25.11.1939
Neðri deild: 68. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (2993)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

Bergur Jónsson:

Ég vil aðeins geta þess, að það er einkennilegt, að hv. 6. landsk. skuli vera að kenna utanþingsmönnum um það, að iðnn. hefir flutt mál inn í hv. d., sem ekki heyrir undir hana. Það er iðnn., sem á sjálf að leiðbeina mönnum um það, til hvaða þingn. þeir eigi að snúa sér, ef óskað er aðstoðar hennar til þess að koma málum áleiðis í þinginu, án þess að þeim þurfi að vísa til nefndar. Iðnn. hefir því sjálf orðið þess valdandi, að eðlileg krafa hefir komið fram um það, að málið fari til annarar n. en þeirrar, er málið flutti inn í þingið.

Hv. þm. V.-Húnv. kom með mörg dæmi um það, að þetta er ekkert sérstakt iðnaðarmál. Ég vil benda hv. 6. landsk. á, að ef um verkstjórn er að ræða í sérstakri iðngrein, þá er það iðnaðarmál og þá heyrir það undir iðnlöggjöfina, því þá er að ræða um kunnáttuskilyrði í iðnaði. En þar sem um er að ræða almenn skilyrði til þess að vera verkstjóri við almenna vinnu, t. d. vegavinnu, þá er það almennt löggjafaratriði, eins og t. d. frv. um breyt. á dómstólum og þar sem sett eru ákvæði um það, hvað mikið leyfisgjald menn eigi að greiða til þess að fá þessi og þessi réttindi, sem ekki heyra undir iðnaðarmál. (EmJ: Þetta er tóm vitleysa). Ég veit, að hv. 6. landsk. skilur þetta, þótt hann vilji nú ekki við það kannast, og getur ekkert haft á móti því, að þetta mál fari til allshn.

Út af því, sem hann sagði síðast, þá kom mér það undarlega fyrir sjónir, að hann skyldi vera að reka á eftir því frv., sem hv. þm. Borgf. var að reka á eftir, því ég hélt, að honum væri það ekki sérstakt áhugamál.