24.11.1939
Neðri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (2982)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Frsm. (Emil Jónsson) :

Ég ætla fyrst að víkja að ræðu hv. þm. Borgf. og svara þeirri fyrirspurn, sem hann beindi til mín. Annars gekk hans ræða aðallega út á það, að mér fannst, að iðuaðarmennirnir væru búnir að mynda um sig svo þröngan hring, að til vandræða horfði og úr þyrfti að bæta. Ég skal fúslega viðurkenna það, að um þetta hefir verið deilt og má deila. En þar sem það horfir talsvert öðruvísi við en þetta hér, þá skal ég ekki gera iðnaðarlöggjöfina að umræðuefni nú, enda gefst sjálfsagt tækifæri til þess síðar, þar sem hv. þm. boðaði í sinni ræðu, að breyt. myndu koma fram við hana þegar á þessu þingi. Ég mun því einungis halda mér við þetta frv.

Það fyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir, er alls ekki sambærilegt við iðnaðamannasamtökin. Hér er ætlazt til, að hið opinbera leggi sjálft til kennsluna handa verkstjórunum, annaðhvort með námskeiðum eða skólum. Með þessu móti hefir ríkisvaldið sjálft ráð á því, hvað margir menn komast að því að fá þessi réttindi. Það er gert ráð fyrir því í frv., að atvmrh. setji í reglugerð ákvæði um skilyrði, sem menn þurfi að uppfylla til að geta fengið réttindi til verkstjórnar. Iðnaðarmannafélögin hafa hinsvegar ein ráðin á því, hve mörgum þau hleypa inn í hverja iðngrein, og þar um getur ríkisvaldið engu ráðið. Hér er þess vegna mikill munur á, og ég sé ekki, að menn þurfi að vera neitt hræddir um það, að hér komi nein misbeiting til greina, þar sem svo er frá þessu gengið, að ríkisvaldið hefir hér sjálft öll ráðin í hendi sér.

Tilgangurinn með þessu frv. er sá, að þeir menn, sem hafa lagt það á sig að öðlast þessi réttindi, fái þá einnig að gegna þessum störfum. Mér finnst ekki nema sanngjarnt, þegar menn hafa lagt á sig skólagöngu, eða kostað sig á námskeið, auk ýmiskonar erfiðis við undirbúning undir eitthvert starf, þá fái menn einhver réttindi á móti.

Hv. þm. Borgf. tók það réttilega fram, að þetta frv. væri ekki frá okkur komið, mér og vegamálastjóranum. Hinsvegar er það frá okkur komið, bæði mér og öðrum opinberum starfsmönnum, sem þetta frv. kemur við, að verkstjórarnir verði menntaðir eins og frekast eru föng á, því að á því er mikil nauðsyn. Vinnuaðferðir hafa tekið svo miklum breyt. upp á síðkastið, að verklagni út af fyrir sig er ekki orðin nægileg, heldur verða menn að kunna störfin.

Hv. þm. bar fram fyrirspurn um það, hvað væri átt við, þar sem talað væri um minni háttar vegagerðir í sveit. Ég skal geta þess, að þessi gr. var ekki í frv., þegar það kom frá verkstjórunum, þannig að ef hér er um einhverja sök að ræða hvað ónákvæmni í orðalagi snertir, þá er hún hjá n. En það, sem fyrir n. vakti, var það, að það geta verið litlar vegabætur í sveit, þótt þar vinni flokkur manna um skamman tíma. Það getur komið fyrir, að vegakafli skemmist og þurfi í fljótu bragði að setja marga menn til að ljúka viðgerð sem fljótast. Það var þetta, sem n. vildi koma í veg fyrir, að bundið yrði við verkstjóraleyfi. Það vakti ekki fyrir n. að draga undir þetta ákvæði aðrar vegabætur en þær, sem væru allumfangsmiklar. Hitt er sjálfsagt að athuga, hvort ekki mætti orða þetta greinilegar, og ég get lofað því, að það skal verða tekið fyrir í n.

Ég þarf svo ekki að svara hv. þm. Borgf. miklu meiru. Ég vil undirstrika það, að það er svo mikill munur á þessum réttindum, sem hér er farið fram á til handa verkstjórunum, og réttindum iðnaðarmanna, að það er tæplega hægt að bera það tvennt saman.

Þá skal ég fara nokkrum orðum um það, sem hæstv. forsrh. minntist á í sambandi við frv. Mér skildist á hæstv. ráðh., að það væri vafasamt, hvað ynnist með frv. eins og það væri úr garði gert. Hann sagði, að það yrði a. m. k. að vera orðað þannig, að skiljanlegt væri, til þess að það kæmi að nokkru gagni. Ég hygg nú, að frv. sé skiljanlegt í flestum atriðum. Það má ef til vill orða 3. gr. skýrara, eins og hv. þm. Borgf. gat um og ég hefi þegar svarað. En viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. sagði um bað, að það væru sum atriði í sambandi við verkstjórn, sem ekki væri hægt að læra, og sama væri hvað sumir menn gengju lengi í skóla, þá gætu þeir aldrei lært sumt af því, sem verkstjórar þyrftu að hafa til að bera. Þetta kann að vera rétt. En hitt er jafnvíst, að þó menn hafi öll nauðsynleg skilyrði hvað eðlisfari og upplagi viðkemur, sem ekkert hafa lært, þá geta þeir verið jafnóhæfir til að vera verkstjórar, því að það þarf til þess í ýmsum tilfellum meira en meðfæddar gáfur. Það þarf að kunna verkið, sem verið er að vinna. Og það, sem verkstjórarnir hafa sérstaklega óskað eftir, er, að þeim verði gefinn kostur á, með námskeiðum eða á annan hátt, að læra þau atriði, sem þörf er á fyrir þá.

Um athugasemdir hæstv. forsrh. við 5. gr., er hann taldi of veikt að orði kveðið þar sem sagt er, að svipta megi verkstjóra rétti til verkstjórnar, ef hann er ölvaður við verkstjórn, get ég sagt, að þetta kann að vera rétt, og get ég lofað því fyrir hönd n., að þetta skal verða tekið til athugunar. En hvað viðvíkur því, sem hann sagði, að eftir frv. myndi almennum verkfræðingum leyfast að hafa verkstjórn á hendi, þó að þeir gerðu sig seka um slíkt hið sama, þá er það mitt álit, að um verkfræðinga hljóti að gilda hið sama. Annað nær engri átt. Um hitt, að verkstjórar megi ekki utan starfsins neyta víns, er það að segja, að vitanlega væri æskilegt, að hægt væri að hafa þá reglu, en ég tel vafasamt, svo sem enn er komið löggjöf hér á landi, að hægt sé að lögbjóða um verkstjóra eina manna, að þeir skuli vera bindindismenn.

Vil ég svo ljúka þessum andsvörum með því að lofa, að aðfinnslur hv. þm. Borgf. og hæstv. forsrh. skuli verða teknar til athugunar.