12.11.1939
Efri deild: 58. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2893)

105. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Flm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Ég vil ekki láta hjá líða að svara nokkrum aths. hæstv. félmrh. viðvíkjandi frv. og sýna fram á, að skoðun hans á málinu er fjarri öllum sanni. Ég skal jafnframt taka það fram nú, eins og ég áður tók fram í minni ræðu, að ég hafði ætlazt til, að hægt væri að leysa þetta mál án þess að til kasta þingsins kæmi. En nú, þar sem þetta var dregið á langinn og ekkert gert í málinu, þá sé ég, að svæfa átti málið, hreyfa hvorki hönd né fót og láta skeika að sköpuðu um verklýðshreyfinguna í landinu, — láta sundrung í félagsskapnum haldast til þess að núa sjálfstæðismönnum því um nasir, að það séu þeir, sem séu að reyna að eyðileggja verklýðssamtökin.

Eftir frv. er það þannig, að aðeins eitt verkalýðsfélag sé á hverjum stað, en það, sem aðallega gerir að verkum, að Alþfl. er á móti frv., er, að þeir fái ekki einir öllu að ráða um félagsskapinn eins og þeir vilja, því að þeir óttast, að þeirra pólitísku áhrifamenn komist ekki í allar trúnaðarstöður til að ráða þar öllu og gera félögin að pólitískum félögum, alveg eins og þau væru jafnaðarmannafélög. Þetta er það sem ég og sjálfstæðismenn yfirleitt álíta, að komi af stað svo mikilli sundrungu innan verkalýðssamtakanna.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að það þyrfti aðra en verkamenn til þess að standa fyrir verkalýðsfélögunum, því að verkamenn væru atvinnurekendunum of háðir og ættu því örðuga aðstöðu. Má vera, að slíkt sé, en þegar samtökin eru orðin eins gömul og í Hafnarfirði, þar sem þau eru orðin 30 ára, þá finnst mér einkennilegt, ef slíkt fyrirkomulag þarf að vera.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri brot á stjórnarskránni að lögbjóða eitt félag á hverjum stað. Ég man ekki eftir einu einasta þingi, að ekki hafi komið þar fram eitthvert mál sem einhver þm. hefir ekki sagt um, að bryti stjórnarskrána, og samt hafa þau mál verið samþ. af flokksmönnum þessa hæstv. ráðh. Yfirleitt eru skiptar skoðanir um, hvað sé á móti stjórnarskránni, og lögfræðingar deila um það, og ég skal upplýsa, að lögfræðingur hefir farið yfir þetta frv. og ekkert haft við það að athuga. Ég er því ekki nægilega kunnugur lagalega, hvað margt og mikið er samþ. hér á Alþingi, sem orkar tvímælis, hvort það brjóti í bág við stjórnarskrána, en það er þungamiðja þessa máls, sem mér finnst einkennilegt, að það skuli vera hægt að skylda menn til þess að vera í ákveðnum félagsskap, beinlínis skylda menn, en það er svo nú, að enginn getur verið verkamaður í kaupstað, ef hann er ekki í verkalýðsfélagi. Hann er skyldaður til þess, hvernig sem honum líkar. Getur maður ekki líka sagt, að slíkt sé brot á stjórnarskránni? En þegar svo er komið, að menn eru skyldaðir til að vera í ákveðnu félagi, þá er eðlilegt, að menn heimti allan þann rétt, sem félagið hefir upp á að bjóða, heimti, að þeir fái þau sömu réttindi og aðrir félagsmenn hafa þar, þó að þeir hafi aðra pólitíska skoðun.

Hæstv. ráðh. segir, að ekki hafi verið hægt að ráða við kommúnistana á alþýðusambandsþinginu, og þess vegna hafi orðið að gera það, sem gert var. En er ekki hægt að hafa einhverjar reglur fyrir því á þessum þingum, hvernig menn eigi að haga sér til þess að fá að sitja þar? Er ekki hægt að reka mennina? Þetta atriði þarf ekki að vera til þess, að menn, sem hafa aðrar skoðanir en Alþfl.-menn, fái ekki að sitja á þingum sambandsins.

Þetta sem ég hefi nú drepið á, sýnir, að það er tvennt ólíkt, kaupfélags- og verkamannafélagsskapurinn. Menn eru algerlega sjálfráðir, hvort þeir eru í kaupfélagi eða ekki, en inn í verkamannafélögin verða menn að fara nauðugir viljugir. Þetta vil ég biðja hæstv. ráðh. að athuga, og þá mun hann komast að raun um, að samanburður við verkamannafélögin er að þessu leyti alls ekki til.

Ég hefi þá svarað í fáum orðum aðalmótbárum hæstv. félmrh. gegn þessu frv., en ég vil enda orð mín á nokkrum atriðum, sem hann hefir minnzt á í þessu sambandi og snerta Hafnarfjörð.

Hæstv. ráðh. sagði, að ekkert væri við því að segja, þó að sjálfstæðismenn hefðu kosið kommúnista, það væri þeirra mál, en fannst það einkennilegt. Ég vil upplýsa, að það væri sama, við hvaða verkamann væri talað í Hafnarfirði, þeir mundu allir segja, að þó að kommúnistar séu djöfullegir, þá séu hinir þó ennþá verri, því að þeir hafa spornað við því af öllum sínum krafti, að nokkur sjálfstæðismaður fengi þar nokkra trúnaðarstöðu. Það má leita með logandi ljósi í öllum bókum verkamannafélagsins í Hafnarfirði, þar finnst ekki eitt einasta dæmi þess, að nokkur sjálfstæðismaður hafi fengið þar trúnaðarstöðu, en það hefir þó komið fyrir, að hægt hefir verið að fá samvinnu við kommúnista. Alþfl.-menn hafa aftur á móti alveg neitað því. Þess vegna er það ekkert undarlegt, þó að sjálfstæðismenn hafi neytt þessara bragða. En til þess að koma félagsskapnum í það horf, sem er til bóta, þá eru þeir fúsir til þess að rétta Alþfl.-mönnum höndina þrátt fyrir allar ýfingar og væringar, sem verið hafa áður, en ennþá trúa þeir ekki á heilindi þeirra, og þess vegna vilja þeir fá afgert með löggjöf, að allir skuli vera jafnréttháir í verkalýðsfélögunum. Svo ríkt er Tómasareðlið í þeim vegna þess óréttar, sem þeim hefir verið sýndur í þessum sjálfsögðu kröfum þeirra.