05.12.1939
Neðri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (3001)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefir breytzt nokkuð til hins betra frá því, sem það var við 1. umr.

Ég lét þá skoðun í ljós við 1. umr., að það væri nokkurt vafamál, hvort rétt væri að samþ. frv. eins og þetta, og sú skoðun mín er óbreytt.

Það má ef til vill segja, að þeir verkstjórar, sem eru verndaðir með frv. þessu, ef að l. verður, muni afla sér betri menntunar en nú tíðkast um verkstjóra. þessu er því til að svara, að það er hægt að færa rök að því, að það hefir af hálfu hins opinbera verið haldið uppi skóla fyrir þessa menn, þannig að þeir fá gefins kennslu, eða svo til. Það eru þess vegna ekki líkur til, að neitt verði breytt til um kennsluna.

Þá er spurningin um það, hvort verkstjórar þurfi á lögvernd að halda. Ég álít, að svo sé ekki. Ég hefi bent á, að það þyki vera mjög öruggt starf að vera verkstjóri hjá því opinbera. Ég veit ekki til, að það hafi komið fyrir, að verkstjóri, sem hefir staðið sig sæmilega, hafi verið látinn fara úr starfi. Öryggið í þessu efni er því meira hjá því opinbera en hjá einstaklingum. Auk þess er því þann veg háttað, að verkstjórar hins opinbera hafa margir sæmilega afkomu. Mikið af þeim eru menn, sem stunda eitthvert annað starf jafnframt, t. d. kennslu á vetrum. Aðstaða þeirra er þess vegna þannig, að þeir þurfa ekki á lögvernd að halda.

Þá kem ég að því atriðinu, sem mér finnst einkennilegast, en skil þó, að engin ástæða hefir þótt til þess að koma fram með á Alþ. frv. til l. um verkstjóra hjá einstaklingum. Þetta er af því, að ríkið er álitið meinlausara sem atvinnuveitandi heldur en einstaklingarnir. Þess vegna á að byrja á að koma þessum l. á gagnvart verkstjórum hins opinbera. Síðan eiga hinir að koma á eftir. Þetta er náttúrlega skiljanlegt hjá flm. frv., en þeir eru bara ekki sjálfum sér samkvæmir, því að vitanlega er miklu meiri þörf á því að setja löggjöf um verkstjóra hjá einstaklingum en hjá hinu opinbera. Það er t. d. miklu meiri vélavinna hjá einstaklingum en hjá því opinbera. Hjá ríkinu er meginþorri framkvæmdanna vegavinna, sem tiltölulega lítið er notað af vélum við. Sama er að segja um símavinnuna. Þetta vitum við vel, sem höfum verið í þessari vinnu í mörg ár.

Ég vil líka benda hv. d. á það, að það eru ekki svo lítil réttindi, sem verkstjórarnir fá, ef frv. verður að l. Um leið og búið er að samþ., að ekki megi vinna fyrir hið opinbera nema undir verkstjórn þar til löggiltra verkstjóra, og ekki er tiltekin tala verkstjóra, sem hafa löggildingu, þá hafa þeir ríkið sæmilega á milli greipa sinna, vegna þess að ef þessi hópur verkstjóra gerir vinnustöðvun, getur hann um leið stöðvað allar framkvæmdir. Það er þess vegna með þessu frv. verið að löggilda ákveðinn hóp manna, sem með því að stöðva sína vinnu getur stöðvað vinnu allra annara. Að þessu leyti er frv. því langt frá því að vera eins meinlaust eins og það kann að líta út fyrir. Ég hefi ekki verið mótfallinn því að setja skynsamlega löggjöf til þess að tryggja réttindi og kunnáttu verkamanna, en ég álít, að þessir yfirmenn þurfi ekki sérstaklega á þessari tryggingu að halda og að það vald, sem lagt er til, að þeim verði fengið með þessu, sé varhugavert. Hvernig haldið þið, að það færi hér í Reykjavík, ef þetta frv. næði til verkstjóra hjá einstaklingum? Það gæti leitt til þess, að tiltölulega fámennur hópur verkstjóra gæti stöðvað alla vinnu í bænum.

Ég skal ekki fara út í umr. um iðnlöggjöfina, enda kemur það ekki þessu máli við, þó það sé náttúrlega hliðstætt að því leyti, að verkstjórunum er veittur einskonar einkaréttur, á svipaðan hátt og iðnaðarmönnum var veittur með iðnlöggjöfinni á sínum tíma. Það væri t. d. refsivert, ef nokkur þm. kæmi nálægt verki, sem snerti iðn. Þannig hafa iðnaðarmennirnir notað sér iðnlöggjöfina. Á sama hátt væri hægt fyrir verkstjórana að nota sér þessi l., eða réttara sagt misnota þau.