17.11.1939
Efri deild: 63. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (2924)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Brtt. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 299 og nú hafa verið veitt afbrigði fyrir, er í raun og veru ákaflega einföld. Hún er um það, að síðasti málsl. 2. gr. falli niður, sem er þannig: Afföll teljast til skatta.

Um þennan málslið er það að segja, að í honum er prentvilla. Það á að standa: Afföll eiga að teljast til vaxta. Og auk þess er þessi liður alveg óþarfur. því það stendur í frv., að um ákvörðun vaxtatekna skuli fara eftir ákvæðum l. um tekju- og eignarskatt. En í þeim tekjuskattsl. sem hér er um að ræða, er ákveðið um það, hvernig afföll reiknast en þau reiknast sem vextir, en það má deila þeim á fleiri ár, sem þar er um að ræða. Mér finnst alveg óþarfi að hafa þetta ákvæði hér, þar sem ákvæði um þetta er í l. um tekju- og eignarskatt. Um þessa litlu brtt. held ég, að geti ekki orðið neinn ágreiningur.

Um málið í heild skal ég ekki ræða nú, því það var nokkuð rætt við 1. umr.

Ég læt svo máli mínu lokið, nema tilefni gefist til, þar sem ég hefi skýrt í hverju breyt. er fólgin.