir tækju sér þau dæmi til fyrirmyndar, sem þeir telja lökust. Þó hv. þm. telji eyðslusemi hér í Reykjavík, ætti hann að sýna það með sínu framferði, að hann færi aðrar leiðir en Reykvíkingar í þessu efni.

Ég vil svo bara ítreka þá ósk mína við forseta, að hann frestaði umr. um málið, svo tækifæri gefist til nánari athugunar á því.