02.01.1940
Efri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (2906)

105. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég sagði nokkur orð áðan um þessa dagskrártill. áður en hún kom fram. Ég vildi benda á, að efni hennar er fyrst og fremst það, að það sé eitt félag fyrir hverja stétt á hverju félagssvæði.

Það komu fram efasemdir hjá hv. 2. landsk. um, að rétt væri að hafa eitt verklýðsfélag á hverju félagssvæði fyrir hverja stétt verkamanna, vegna ósamkomulags, sem væri í verkalýðshreyfingunni. Ég fyrir mitt leyti álít, að hægt sé að fullyrða það, að sú staðhæfing styðjist við reynslu, sem ekki verður véfengd, að það fyrirkomulag sé heppilegast, að hafa aðeins eitt félag á hverjum stað, það er ekki mögulegt að koma sæmilegum vinnufriði á í neinu þjóðfélagi, nema verkalýðsstéttirnar standi saman sem heild, bæði í hverju einstöku félagi og almennt í verkalýðsfélagsskapnum í landinu, og myndi eitt heildarfélag, sem samningsaðilar geti snúið sér til. Allt annað ástand miðar að því að halda uppi stöðugum vinnuófriði, sem er ófarsælt fyrir þjóðfélagið og verklýðsstéttina sjálfa.

En það er annað atriði, sem ef til vill gæti valdið ágreiningi. Það hefir verið deilt um það, hvort enginn geti gerzt meðlimur þessara félaga aðrir en þeir, sem séu starfandi meðlimir þeirrar stéttar, sem félagið er fyrir. Hér er farinn sá meðalvegur, að menn, sem ekki hafa starfað í stéttinni síðustu ár og hafa ekki tekið þátt í samtökum hennar, en hafa starfað í þeirri stétt og eru vaxnir upp úr henni, ef svo mætti segja, geti gerzt meðlimir. Þess vegna er ætlazt til þess, að menn, sem tekið hafa þátt í störfum verkamanna og unnið síðan annað, geti tekið þátt í verklýðsfélagsskap í þeirri stétt, t. d. smiður, sem horfið hefir frá þeirri iðn og hefir tekið að sér annað starf í þjóðfélaginu, hvað sem það svo er. Maður hefir bezt dæmi um ýmsa slíka menn í nágrannalöndunum, þar sem verkalýðsfélagsskapurinn hefir náð miklum þroska, að þeir hafa tekið við ýmsum vandasömum störfum í þjóðfélaginu, og þeir hafa getað haldið áfram að vera meðlimir þess félags, sem þeir voru í meðan þeir voru í þeirri stétt og unnu þau störf, sem sú stétt stundar.

Þá er ennfremur gert ráð fyrir því, að Alþýðusamb. Íslands verði óháð öllum stjórnmálaflokkum. En ég veit, að mörgum í Alþfl. þykir þetta eðlileg þróun frá því, sem áður hefir verið. Ég heyri það á ræðu hv. 2. landsk., að hann hefir verið því fylgjandi frá upphafi. En hann hefir látið þau orð falla, að hann hafi snúizt gegn þessu fyrir það, að kommúnisminn hafi náð nokkrum tökum á félagsskapnum, því að hann tekur það fram sem sína skoðun, að Alþýðusamb. Íslands eigi að vera óháð öllum stjórnmálaflokkum. En hv. 2. landsk. lýsti því jafnframt hér, sem ég get vel gengið inn á, að það muni vera rétt, að kommúnisminn væri nú eiginlega algerlega dauður í félögunum, og þess vegna ætti hv. 2. landsk. af sömu ástæðum og hann áður var því fylgjandi, að Alþýðusambandið ætti að vera óháð stjórnmálaflokkum, að vera því samþykkur nú, að Alþýðusamb. Íslands væri óháð stjórnmálaflokkum, þar sem kommúnisminn er dauður, því að þá er ástandið orðið eins og fyrst, þegar hv. 2. landsk. hafði þessa skoðun og barðist fyrir henni.

Það er að vissu leyti eðlilegt, að Alþfl. vilji ekki breyta til í þessu efni. En þetta ákvæði hefir komið mjög illa við víða á landinu, og það hefir verið bent á, að þetta væri eðlilegt fyrirkomulag á byrjunarstigi félagsskapar og hafi verið tekið upp til þess að styrkja Alþýðusambandið og um leið Alþfl., meðan það hvorttveggja var á byrjunarstigí. En alstaðar hefir verið litið á það sem eðlilegan hlut, að frá þessu yrði horfið síðar. Og ég hygg, að margir Alþfl.-menn telji það rétt að breyta þessu. Ég get t. d. tekið það sem dæmi, hvernig þetta hefir komið við í því kjördæmi, sem ég er þm. fyrir. Það er verklýðsfélag á Hólmavík, — ég man ekki, hve margir meðlimir eru í því félagi, sennilega 60 til 70. Þeir þurfa að senda fulltrúa á alþýðusambandsþingið, en ég held, að í þessu félagi séu varla fleiri en 3–4 Alþfl.-menn (BrB: Hafa verið aðeins 2.), og það hefir orðið að kjósa þessa Alþfl.-menn á þing Alþýðusamb. fyrir þessa 60 til 70 menn, sem í félaginu eru. Það er ekki of djúpt tekið í árinni, þó að sagt sé, að þeir séu ekki fleiri en 3–4, og sumir segja 2. Með kosningu þessara fulltrúa kemur náttúrlega ekki fram mynd af vilja félagsins.

Ég skil ekki vel afstöðu hv. 2. landsk., sem mér virtist í raun og veru vera samþykkur þessari till. En hann vill tala varlega um þetta mál, því að vitanlega er síðasta atkv. um þetta ekki í höndum Alþ., heldur annara. Hinsvegar er málið afgr. í fullu trausti þess, að öll atriði málsins, sem fram hafa komið, verði tekin til greina.