18.04.1939
Efri deild: 43. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2919)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Eins og ég gat um og eins og frv. ber með sér, þá er þetta frv. öðruvísi en frv. það um vaxtaskatt, sem hv. 1. þm. N.-M. hefir borið fram, þar sem var um að ræða nýjan skatt. En hér er alls ekki að ræða um nýjan skatt. Hér er aðeins um aðferð að ræða til þess að innheimta vissa hluta tekju- og eignarskattsins með vaxtaskatti, eins og frv. fer fram á.

Ég hygg að það muni ekki vera fjarri, sem hv. þm. reiknaðist til, að það mundu vera um 40 millj., sem slyppu framhjá skatti. Ég held, að það sé sízt of hátt reiknað. Hér er því um verulegan skilding að ræða, og ég hygg, að það muni ekki vera fjarri sanni, að ríkissjóður ætti að geta fengið þarna um ½ millj. án þess að leggja á nýjan skatt.

Ég gat ekki um það áðan, að það er hið sama varasama við þetta frv. eins og önnur frv. um vaxtaskatt, að það kemur dálítið niður á verðbréfamarkaðinum, því þegar verðbréfin verða ekki notuð sem skattaskjól, þá verða þau ekki eins girnileg vara eins og þau eru nú. En það er ómögulegt fyrir ríkið að halda uppi því, sem er lögbrot, jafnvel þótt eitthvað gott gæti af því leitt, og í þessu tilfelli er ekki hægt að halda uppi verðbréfamarkaði með því að gera hann þannig úr garði að menn geti svikið fé undan skatti. Það er þá nær að taka ákveðin bréf, sem stuðla að einhverju því, sem til þjóðþrifa telst, og gera þau skattfrjáls.

En út af aths. hv. 1. þm. N.-M. um það, að frv. þetta, ef að 1. yrði, myndi stuðla að því að menn hættu að telja fram verðbréf sín og sparisjóðsinnstæðu, og gera þannig óvissari þann grundvöll, sem liggur fyrir álagningu útsvara, þá verð ég að segja, að ég skil það ekki. Ég held, að það verði þvert á móti. Það er einmitt einn megintilgangur frv. að fá menn til þess að telja fram. Það á einmitt að vinna á móti þeirri freistingu, að telja ekki fram, þar sem menn vinna ekkert annað við það en að fá örlítið minni skatt. Mþn. gerði sér ríkar vonir um þetta, og að því á að miða sakaruppgjöfin í 11. gr. frv.

Það getur verið, að ég hafi ekki skilið vel, hvað hv. þm. var að fara, en ef það var þetta. sem hann meinti, þá held ég, að ekki þurfi að óttast það.