04.01.1940
Efri deild: 105. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (2970)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

*Frsm. (Magnús Jónsson) :

Það hafa orðið allverulegar breyt. á frv. við meðferð þess í hv. Nd., og kom greinilega fram þar eins og í þessari hv. d., að skoðanir manna eru allmjög skiptar um efni þess, enda hefir mér virzt, eftir því, sem ég hefi getað fylgzt með umr., að það sé nokkuð langt frá því, að menn hafi áttað sig á, hvað hér er á ferðinni. Það er talað um nýja skattaálagningu, eins og hér væri um nýjan tekjustofn að ræða, en hér er ekki um annað að ræða en ráð til þess að innheimta nokkurn hluta af tekjuskattinum. Ég skal játa, eins og ég gerði, þegar málið var hér til umr., að aðferðin til að innheimta þennan hluta skattsins er fyrirhafnarmikil og kannske ekki eins góð og æskilegt væri að sumu leyti.

Breyt. þær, sem orðið hafa á þessu frv. í hv. Nd., eru sérstaklega þær. að felldur var niður a-liður 2. gr. frv. Þar með hefir það verið fellt, að láta innstæður hjá bönkum, sparisjóðum, innlánsdeildum félaga og öðrum lánsstofnunum falla undir ákvæði þessa frv. Nú var það svo, eins og skýrt hefir verið frá bæði á fyrri hluta þingsins, þegar málið var fyrst til meðferðar, og einnig á síðari hluta þings, að a-liður 2. gr. var langsamlega aðalatriðið. Að vísu kom það betur og betur í ljós, að það er mjög erfitt að komast með fullri vissu að, hvað mikið þetta dulda fé er, eða hvað miklir vextir það eru, sem ekki næst til. Þess hefir verið getið til, að sú eign í innstæðum og ýmiskonar bréfum, sem komizt hefir undan framtali, sé ef til vill um 40 millj. kr., en við nánari eftirgrennslan hefir það komið í ljós, að þetta er töluvert minna. Það stafar af því, að það er svo geysilega erfitt að snapa undan allar þær eignir, sem í raun og veru eru skattfrjálsar eftir tekju- og eignarskattslögunum, svo sem ýmiskonar sjóðir, sem eiga ekki að koma til framtals. Ég spurði þann mann að þessu, sem mest hefir unnið að því, og hann sagði orðrétt: Ég er alveg að gefast upp á því, hvað mikið það er. — Þetta gerir málið strax rokkuð óaðgengilegt, að það skuli ekki vera hægt að áætla, hvað mikið fé er um að ræða hér. Ég geri ráð fyrir, að niðurstaðan muni verða sú, að það fé, sem hér komi til greina, sé 25–30 millj. kr. En verðbréf þau, sem hér um ræðir, og þá sérstaklega veðdeildarbréf og önnur slík bréf, sem koma undir skattinn, eru talin að nema 6–7 millj. kr. Menn sjá því, að meiri hlutinn er sparisjóðsinnstæður, sem nú eru felldar undan, svo Nd. hefir í raun og veru tekið meginhlutann úr frv.

Þó frv. yrði að l. eins og það er nú, þá er þar ekki um stórfé að ræða eða stóran ávinning fyrir ríkissjóðinn.

Ég skal játa, að ég hefi engan veginn breytt um skoðun á því, að þessa innheimtuaðferð eigi að reyna, og ég myndi, ef ekki væri svo áliðið þingtímans sem er, bera fram brtt. um það, að færa þetta mál aftur í sitt upprunalega horf og láta þingviljann skera úr um það, hvort menn vilja málið eða ekki. Ég sé ekki, hvaða meining er í því að ráðast þarna á lítinn part, en sleppa meginatriðinu. Ég hefi fyrir mitt leyti ekki meiri samúð með þeim, sem draga undan skatti sparisjóðsinnstæður, heldur en þeim, sem draga undan verðbréf. Þetta eru hliðstæð atriði. Hvorttveggja er viðleitni, sem á að styðja, að menn leggi fé í sparisjóði og verðbréf, en ekki ráðast á, eins og sumum finnst, að gert sé með þessu frv.

Ég verð að segja, að eins og þetta mál er orðið nú, þá hefi ég heldur lítinn áhuga fyrir því, að það verði samþ. að svo komnu. Eins og kunnugt er, þá er gjalddaginn þannig ákveðinn í frv., að það mun ekki koma að verulegu leyti til framkvæmda á því ári, sem nú er að byrja. Það, sem hefir unnizt við umr. um þetta mál í þinginu, er, að það hafa komið í ljós ákveðnir örðugleikar, sem milliþn. að vísu ræddi sín í milli, svo sem um það, hvað bagalegt mönnum er að verða af fénu um nokkurn tíma, og eins það, hvað við í raun og veru vitum lítið um, hvort það komi allt inn í ríkissjóðinn, sérstaklega það, sem fer milli einstaklinga. Það hefir að mínu viti komið skýrt í ljós, að hér eru örðugleikar, en strax og menn hafa komið auga á örðugleikana, þá opnast möguleikar til þess að komast framhjá þeim eða draga úr þeim. Ég tel því, eins og nú er komið — og þar sem er starfandi milliþn., sem á að taka fyrir þessa grein af ríkistekjunum —, rétt að láta þetta mál bíða, því það hefir verið skert svo mikið, að mér finnst ekki mikill akkur í því. Ég hefi þess vegna, þótt ég hafi í engu breytt um skoðun á þessu máli, ákveðið að bera fram rökst. dagskrá um það.

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta. Höfuðandmælin, sem komið hafa fram gegn frv., eru þau geysilegu áhrif, sem l. myndu hafa á allt fjármálalíf í landinu, að þau myndu draga úr kaupum manna á verðbréfum og hvötinni til þess að eignast sparifé. Það er ekki sök þessa frv., þótt svo færi, heldur sök tekjuskattslöggjafarinnar, sem við búum við. Það kom t. d. í ljós, þegar rætt var um stríðshættuuppbótina til sjómanna, í hverja ófæru tekjuskattslöggjöf okkar er komin. Og þess vegna er það, að þegar stungið er upp á að skerpa aðferðir til innheimtu skattsins og til þess að sjá um, að rétt sé talið fram, þá komast menn að raun um þetta betur en áður. Það er því svo, að þeir, sem berjast gegn þessu frumvarpi., eru í raun og veru að berjast gegn tekjuskattinum eins og hann er nú, því að það er auðvitað ekki hægt að vera á móti atriðum, sem aðeins stuðla að því, að hægt sé sem bezt að framfylgja lögum. En þegar á að gera ráðstafanir til að framkvæma tekjuskattsl. til hins ýtrasta, þá reka menn sig á, hve fráleit þau eru í raun og veru. En þá eiga menn bara ekki að vera að berjast á móti þessu frv., heldur sjálfum tekjuskattsl. og fá þeim breytt, því að þar liggur meinsemdin. — Ég ætla ekki að fara út í alm. rökræður um málið, en vil aðeins leyfa mér að lesa upp þá rökst. dagskrá, er ég mun síðan afhenda forseta. Það skal tekið fram, að fjhn. hefir ekki haldið neinn fund um málið, og hin rökst. dagskrá er því frá mér persónulega og á mína ábyrgð, en ekki n.:

„Með því

1. að efni frv. hefir verið að verulegum hluta rýrt með niðurfelling a-liðs 2. gr.,

2. að ákvæði frv. koma ekki nema að litlum hluta til framkvæmda á því ári, sem nú er byrjað,

3. að milliþn. í skatta- og tollamálum er nú að undirbúa till. um skattamálin, sem væntanlega koma til meðferðar á næsta Alþ., og

d. að efni frv. á bezt heima sem ákvæði í l. um tekju- og eignarskatt, þar sem hér er um innheimtu tekjuskatts að ræða,

tekur deildin, í því trausti, að málið komi í heppilegra, formi fram fyrir næsta Alþ., fyrir næsta mál á dagskrá.“