05.12.1939
Neðri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (2997)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Frsm. (Emil Jónsson) :

Mér finnst, að það hefði verið réttara af hv. þm. Borgf., að hann hefði strax sagt hug sinn allan til frv., heldur en eins og hann gerði nú, að leggja til, að breytt væri einstökum greinum þess, og koma síðan á á eftir og leggja til, að frv. verði fellt, eins og hann nú gerir.

Ég tel enga ástæðu til þess að fara að rifja upp þau rök, sem lágu fyrir frá 1. umr. Þau eru svo skýr öllum, og honum líka, að ég tel enga þörf á að endurtaka það allt nú.

Hann segir, að engir árekstrar hafi orðið vegna þessa fyrirkomulags eins og það er, og að engin ástæða hafi verið til þess, að frv. kom fram. Vegna þeirra umkvartana, sem hafa komið, ekki einasta frá verkstjórunum sjálfum, heldur einnig frá þeim mönnum, sem eiga að standa fyrir þessum rekstri, hefir orðið að halda uppi námskeiðum fyrir þessa menn, og til þessara námskeiða hefir engin fjárveiting verið. Ég mótmæli því, að þetta sé eingöngu frá verkstjórunum sjálfum, því það er eins mikið frá þeim mönnum, sem verkstjórana nota.

Verkstjórar þurfa að hafa kunnáttu til að bera og þurfa að gæta varúðar vegna þess fólks, sem þeir stjórna, og það er ekki hægt að ætlast til þess, að hver maður, þótt hann annars sé góður, geti þetta. Þetta er ástæðan, en engin hagsmunaástæða. Mér liggur við að segja, að hjá hv. þm. komi fram vísvitandi tilraun til þess að misskilja tilgang frv.

Það má vel vera, að hv. þm. vilji ekki samþ. frv. í því formi, sem það nú er, þó ég telji alveg efalaust, að verkstjórar mundu vinna betur, öryggið mundi aukast og að dregið yrði úr slysahættu frá því, sem áður var. Ég veit ekki, hvort hv. þm. vill gera mikið úr því, en ég tek það fram enn, að þetta er ekki fram komið einungis vegna óska verkstjóranna sjálfra, heldur og þeirra, sem eiga að sjá um þessi verk og bera ábyrgðina.