02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2952)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

*Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að öll mín ræða hefði byggzt á þeim misskilningi, að sami tekju- og eignarskattur ætti að haldast og sá, sem lagður er á samkv. l. þar að lútandi. En þetta er misskilningur hjá honum. Í frv. stendur, að niður skuli falla þeir skattar, sem skattan. leggja á. En hér er aðeins um að ræða skatta, sem ekki hafa náðst inn áður, því að annars hefði ekki þurft að setja þessi l. Annars vil ég benda hv. frsm. meiri hl. á það, að þessi aðferð, að skattleggja verðbréf, er hvergi nærri tæmandi. Í fyrsta lagi hefir meiri hl. n. fallizt á að undanskilja sparifé, sem er mestur hluti þess fjár, er til greina kemur, og svo eiga margir menn mikið fé hjá öðrum, sem ekki er tryggt með þinglesnum bréfum, og er ekki hægt að ná skatti af því.

Hv. þm. Borgf. sagðist hafa heyrt, að fé það, sem ekki kæmi til skatts, næmi um 10 millj. króna. Hann taldi það ótækt, að ekki næðist skattur af þessu fé, en lézt þó vera samþykkur því, að 30 millj. króna innlánsfé slyppi við skatt, ef skatti yrði náð af þeim 10 millj., sem þá eru eftir. Þetta er nú skrítin lógík. En þó að þetta séu óstaðfestar tölur, þá skal ég ekki véfengja þær, bendi aðeins á, að af þessum verðbréfum er mikill hl. í höndum stofnana, sem ekki eru skyldar að greiða skatt. (PO: Það er dregið frá). Hvaðan hefir þá hv. þm. það? (PO: Ég hefi það frá milliþn. í skattamálum). En hún lýsir yfir því í nál., að þetta séu ekki rannsakaðar tölur, heldur aðeins ágizkun, svo að það er víst ekki mikið á þeim að byggja. Annars skil ég það, að þeir hv. þm., sem eru með í þeim danzinum að hækka útgjöld ríkisins, geti ekki staðið á móti nýjum álögum. Hv. þm. Borgf. er í fjvn., og hún hefir gengið þannig frá fjárl., að þau nema nú hátt á 20. millj. króna, hækkunin hátt á aðra millj., og er þessi hækkun meiri en leiðir af gengisbreytingunni að viðlögðum vöxtum og afborgunum af lánum. Þeir, sem eru með þessu, geta vitanlega ekki staðið á móti því að afla ríkinu tekna. En þetta er samt röng stefna. Þær miklu álögur, sem felast í hinni nýju tollskrá, ættu að mínum dómi að nægja til að mæta útgjaldaaukningunni, því að ég vil ekki ýta undir þá stefnu að spenna útgjöldin upp úr öllu valdi með því að bæta í sífellu á nýjum álögum. Slíkt hlýtur að hafa mjög lamandi áhrif á atvinnuvegi landsmanna. En þó að þessi skoðanamunur, sem hér kemur fram, sé mikilvægur, getur verið, að hann sé ekki aðalatriðið í þessu máli, og ég vil endurtaka það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að hér er fyrst og fremst um það að ræða, hvort teppa eigi verðbréfamarkaðinn eða ekki. Af þessu getur ekki annað leitt en fall á verðbréfum í landinu, en það yrði sama og aukin útgjöld fyrir seljendur verðbréfa, því að kaupendur munu alltaf taka tillit til þeirra útgjalda, er þeir munu hafa af verðbréfunum.

Alþingi mun nú skera úr um það, hvort það telur fært að torvelda verðbréfamarkaðinn í landinu á þennan hátt. Það væri ekki að undra, þó að t. d. bréf hreppakreppunnar féllu niður úr öllu valdi, ef þessar álögur yrðu samþ., þó að goldnir séu góðir vextir af þeim, eða 5½%. því að nú þegar er ekki hægt að selja þau fyrir nafnverð. Það má því geta nærri, hvernig fer fyrir þeim og öðrum, sem af eru goldnir minni vextir, ef enn er bætt við nýjum álögum. Mönnum kann að virðast þetta smávægilegt atriði miðað við það, sem ríkið hefir upp úr þessu. En það er engan veginn smávægilegt atriði, hvort hægt er að selja verðbréf innanlands. Þessi lúsaleit að tekjum handa ríkissjóði er stórkostlega háskasamleg. Menn eru beinlínis orðnir hræddir við að láta nokkurn mann vita, að þeir eigi nokkuð eða geti nokkuð, þeir eru farnir að fela það, eins og þeir hefðu stolið því. Eitt af því, sem styður þetta, er hin eilífa lúsaleit að möguleikum til að leggja á menn nýjar álögur.

Ég sé ekki ástæðu til að fara hér út í nál. Það er mjög loðið og þvættingslegt og ber með sér, að þeir, er málið fluttu, eru ekki trúaðir á þessa tekjuöflunarleið. Þeir sjá væntanlega, að mikið af eignum manna hlýtur hvort sem er að komast undan skattgreiðslu, ef menn reyna að fela þær.

Ég hefi sjálfur nokkra reynslu á því að ná framtölum af mönnum til skatta, og mér fannst til um það, þegar ég var formaður í skattanefnd í smábæ einum á Íslandi, hve menn höfðu mikla tilhneigingu til þess að leyna fé sínu, eins þeir, sem áttu lítið. En það er ekki svo undarlegt, þó að menn hafi löngun til að fela eignir sínar í því þjóðfélagi, þar sem einstaklingurinn er skoðaður sem sekur um að hafa tekið það, sem hann átti ekki, ef hann eignaðist eitthvað. Þegar svo er komið, að gerð er herferð móti öllu, sem maður á, og reytt af því í þarfir hins opinbera og þar á ofan lögð á mann óvild fyrir að hafa safnað saman þessum aurum, þá er ekki undarlegt, þó að fram komi í slíku þjóðfélagi rík tilhneiging til að fela eigur sínar. Það er miklu betra að snúa við blaðinu og leyfa mönnum að koma frjálsum fram með sínar litlu eignir til nytja fyrir þjóðfélagið.