17.11.1939
Efri deild: 63. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (2925)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er í þessu frv. eitt atriði, sem ég vildi gjarnan fá frekari skýringu á, ef ég skil það ekki rétt. Það er sagt hér í frv., að vaxtagreiðandi eigi að halda eftir vaxtaskatti og síðan greiða hann til viðkomandi innheimtumanns. lögreglustjóra eða tollstjóra. Mér virðist málið horfa svoleiðis við, svo að ég taki dæmi, að það sé einn maður, sem skuldar jafnmikið eins og hann telur til eignar og greiðir engan eignarskatt, en hann eigi samt eitt skuldabréf upp á 20 þús. kr. En skuldin getur verið hærri, sem hann er í. Og nú er gjalddagi fyrsta dag ársins, og 6% vextir. Mér skilst, að þeir vextir, sem haldið er eftir fyrir vaxtamóttakanda. verði um 300 kr. Þessari upphæð á vaxtagreiðandi að koma til tollheimtumanns, sýslumanns eða lögreglustjóra, sem þeir svo geyma hjá sér þangað til búið er að gera upp skattinn á manntalsþingi á miðju ári, eða síðar því að í 3. gr. frv. segir:

„Nemi vaxtaskattsfjárhæð gjaldanda samkvæmt ofangreindu meira en honum hefir verið gert að greiða í tekju- og eignarskatt, skal sá mismunur endurgreiddur.“

Mér skilst eftir þessu, að hjá tollstjóra muni t. d. hér í Reykjavík lenda til geymslu vextir, sem ganga af framangreindum bréfum og sparisjóðsbókum, sem talað er hér um í þessu frv. Ef þetta er rétt skilið h,já mér, finnst mér það vera dálítið erfitt fyrir þá, sem eiga að fá vextina og þurfa kannske fljótlega að fá þá sér til framfæris, að verða að bíða ár eða meira eftir að fá þá og hafa upphæðina vaxtalausa. Eins eru það afarmikil umsvif fyrir tollheimtumennina að verða að hafa þetta feikna fé undir höndum. Verið getur, að hagnaður sé af því, ef leggja má það á sjóð. Mér finnst það æðimikill agnúi á þessum l., ef ekki verður gengið betur frá þessu atriði. En það getur vel verið, að það upplýsist, að ég hafi misskilið þetta atriði, og þætti mér gott að fá að vita það.