04.01.1940
Neðri deild: 103. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (2958)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti! Þetta frv., sem hér liggur fyrir, um innheimtu tekju- og eignarskatts, er hugsað þannig af þeirri n., sem samdi frv., að með því væri fundin leiðin til þess að tryggja það, að allar eignir manna og tekjur kæmu fram til skatts. Frv. á þess vegna raunverulega að vera, eftir því sem n. hugsar sér það, form fyrir innheimtu tekju- og eignarskatts. Ég skal strax taka það fram, að að svo miklu leyti, sem þetta frv. getur skoðazt sem trygging fyrir því, að menn telji eignir sínar rétt fram, þá hefi ég ekkert á móti því. Því að það dettur engum í hug að mæla því bót. að einstakir menn eða fyrirtæki skjóti eignum sínum eða tekjum undan skattaframtali.

Eins og frv. var frá fyrstu hendi n., þá voru það þrennskonar eignir, sem sérstaklega átti skv. frv. að hafa vakandi auga á og þetta frv. átti að ná til: Í fyrsta lagi sparisjóðsinnstæður manna í bönkum. Í öðru lagi veðskuldabréf, ríkisskuldabréf, kreppulánasjóðsbréf og önnur slík bréf, sem út eru gefin af ríkinu eða opinberum stofnunum. Í þriðja lagi skuldabréf og víxlar, sem tryggðir eru með veði í fasteignum.

Ég skal nú athuga þessa þrjá liði, þó að segja megi, að ekki þurfi að athuga fyrsta liðinn, um sparisjóðsinnstæður, vegnu þess að við 2. umr. var hann felldur niður. Það kom fram í nál. mþn., að þær eignir, sem ekki koma til skattframtals í ríkisskuldabréfum og öðrum bréfum. sem tryggð eru með veði í fasteignum, og sparisjóðsinnstæðum mundu nema um 40 millj. króna. Ég efast um, að þessar ályktanir séu réttar, því að ég álít, að n. hafi ekki haft möguleika til þess að fá óyggjandi vissu fyrir því, hve mikið af veðdeildarbréfum og ríkisskuldabréfum er í eigu ýmsra sjóða, sem sérstaklega ávaxta sitt fé í slíkum bréfum, og sem eru skattfrjáls. Ég þekki til margra sjóða innan eins félagsskapar hér í bæ, sem nema samtals hundruðum þúsunda kr. Og mér er óhætt að fullyrða, að þessi félagsskapur fékk aldrei nein tilmæli frá mþn. um það að gefa upp, hve mikið af bréfum væri eign þessa félagsskapar. Og þessi félagsskapur hefir því ekki gefið mþn. neinar upplýsingar um verðbréfaeign sína. Nefndin hefir því vissulega ekki dregið frá þessum 40 millj. þá verðbréfaeign, sem slíkir sjóðir eiga, en hún nemur verulegri upphæð. Það er þess vegna að minni hyggju víst, að þær tölur, sem mþn. hefir gefið upp, geta ekki verið ábyggilegar.

En aðalatriðið er, að af þessum 40 millj. kr., sem m]m. telur, að ekki séu taldar fram til skatts, eru, eftir því sem nefndin segir, um 30 millj. faldar sem innstæðufé í bönkum og sparisjóðum. Nú vill svo til, að hæstv. Alþ. hefir fellt burt það ákvæði frv., sem þannig náði til þeirrar upphæðar, sem var langmestur hlutinn, sem sé spariféð, og er það eflaust vegna þess, að bankarnir óttuðust fjárflótta, ef þetta næði fram að ganga. Prinsipinn er því alveg fyrir borð kastað með því að fella burt þennan lið. Ég hygg, að það séu ákaflega margir, sem álíta. að veðskuldabréf sé sú eign, sem e. t. v. mest sé falin hjá einstökum mönnum og stofnunum. Þau eru tvennskonar, annaðhvort stíluð á handhafa eða nafn, og það er sjálfsagt, að af því opinbera séu gerðar ráðstafanir til þess, að þessi bréf séu gefin upp og talin fram til skatts. En hinsvegar hygg ég, að færri af hv. þm. hafi athugað það, að skattstofan hér í Reykjavík hefir tekið upp reglu, sem útilokar annað en að slík bréf komi fram til tekju- og eignarskatts, sem sé þá, að sá, sem innheimtir vexti af þessum bréfum, skuli standa skil á skattinum, hvort sem bann í raun og veru er eigandi bréfanna eða ekki. Það er sjálfsagt ekki óalgengt, að lögfræðingar séu t. d. beðnir að innheimta vexti af slíkum handhafaskuldabréfum og að þeir gefi ekki upp, hver eigi bréfin. Þeir hafa þagnarskyldu og því ekki leyfi til, ef eigandinn krefst þess, að skýra frá því, hver eigi bréfin. Þeir fara til þess manns, sem skuldar, og krefja hann um vexti og afborganir af bréfunum. Skuldunautur greiðir vextina og afborganirnar gegn kvittun. Nú er það hagsmunaatriði fyrir vaxtagreiðanda að telja fram þessar greiðslur af skuldum sínum til frádráttar skattskyldum tekjum. Og skattstofan fer svo eftir kvittun þeirri, sem vaxtagreiðandi heflr í höndum til þess manns, sem tekið hefir á móti vöxtunum. Og hann um það, hvort hann gefur upp annan eiganda að bréfunum; geri hann það ekki, verður hann sjálfur að borga af þeim tekju- og eignarskatt. Gefi hann upp annan eiganda að bréfunum, þá er tekju- og eignarskattur af bréfunum borgaður eigi að síður. Þannig er það þess vegna tryggt, að skattur næst af skuldabréfum, hvort sem þau eru gefin út á nafn eða handhafa. Ég held þess vegna, að þetta ákvæði í frv. um veðskuldabréf sé óþarft, af því að ríkissjóður nær sama tilgangi án þeirra á miklu einfaldari hátt, með því að láta þann, sem innheimtir vexti og afborganir af bréfunum, greiða skattinn, ef annar eigandi er ekki gefinn upp.

Nú vil ég benda á atriði í þessu frv., sem ég og ýmsir aðrir álíta ákaflega varhugavert og beinlínis áhættusamt fyrir ríkissjóð, ef samþ. verður. Það er, að í frv. er sérstaklega tekið fram, að sá, sem á að greiða vexti af skuldabréfum, sé ekki skyldugur til að greiða þeim manni, sem kemur með bréfið og krefst vaxta, meira en 75% af þeim. Ef um væri að ræða bréf upp á t. d. 10 þús. kr. með 6% vöxtum, þá á þessi maður að greiða 600 kr. í vexti af því á ári. Nú segir hann: Þessi lög banna mér að greiða þér nema ¾ af vöxtunum, þess vegna borga ég þér aðeins 450 kr., en 150 kr. held ég eftir sjálfur, sem er vaxtaskattur. Vaxtamóttakandi fær svo kvittun fyrir skattgreiðslunni. Skuldari bréfanna á raunverulega heimtingu á því að vaxtagreiðslan, 600 kr., sé færð inn á bréfið að fullu, þó að hann hafi ekki greitt nema 450 kr., því að hann afhendir vaxtamóttakanda kvittun fyrir, að hann hafi greitt þann hluta vaxtanna, sem heitir vaxtaskattur. Sú kvittun er gefin út á ábyrgð ríkissjóðs og eigandi bréfanna getur notað hana sem greiðslu á sínum skatti síðar.

Nú vil ég spyrja, hvort hv. þm. hafi athugað, að það er engin trygging fyrir því í frv., að sá sem þannig sleppur með það í augnablikinu að greiða aðeins 75% af vöxtum veðskuldabréfanna, greiði þau 25%, sem hann hélt eftir, síðar til ríkissjóðs. Og þegar vaxtagreiðandi hefir látið færa að fullu vaxtagreiðsluna inn á bréfið. þá er ekki lengur neitt veð fyrir þessum eftirstöðvum vaxtanna. Þessi umboðsmaður ríkissjóðs er fyrir hönd ríkissjóðs búinn að gefa kvittun fyrir þessum ¼ hluta vaxta, án þess að ríkissjóður hafi sama veð í fasteigninni og veðskuldabréfseigandinn hafði. Ríkissjóður hefir að vísu lögtaksrétt, en það er ekki þar með sagt, þó að greiðandi eigi fasteign, að hún sé meira virði en það, sem á henni hvílir. Ég get því ekki séð, að ríkissjóði sé tryggður möguleiki til þess að fá þessar 150 kr. í þessu dæmi.

Ég skal upplýsa það, til þess að sýna fram á að hér er ekki um neina smámuni að ræða, að fasteignamat á húsum hér í Reykjavík mun nema um 100 millj. kr. Út á þær eignir hafa verið tekin veðdeildarlán að upphæð ca. 30 millj. kr., þannig, að í fasteignum hér í Reykjavík eru um 70 millj. kr. virði eftir fasteignamati fram yfir það, sem ætla nú, að hvíli á þeim til veðdeildar Landsbanka Íslands. Það má fullyrða, að á fasteignum hér í Rvík hvíli ekki minna en fasteignamati þeirra nemur, og munu því veðskuldabréf, tryggð með 2. veðrétti og ofar, ekki nema minna en ca. 70 millj. — en jafnvel mun meira. Vextir af þessum veðskuldum verða þá á ári 4 millj. og 200 þús. kr.

Nú er þessi ¼ hluti af þessum vöxtum, sem skuldarar eiga að halda eftir og gefa kvittun fyrir á ábyrgð ríkissjóðs, eftir því um 1 millj. kr. á ári, og er ríkissjóður þar búinn að forminu til að meðtaka sem greiðslu upp í tekju- og eignarskatt, en hann hefir hinsvegar enga tryggingu fyrir því, að þeir, sem þessu fé eiga að skila af sér til hans, geri það.

Við skulum hugsa okkur t. d , að það sé maður hér í bæ. sem eigi fasteign að verðmæti 100 þús. kr. Þessi fasteign gefur honum góðar tekjur. En maðurinn er fátækur og fasteignin er veðsett alveg upp í topp. Nú á ég t. d. fyrsta eða annars veðréttar bréf í þessari eign. Ég kem til mannsins og kref hann um vexti og afborganir. Hann mundi borga mér, vegna þess, að þetta er svo góður veðréttur, sem ég hefi, að hann veit, að ég muni gegnum uppboð ná mínum peningum, ef ekki vill betur til. En hann þarf ekki að borga mér nema ¾ vaxtanna og gefur mér kvittun fyrir 1500 kr., sem ég hafi greitt upp í tekju- og eignarskatt minn næst er hann fellur í gjalddaga. Þegar ríkissjóður kemur svo til að innheimta þennan fjórðung af vöxtunum, á maðurinn ekkert til að borga með. Þá kann ríkissjóður að segja, að þessi maður geti eins vel borgað honum og veðhafanum á sínum tíma. En þar til er því að svara, að húseigandinn hefði viljað gera allt, er í hans valdi stóð, til að greiða mér sem veðhafa, af því ég annars gat þvingað fram greiðslu. En ríkissjóður, sem ekki hefir neinn veðrétt, getur það ekki. Þessi maður e. t. v. notar því í annað þann hluta vaxtanna — í þessu tilfelli 1500 kr., sem hann upphaflega gat greitt veðhafanum, en hirðir ekkert um ríkissjóð. — Ríkissjóður hefir ekkert, nema lögtaksréttinn í húseign, sem er yfir sig veðsett. Ég held það geti ekki verið meiningin hjá þeim, sem að frv. standa, að þetta eigi að verða að l. óbreytt. Hér í Reykjavík eru í umferð þúsundir slíkra verðbréfa, sem þá ætti aðeins að greiða ¾ af vöxtunum af, en ¼ að greiðast sem ávísun á ríkissjóð og gilda sem kvittun fyrir jafnhárri greiðslu tekju- og eignarskatts. Það verða þannig jafnmargir innheimtumenn fyrir ríkissjóð á tekju- og eignarskatti og mörg veðskuldabréf eða veðtryggðir víxlar eru í umferð. Og allir geta þessir innheimtumenn rólegir haldið eftir 25% af vöxtunum og gefið út kvittun á ábyrgð ríkissjóðs. Það eru sett ákvæði um lögtak hjá þeim, sem eiga að skila þessum ¼ í ríkissjóð. En eftir er að sjá hve vel innheimtist með því lagi. Það má sjá í bókum hjá lögmanni, hver árangur er yfirleitt af lögtökum í Reykjavík. Þó að vaxtaskattur eigi skv. grg. frv. að gefa ríkinu tugi þúsunda króna, er ekki séð, að hann verði ýkja mikill nema á pappírnum. Ég hélt það skipti ekki ríkissjóð miklu, hvort það er ég eða einhver annar, sem greiðir skattinn af einhverri tiltekinni vaxtafjárhæð, aðeins að hann fáist greiddur. Nú verða menn að gefa upp, hverjum þeir greið, vexti, nema þeir vilji borga af þeim skattinn sjálfir, og þannig fær ríkissjóður oftast sitt. Ég hefi sýnt fram á, að eftir þessum ákvæðum frv. verður innheimtan þeim vandkvæðum bundin, að það er a. m. k. vafasamt, að ríkissjóður græði á breytingunni.

Nú vil ég benda á annað, sem líka er auðséð, að hv. Alþingi hefir ekki enn tekið eftir. Einfaldast er að segja það með dæmi: Ef ég á 100 þús. kr. verðbréf hjá manni, sem hefir borgað af því láni 6 þús. kr. í vexti á ári, og gjalddagi vaxtanna er 1. sept., fæ ég aðeins 4500 eftir frv. og kvittun fyrir 1500 kr. borgun upp í tekju-og eignarskatt, sem greiðast á 1. ág. næsta ár. Ég fæ enga vexti af þessum 1500 kr. allan þann tíma, — 11 mánuði. En það getur þó ekki verið tilætlun löggjafans, að í 11 mánuði skuli ríkissjóður halda þessu algerlega vaxtalausu. Í frv.var aðeins gert ráð fyrir, að bankar svöruðu til innlánsvaxta. En eins og frv. er nú, er, eins og ég sagði, lágt reiknað, að þau 25%, sem greiðast eiga af vaxtafé í ríkissjóð, geti numið 1 millj. kr. á ári. Það þýðir, að þegar tekju- og eignarskattur hvers árs fellur í gjalddaga, er löngu búið að innheimta af honum þessa milljón króna og sölsa næstum ársvexti af henni undir ríkið. Hvers vegna eiga skattgreiðendur að þola það, að ríkissjóður svari ekki til þeirra vaxta?

Ég skal játa um veðdeildarbréfin, að þau eru sú eign, næst sparisjóðsfénu, sem búast má við, að sé að einhverju leyti falin og að einhverju leyti auðvelt að fela, af því að þau ganga manna milli kaupum og sölum og ekki hægt að rekja slóð þeirra eins og veðskuldabréfanna út frá vaxtagreiðslum skuldara. En hér verður að líta á það sama sem hv. fjhn. tók til greina um spariféð, þegar það var við síðustu umr. fellt úr frv., sem sé að það er ekki neinum vafa bundið, að ef þetta er samþ., falla veðdeildarbréfin í verði. Það eru kannske ekki frambærileg rök, að það sé af því, að þá sé ekki hægt að fela þau lengur. En það mælti lögbjóða að skrá þau á nafn og sjá, hvort þau verðféllu eins við það. Og hvernig sem að er farið, bitnar vaxtafjárskattur á veðdeildarbréfum á þeim, sem byggja hús hér í Rvík. Þeir fá þessi bréf úr veðdeild Landsbankans, sem hvergi ganga sem peningar og hvergi er hægt að selja nema með þeim afföllum, sem kunnugt er um. Stórhækkun affallanna mundi bætast við byggingarkostnaðinn. Þótt þetta sé sá eini liður frv., sem á dálítinn rétt á sér, get ég af þessum ástæðum ekki fylgt honum, enda tel ég mögulegt að ná tilganginum á annan hátt. Menn verða að gæta þess, hve háskaleg verðfelling bréfanna getur orðið, og þeir, sem kunna að hafa falið bréf sin, halda áfram að fela þau, láta sér heldur nægja aðeins ¾ vaxtanna, en vinna það upp með því að gefa þeim mun minna fyrir bréfin. Ég sé, að Páll Zóphóníasson, vinur minn hv. 1. þm. N.-M. hristir höfuðið yfir þessu. Og ég vil benda honum á, að hann hefir fengizt við kaup og sölu verðbréfa fyrir aðra, t. d. kreppulánasjóðsbréfa, og hann veit, að þegar Landsbankinn skráir veðskuldabréfin t. d. á 89% nafnverðs, er það ekki sú skráning bankans, sem ræður dagsgengi veðdeildarbréfa, og ekki heldur Söfnunarsjóður Íslands, Sjóvátryggingarfélagið, Útvegsbanki eða Búnaðarbanki, heldur fyrst og fremst framboð og eftirspurn einstaklinganna, sem daglega verzla með þessi bréf, kaupa þau eða selja. Því minna sem einstaklingarnir gefa fyrir þau, því minna gefa þessar stofnanir fyrir þau. Því er málið ekki eins einfalt og virðist. Erlendis, þar sem vísir til slíkrar löggjafar hefir verið á ferð, hafa menn fljóti goldið varhuga við honum. Í Noregi var settur vaxtaskattur, mjög líkur því, sem hér er farið fram á, en horfið frá honum aftur. Í Danmörku var borið fram frv. í sömu átt, en nú hefir Finansminister Buhl dregið það til taka.

Ég er á móti frv. En ef það á samt sem áður fram að ganga, mun ég bera fram skrifl. brtt. um, að b-liðurinn, fyrrum c-liður, um veðskuldabréf, falli burt. Svo eru 2 brtt., sem eru afleiðingar af þessari, og í 3. lagi brtt. um, að þeim mönnum, sem greitt hafa í vaxtaskatti meira og minna af tekju- og eignarskatti sínum, sem ófallinn var í gjalddaga, skuli ríkissjóður greiða af upphæðinni sömu vexti og þeir höfðu hver um sig af verðbréfi sínu, sem greitt var af. Mér finnst ekki annað sanngjarnt en að þeir fái vextina. Og þótt kannske megi deila um hvort þeir ættu að fá 6% vexti eða bankainnlánsvexti, þykir mér þessi vaxtaupphæð sanngjörnust eftir atvikum. Ég ætla að leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessar skrifl. brtt.