14.11.1939
Efri deild: 60. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (2859)

34. mál, lögreglustjóri í Hrísey

Bernharð Stefánsson:

Það, sem hér hefir verið sagt frambærilegt á móti þessu máli, er sparnaðarástæðan. Nú gengur þessi rökst. dagskrá út á það, að athugað sé, hvort ekki sé rétt, að sýslumaður hafi fulltrúa í Hrísey í 3 mánuði yfir sumarið. Eftir því, sem slíkum mönnum er greitt, myndi þetta kosta einar 1500 krónur. Í frv. er gert ráð fyrir, að hinn væntanlegi lögreglustjóri fái 2000 kr. í laun. Nú upplýsti hv. 5. landsk., að hreppstjórinn í Hrísey myndi hafa 200–225 kr. í laun á ári. Það fyrirkomulag, sem frv. gerir ráð fyrir, yrði því ekki nema í hæsta lagi 300 kr. dýrara en það fyrirkomulag, sem stungið er upp á í hinni rökst. dagskrá.

Hv. 5. landsk. sagði, að það tíðkaðist þar, sem skipaðir hefðu verið sérstakir lögreglustjórar, að oddvitastarfið væri tekið upp að nýju. Ætli þetta sé víðar en á Akranesi? Ég hygg að lögreglustjórarnir gegni yfirleitt oddvitastörfum jafnhliða sínu embætti.

Hv. þm. hefir víst misskilið það, sem ég sagði um Reykjavík. Ég var að benda á, að opinberum starfsmönnum hefði undanfarið alltaf verið að fjölga í Reykjavík, og ég var að benda á aðstöðumun í þessu efni í Reykjavík og annarstaðar á landinu. Ég benti á, að það þyrfti svo sem ekki nein sérstök l. til að koma á fót nýjum störfum þar í ýmsum greinum. Og ég veit ekki, hversu eðlilegt það er, að þegar opinberum starfsmönnum þarf að fjölga svo mjög sem raun er á í Reykjavík, þá þurfi ekkert að fjölga þeim úti um landið. Ég átti við það, að ekki þyrfti að kalla það neina goðgá, þótt einstaka sinnum væri farið fram á það, að bætt væri við opinberum starfsmönnum utan Reykjavíkur, þar sem skapazt hefði full þörf fyrir slíka fjölgun, þegar árlega væri fjölgað um marga starfsmenn í Reykjavík. Mér er óhætt að fullyrða, að mín ræða gaf ekki neitt tilefni til þeirra ummæla, sem hv. þm. lét falla um þetta atriði.

Út af þeirri ósk hv. þm., sem hann endurtók í sinni síðari ræðu, um að fresta umr., þá vil ég segja það, að ég sé enga ástæðu til slíks. Afstaða nefndarhlutanna virðist svo skýr, að þess ætti ekki að vera þörf. Auk þess er þetta ekki nema 2. umr., og ef hv. þm. álíta þetta svo vandasamt mál, þá er hægurinn hjá að koma með brtt. við það við 3. umr. Ég vil því eindregið skora á hæstv. forseta að láta fara fram atkvgr. um málið nú á þessum fundi. Ég tel óþarfa, með ekki stærra mál en þetta, að láta það velkjast hér öllu lengur og þesskonar aðferð sé notuð til að koma málinu fyrir kattarnef. Hv. þm. geta greitt atkv. með eða móti. eftir skoðunum sínum.