04.12.1939
Efri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (2931)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

*Frsm. (Magnús Jónsson) :

Hv. 5. landsk. þm. benti á það við 2. umr. þessa máls, að það væri dálítið óþægilegt fyrir menn, sem hafa vaxtatekjur, að verða fyrir bið á því, að þeir fái ¼ þangað til þær eru endurgreiddar aftur, ef þeir teldu þessar tekjur fram. Ég játa, að þetta er ekki gott, og mér þætti vænt um, ef hann gæti komið með góðar till. til þess að hægt yrði að sneiða hjá þessum litlu óþægindum. En svo var ekki, hann hefir í þess stað talað um aðra aðferð til þess að ná lögmætum sköttum af innstæðufé í sparisjóðum. Hann stakk upp á því að bjóða brtt., ef tími yrði til. Mér skildist, að sú till. myndi verða að neyða sparisjóði til að gefa upp alla innstæðu. Ég get sagt, að ég er alveg á móti þessu; ég held, að það sé ómögulegt að koma með nein lagafyrirmæli, sem mæla meira á móti því, að menn spari saman, heldur en ef lögð væri fullkomin skylda til að gefa upp alla innieign. Það mun nú vera í skattal. nokkur heimild, sem veitir skattayfirvöldum leyfi til þess að fá upplýsingar hjá bönkunum, a. m. k. um stærri innstæður. Bankarnir streitast á móti þessu af þeirri ástæðu, að það er óvinsælt. jafnvel þó þagnarskylda hvíli á. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að þó að ég fylgi þessu frv., þá álít ég það beinlínis neyðarvörn á móti því að neyða lánsstofnanir til að gefa upp innstæðufé. Auk þess er það beinlínis ómögulegt. Mjög mikið af innstæðufé er nafnlaust lagt inn í bankana. Jafnvel þó til væru lagafyrirmæli um það, að bankinn mætti ekki taka á móti fé, nema vita fyrir víst, að nafnið væri til, væri ómögulegt að komast að því, hvort nafnið væri til.

Ein aðalástæðan fyrir því, að menn langar til að spara saman fé, er það, að féð er skattfrjálst. Það kom fram till. um það, að fara heldur þá leiðina, að leggja á háa vaxtaskatta og heimila mönnum jafnvel að draga undan til skatts. Svo rík nauðsyn er á því fyrir lánsstofnanir að halda innstæðum manna leyndum, til þess að eggja menn á að spara saman peninga. Ég veit ekki. hvort það er nokkuð fallegt í þessu, en það þýðir ekki að streitast á móti þeim sparnaði, sem er í eðlisfari manna, að geyma peninga þar, sem aðrir vita ekki um þá. Ég mun ekki fylgja málinu af miklu forsi. Það er þegar búið að liggja nokkuð lengi í sömu d., og býst ég við, að það hafi fengið rækilega athugun. Ég vil endurtaka þá ósk mína, að hv. d. afgr. málið frá sér sem allra fyrst.