02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (2947)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

*Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Ég er sá minni hl. fjhn., sem frsm. meiri hl. gat um, og legg til, að frv. verði fellt. Það er ekki ágreiningur milli meiri og minni hl. um þau atriði, sem meiri hl. leggur til, að verði felld úr, og þarf ég ekki að mæla með því út af fyrir sig. En frv. í heild gerir ráð fyrir því, að teknar séu upp nýjar aðferðir til þess að ná gjöldum í ríkissjóðinn. Flutningsmenn hafa haldið því fram, að þetta séu ekki skattar. heldur innheimta, en það sést á nafni frv., að það er skattur, þar sem það heitir „um innheimtu tekjuskatts og eignarskatts af vaxtafé“. Ég vil í fyrsta lagi segja, að þetta er ekki réttnefni. því það fé, sem ætlazt er til að ná þessum vaxtaskatti af, er fé, sem ekki hefir verið greiddur skattur af áður. Það gildir einn, með hverju móti þetta fé hefir ekki komið til skatts. Nú er bezt að athuga, hvernig þetta mundi koma við skattgreiðendur og hver áhrif yrðu af því. Ef frv. yrði að lögum, verður náð skatti, sem er ¼ af vöxtum af spari- og innlánsfé landsmanna. Það er nú kunnugra en frá þurfi að segja hér, að þetta spari- og innlánsfé er að miklu leyti orðið til fyrir sparsemi og sjálfsafneitun ýmissa smáborgara og fyrir viðleitni þeirra til þess að neita sér um ýms gæði til þess að eiga eitthvað til, ef sjúkdóma eða slys ber að höndum, og þessi viðleitni hefir borið þann árangur, að auk þess, sem það hefir tryggt þessa menn, hefir þaðan komið aðalveltuféð til atvinnurekstrarins. Ég held einmitt, að það verði að gæta ýtrustu varúðar um að hindra ekki þessa starfsemi, og það er alveg sama, á hvern hátt það er gert, ef það kemst í vitund fólksins, að lítið þýði að vera að safna fé til tryggingar sér og sínum. Það á fremur að reyna að auka þessa starfsemi en að torvelda hana til þess eins að fá eyðslueyri fyrir ríkissjóðinn. Það væri þá nær að lækka útlánsvextina sérstaklega til þess að létta undir með atvinnuvegunum, það gæti verið eina ástæðan til þess að ganga þannig á fé innlánseigenda, en að ætla sér að reyta af þessu fé í ríkissjóðinn, tel ég illa ráðið. Nefndin er ekki klofin um þetta atriði, og skal ég svo spara mér fleiri orð um þetta, en þætti æskilegt, ef hæstv. forseti gæti lagt þessum smáfundamönnum til sérstakt herbergi. (Forseti: Ég vil biðja menn að hafa hljótt, svo ræðumaður geti flutt mál sitt).

Eftir frv. er lagt til, að þessir vextir séu teknir af opinberum verðbréfum, og teljast þar til bankavaxtabréf, ríkisskuldabréf, skuldabréf bæjar- og sveitarsjóða og stofnana þeirra, og önnur slík verðbréf, útgefin af opinberum stofnunum og fyrirtækjum, skuldabréf, víxlar og aðrar fjárkröfur, sem tryggðar eru með veði í fasteign að einhverju eða öllu leyti, eða með tryggingarbréfi í fasteign. Eitt af vandamálum okkar er sala vaxtabréfa. Alveg án þess að rannsaka. hve mikill markaður er innanlands fyrir slík bréf, hefir verið hvað eftir annað samþ. að gefa út milljónir af þessum bréfum. Menn eignast þessi bréf án þess að vilja, sumpart upp í skuldir og sumpart upp í önnur viðskipti. Þeir þurfa flestir að selja þau aftur, og það er misskilningur hjá þeim, sem fluttu þetta frv., ef þeir halda, að þessi skattur lendi á kaupanda bréfanna, því að það er skiljanlegur hlutur, að við það, að þessi kvöð er lögð á bréfin samkv. þessum nýju lögum, þá mundi kaupandi bara kaupa bréfin lægra verði. Það er því seljandi, sem mundi tapa, en ekki kaupandi. Ég held, að meðnefndarmenn mínir hafi ekki athugað nógsamlega, að nú er búið að torvelda verðbréfamarkaðinn til stórkostlegs tjóns fyrir landsmenn, og ástæðulaust að bæta við það með því að stofna til verðfalls á þessum bréfum.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en aðeins bæta því við að lokum, að það hefir þótt nauðsynlegt að leggja allverulegar álögur á almenning, sem er hækkun tollanna, með hinum nýja tollaskala. Það er alveg víst, að í venjulegu árferði nemur það milljónum króna. Það er hart fyrir þá menn, sem trúa því, að það eigi að skera niður útgjöld ríkissjóðs, að þurfa að vera með hverju frv. eftir annað, sem leggur kvaðir á almenning. Það kemur ekkert málinu við, þótt sagt sé, að þessir hlutir séu þarflegir. Menn leggja ekki féð fram nema þeir eigi það til. Ég vil í þessu sambandi leggja áherzlu á það, að raunverulega er hver einasti peningur, sem tekinn er til óheppilegrar eyðslu, tekinn af framleiðslunni. Það er því barátta gegn framleiðslunni, þegar við plokkum fé í ríkissjóðinn. Öll eyðsla, hvort sem er vegna dýrtíðar í landinu eða annars, verður að koma frá atvinnurekstrinum, og allt, sem gert er til þess að auka þessa eyðslu, kemur niður á atvinnurekstrinum. Ég held, að það Alþingi, sem nú situr, geti látið sér nægja þær álögur, sem búið er að samþykkja, og gæti látið þar staðar numið. Þess vegna vænti ég. að hv. deild aðhyllist þá tillögu mína að fella þetta frv.