24.11.1939
Neðri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í C-deild Alþingistíðinda. (2984)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Pétur Ottesen:

Mér virtist hv. frsm. draga ranga ályktun af því, sem ég sagði. Mér datt ekki í hug að bera þetta saman við l. þau, er iðnfélögin hafa fengið samþ. sér til handa, enda nær þessi heimild aðeins til þröngs sviðs, þar sem er verkstjórn við opinbera vinnu, sem atvmrh. getur sett um nánari reglur. Ég sagði aðeins, að hjá þessum mönnum væri sami tilgangur og þeim, er fengu iðnlöggjöfina samþ. sér til handa, og ég held, að þessir verkstjórar hafi ætlað að ganga nokkuð langt í þá átt, sem iðnaðarmenn hafa gengið með því að fá iðnlöggjöfina samþ. Þeir hafa víst farið fram á, að enginn fengi rétt til að hafa á hendi verkstjórn, þar sem 2, 3 eða 4 menn vinna, nema hann hefði próf.

Eftir skýringu hv. frsm. á 3. lið 3. gr. skilst mér, að eina undantekningin frá þessu sé sú, að ef um er að ræða lítils háttar skemmdir á vegum í sveitahéruðum, sem vinda þarf að bráðan bug að lagfæra, þá skuli ekki vera um þessa skyldu að ræða, en annars skuli krefjast sérstaks verkstjóra. Þetta er nú vitanlega alger bylting frá því, sem nú tíðkast, því að í sveitum er það eina leiðin til að geta komið á vegabótum án óskaplegs tilkostnaðar, að þessi verk séu unnin á meðan önnur störf taka ekki upp alla starfskrafta, sem fyrir eru. Nú eru allar slíkar framkvæmdir undir eftirliti vegamálastjóra, og enginn fær að taka þær að sér, nema hann hafi dæmt þann hinn sama hæfan til þess. Nú sé ég, að eftir frv. eiga þeir að fá að halda réttinum, sem starfað hafa að verkstjórn í tvö ár, en annars á að vera ómögulegt, að nokkur maður geti öðlazt þennan rétt, nema hann hafi fengið til þess sérstakt leyfi, þannig að hann hafi staðizt próf og borgað fjárhæð þá, sem krafizt er fyrir réttinn.

Ég held, að til þessa hafi yfirleitt ekki komið fram ágallar á því fyrirkomulagi, sem verið hefir, er hægt hefir verið að kenna vegamálastjóra um eða verkstjórum þeim, er hann hefir sett.

Viðvíkjandi því, er hv. frsm. sagði, að þetta ætti að tryggja verkstjórum, að þeir yrðu ekki látnir fara frá sínu starfi, er það að segja, að ég held, að þeir hafi ekki þurft að kvarta um það, að þeir hefðu ekki tryggingu í þessu efni. Trygging þeirra hefir verið sú, að reynt hefir verið að framkvæma þessi verk eftir því sem fjármagn hefir verið til á hverjum tíma, því að ekki getur það verið meiningin, að þeir taki borgun, þegar ekki er unnið.

Það er því nauðsynlegt að fá nánar tekið fram, hvað með þessu er meint, og þá sést líka betur. hvernig þetta yrði í framkvæmd.