25.11.1939
Neðri deild: 68. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (2987)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

Skúli Guðmundsson:

Það hefir þegar verið á það bent í umr. um þetta mál, að það mundi þurfa frekari athugunar við, m. a. vegna þess, að sum ákvæði þess væru ekki svo ljós sem skyldi. Hv. frsm. gat þess, að iðnn., sem flytur málið, mundi taka það til nýrrar athugunar. En ég vildi leyfa mér að stinga upp á, að því yrði vísað til allshn. Ég fæ ekki séð, að það heyri neitt undir iðnn., en mér virðist því einmitt þannig farið, að það hljóti að koma allshn. við. Ef það væri flutt af einstökum þm., þætti sjálfsagt, að það færi til hennar, og vona ég, að hv. þd. geti á það fallizt.