24.11.1939
Neðri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (2983)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég hefi litlu að svara, vil aðeins leiðrétta lítils háttar misskilning, sem fram kom. — Fyrst vil ég þá taka fram, þótt það snerti ekki þann misskilning, sem aðallega er um að ræða, að auðvitað er það rétt, að það er ávinningur fyrir menn að hafa lærdóm og kunnáttu til viðbótar lagni til að stjórna öðrum, enda mótmælti ég því aldrei. En svo eru 2 önnur atriði, sem ég vildi taka fram. Annað er viðvíkjandi því ákvæði frv., að svipta megi verkstjóra rétti hans, ef hann er ölvaður við verkstjórn. Ég beini því enn til hv. n. að reyna að finna annað ákvæði, sem er víðtækara en þetta. Vitanlega er þess ekki krafizt, að verkstjórar séu algerir bindindismenn, en þetta mætti orða á þá leið, að svipta mætti menn rétti til verkstjórnar, ef þeir reyndust alvarlegir óreglumenn. Það væri einkennilegt, ef ganga ætti frá l. um verkstjórn án þess að gera kröfu um þetta atriði, þar sem þarna er um menn að ræða, sem geta haft tugi eða jafnvel hundruð ungra manna undir sinni stjórn, meira en nokkur vinnuskóli. Hví skyldi þá ekki gera ráðstafanir til að fyrirbyggja, að slíkir menn geti haft spillandi áhrif á þá menn, er þeir eiga að stjórna?

Í öðru lagi er það misskilningur, ef hv. n. álítur, að verkfræðingar séu undir þetta ákvæði seldir, því að í 7. gr. stendur, að verkfræðingar skuli ekki þurfa að fá leyfi til verkstjórnar. Það er því ekki hægt að dæma af þeim rétt, sem þeim hefir ekki verið veittur, enda myndi enginn dómstóll gera það. Það þyrfti þá að bæta inn í frv. ákvæði á þá leið, að verkfræðingar skuli ekki þurfa sérstakt leyfi til verkstjórnar, en skuli þó uppfylla sömu skilyrði og venjulegir verkstjórar í þessum efnum.