02.01.1940
Efri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2901)

105. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Ingvar Pálmason:

Það er rétt hjá hv. frsm. minni hl. allshn., að það virðist svo sem n. sé klofin í þrennt um þetta mál, og vil ég víkja lítillega að minni afstöðu.

Það eru þrjú meginatriði, sem í frv. felast. Fyrsta atriðið er það, að ekki skuli vera nema eitt stéttarfélag í sömu starfsgrein í hverju bæjar- eða sveitarfélagi. Ég skal játa það strax, að ég lít svo á, að þannig eigi það að vera, að ekki sé nema eitt stéttarfélag í hverju sveitarfélagi í sömu starfsgrein, en félögin geta auðvitað orðið mörg, þar sem margar stéttir geta verið í hverju bæjar- eða sveitarfélagi. Hinsvegar verð ég að játa, að ég tel það nauðungarúrræði að þurfa að skipa þessu með l. Ég get þó viðurkennt, að svo langt getur gengið að ekki verði hjá því komizt. Ég vil líta svo á, að ekki sé enn með öllu fullreynt, hvort ekki sé hægt að kippa þessu í lag án þess að til löggjafans komi.

Annað atriði má segja að sé það, að þeim einum, sem eru starfandi í þeirri starfsgrein, sem stéttarfélagið er myndað utan um, sé heimilt að vera meðlimum þess. Ég álít, að þetta ákvæði sé mjög varhugavert. Ég skal ekki taka fyrir, að ekki mætti gera þetta öruggara með l. en mönnum finnst það vera nú, en það verður að fara varlega í það, og ég er því mótfallinn, að það sé gert á svipaðan hátt og gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég skal ekki segja um, að ekki mætti gera það á einhvern annan hátt. Ef t. d. maður hefir verið verkamaður, en af einhverjum orsökum, sem geta verið margar, er það ekki lengur, þá er óréttlátt að svipta hann réttinum til að vera í þessum félagsskap. Hann hefir e. t. v. byggt upp félagið að meira eða minna leyti. Hitt er alveg rétt, að menn, sem aldrei hafa getað talizt vera í stéttinni, er ástæðulaust að láta hafa réttindi í slíkum félagsskap. En þetta tel ég allt svo viðkvæmt mál og vafasamt, að ég get ekki fallizt á frv.

Þá er 3. atriði, sem felst í 2. gr., það er að fulltrúar stéttarsambandsins skuli kosnir með hlutfallskosningu. Ég er mótfallinn þessari breyt. fyrst og fremst vegna þess, að talið var að gera þyrfti þessa breyt. á l. um stéttarfélög vegna þess, hve mikið hefði borið á pólitískum klofningi í verklýðsfélögunum, að það hafi orðið þeim að falli. Ég er þeim málum ókunnugur og skal ekki um þau dæma, en ef reyna á með ákvæðum þessara l. að girða fyrir slíkan ágreining innan félaganna, þá eru ákvæði 2. gr. ekki vel fallin til þess, heldur bjóða þau beinlínis upp á, að innan félaganna þróist pólitískir flokkar, auk þess sem ég lít svo á, að verklýðsfélagsskapurinn sé þannig vaxinn, að hlutfallskosning geti ekki komið til greina. Ég lít t. d. á þau eins og bindindisfélagsskapinn, sem ég er vel kunnugur. Ég get ekki séð, að þar geti verið um hlutfallskosningu að ræða. Það getur komið upp ágreiningur innan félagsskaparins, t. d. geta verið þar bannmenn og andbanningar, en það er ekki hægt að leiða til lykta með hlutfallskosningu, heldur verður einfaldur meiri hl. að ráða. Mér finnst svipað ástatt með þetta og verklýðsfélag, þar sem t. d. ? hlutar félagsmanna væru kommúnistar og ? hlutinn væri annars flokks, t. d. sjálfstæðismenn eða alþýðuflokksmenn. Ég sé ekki annað en að það sé hreinasta ranglæti, ef svo á að hafa hlutfallskosningu í þessu félagi. Mér finnst miklu réttara, að meiri hl. skeri úr og ef kommúnistar eru í meiri hl., þá verða hinir að beygja sig fyrir því, og ég álít ekki, að slíku eigi að breyta með lagaákvæði.

Um fleiri atriði sé ég ekki ástæðu til að ræða. Ég hefi tekið fram, hvað mér finnst vera aðalbreyt., sem frv. geri á gildandi l. um stéttarfélög. Ég hefi gert grein fyrir, að það er eitt atriði, sem lítur út fyrir að verði að komast inn í l., svo að l. verði þannig, að ekki verði nema eitt stéttarfélag í hverju sveitar- eða bæjarfélagi. En mér er ljóst, að það er varhugavert að gera þetta með lögboði, og það má ekki gera fyrr en öll önnur sund eru lokuð.

Um hitt, að það skuli aðeins vera starfandi menn í hverri starfsgrein, sem séu meðlimir, þá hefi ég áður lýst minni skoðun á því. Frá mínu sjónarmiði er það allt of mikil harðleikni að meina þeim mönnum, sem verið hafa í starfsgreininni áður, að vera áfram meðlimir í félögunum, þegar þeir eru ekki lengur starfandi í þeirri starfsgrein. Hinsvegar gæti ég hugsað mér, að það mætti koma þarna inn ákvæði um það, að þeir einir mættu vera í þessum félögum, sem hefðu verið starfsmenn innan iðngreinarinnar. En ég vil taka fram, að um þetta atriði gildir hið sama og hin; ég tel heppilegast, að þetta væri lagað með l. viðkomandi félags.

Ég get því ekki fylgt frv. eins og það er, en ég hefi ekki heldur séð mér fært að bera fram brtt., sem gæti fullnægt mínum skoðunum. Hinsvegar tel ég mjög æskilegt, að fram kæmi hjá hv. d. vilji um það, að d. væri því mjög meðmælt, að þessir agnúar gætu lagazt án íhlutunar löggjafarvaldsins.

Eftir því, sem hæstv. atvmrh. fórust orð við 1. umr., vildi ég mega vænta þess, að ríkisstj. hefði með höndum ráðstafanir í þessu efni, svo það þyrfti ekki að koma til löggjafarvaldsins.