28.12.1939
Neðri deild: 95. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (2882)

56. mál, áfengislög

*Frsm. (Thor Thors):

Ég skal aðeins vera stuttorður um þetta mál, þar sem það var upplýst í ræðu hæstv. félmrh. að mestu leyti. Hv. þm. Borgf. flutti þetta mál af miklu kappi, og kemur það engum á óvart, sem þekkja fylgi hans við mál þau, sem hann tekur að sér. Ég sé ekki, að hann hafi ástæðu til að kvarta neitt sérstaklega um meðferðina, sem þetta mál hefir fengið hjá allshn. Hv. þm. veit einnig, að við í allshn. sýndum honum bréfið frá utanríkismálan. áður en við komum með málið inn í d.

Það er rétt hjá hv. þm. Borgf., að það eru önnur ákvæði í þessu frv. en þau, sem kæmu til með að brjóta í bága við milliríkjasamninga, en vitanlega eru þessi ákvæði ekki það þýðingarmikil, að ástæða sé til þess að setja sérstaka löggjöf um þau út af fyrir sig. Þeir, sem þekkja þennan þm., vita, að þarna fylgir hugur máli, og strax á næsta þingi, sem væntanlega kemur saman innan skamms, muni hann halda málinu áfram. Hv. flm. sagði, að grundvöllinn undir 2. gr. þessa frv. sé að finna í núgildandi áfengislögum, og þar er ekki heimilað að stofna nýjar áfengissölur nema með vilja kjósenda. Þetta er annað mál. Gamlar útsölur, sem nú starfa í kaupstöðum og ekki eru samningum bundnar, er ekki meiningin að leggja niður. En það er sjálfsagt að láta það vera á valdi kjósenda, sem við það eiga að búa, hvort þeir óska eftir nýjum vínsölum. Hv. þm. Borgf. taldi, að við afgreiðslu málsins þyrfti ekki að taka tillit til milliríkjasamninga, þar sem um þetta atriði væru nú engir slíkir samningar í gildi. En ég vil leyfa mér að endurtaka það, sem hæstv. félmrh. sagði, að samningurinn milli Íslands, Spánar og Portúgals sé enn í gildi, þar sem honum hefir ekki verið sagt upp. Þessi samningur hefir svo stórkostlega þýðingu fyrir okkar sjávarútveg, að það myndi blátt áfram lokast fyrir saltfiskssöluna til Spánar og Portúgals, ef hann félli úr gildi. Þetta mun hv. þm. Borgf. kunnugt, sem er nú fulltrúi í sjútvn. Allur þingheimur veit, hve mjög við eigum í vök að verjast í þessum efnum, vegna ágengni annara, einkum Norðmanna og Svía. Við höfum miklu verri aðstöðu til samkeppni heldur en þeir, af því að norska ríkisvaldið styrkir fiskútflytjendur með stórum fjárupphæðum, sem Íslendingar hafa ekki ráð á að veita til þeirra, sem sjó stunda. Um Portúgalsmarkaðinn er það að segja, að undanfarin ár hefir hann verið okkar bezti markaður, og við hefðum bókstaflega ekki komizt af án hans. Það er hinsvegar rétt, að Spánarmarkaðurinn hefir komið okkur að litlu liði á undanförnum árum, eftir að borgarastyrjöldin brauzt út. Við höfum þó alltaf getað haft þangað nokkra sölu og yfir sumarmánuðina tókst að selja þangað fisk fyrir miklu hærra verð en nokkurstaðar annarstaðar, eða 60 þús. pakka af saltfiski fyrir ca. ¼ millj. kr. Þetta eru peningar. sem sjávarútveginn munar um. Íslendingar gátu ekki byrjað að fullu aftur saltfiskssölu sína til Spánar fyrr en íslenzka stjórnin var búin að viðurkenna hina nýju stjórn Francos. Nú hefir það verið gert, og Spánarsamningurinn er í gildi ennþá, þar sem honum hefir ekki verið sagt upp af hálfu hinnar nýju stjórnar á Spáni. Það má segja, að þessar þjóðir muni lítið um það, þó að við kaupum hið suðræna vín af þeim. En það er ekki það, sem mest gildi hefir fyrir þær, að selja sem mest. Það er hreint og beint stefnumál þessara þjóða, að framleiðsluvörur þeirra eigi greiða leið til sölu. Það er þeirra áhugamál, að þessar stóru framleiðsluvörur þeirra fái með viðskiptunum notið hagkvæmra kjara og unnið álit viðskiptavinanna, líkt og við óskum eftir með sölu okkar á saltfiskinum. Milliríkjasamningar eru ekki fyrst og fremst til þess að koma viðskiptum á um vissar vörutegundir, heldur fremur til þess að tryggja það, að ekki sé girt fyrir viðskiptin, og til að sýna, að þjóðirnar séu samningshæfar.

Ég veit, að hv. þm. gengur ekki annað en gott til með flutningi þessa máls. Ég er þess fullviss. að ef hann vill tryggja framgang frv., sé heppilegast fyrir hann að flytja fyrst þáltill. um það að skora á ríkisstj. að segja upp þessum samningi, sem hann virðist ekki telja þýðingarmikinn. Ætla ég þá, að frv. eigi greiða leið til framgangs.

Ég vil ekki tefja umr. frekar, en geta þess, að allshn. byggir sína afstöðu á þeirri vitneskju, að frv. komi í bága við gildandi milliríkjasamninga. Þessa samninga telur n. mjög þýðingarmikla og nauðsynlega til þess, að einn aðalatvinnuvegur þjóðarinnar geti þrifizt.