05.12.1939
Neðri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (3002)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

Pálmi Hannesson:

Það, sem einkum gefur mér tilefni til að taka þátt í þessum umr. er það, að í þessu máli, eins og raunar ýmsum öðrum málum, þykir mér sem menntunarfjandsamlegar skoðanir séu að stinga upp höfðinu. Hér er ekkert spurt um álit þeirra manna, sem mest hafa með verkstjórn að gera, enda þótt vitað sé, að þeir áliti, að mjög æskilegt sé, að verkstjórar fái betri menntun en nú tíðkast, heldur mikla menn fyrir sér það einkavald, sem verkstjórunum sé gefið með frv. Ég sé nú sannast bezt að segja ekki, hvaða ákvæði frv. gefa tilefni til slíks ótta. Í 2. gr. segir, að til þess að geta orðið verkstjórar þurfi menn að fullnægja tveim skilyrðum: Að vera fullra 25 ára að aldri og sanna, að þeir hafi staðizt próf samkv. ákvæðum, er atvmrh. setur með reglugerð, eða hafi starfað sem sjálfstæðir verkstjórar eigi skemur en 2 síðustu árin áður en l. öðlast gildi. Atvmrh. á að setja ákvæði um prófið. Vitanlega yrðu ekki neitt óskaplega hörð skilyrði sett um menntun þessara manna. Ég geri ráð fyrir, að það yrði sett sem skilyrði, að þeir kynnu að halda bækur og gera einfaldar mælingar, og ef til vill eitthvað lítilsháttar í hjálp í viðlögum. En það, sem skiptir hér máli, er það, að það er algerlega lagt á vald atvmrh. að setja ákvæði um þetta. Ég hefi ekki orðið var við, að það hafi verið hörgull á því hingað til, að menn í þessu landi fengjust til að búa sig undir stöður, sem þykja arðvænlegar, og ég hygg, að enda þótt menn þyrftu að ganga undir eitthvert próf, þá myndu margir vilja vinna það til að búa sig undir slíkt próf, nema það vaki fyrir andstæðingum málsins, að þessi próf eigi að vera svo þung, að ekki yrðu nema 1–2 menn á ári, sem stæðust þau. Ég get þess vegna ekki séð, að nein hætta sé á því, að þessir menn fái aðstöðu til með þessu frv., þótt að lögum yrði, að mynda um sig hring til að vernda sína hagsmuni. Þeir geta það þá alveg eins án slíkra laga. Þeir geta vitanlega myndað félagsskap með sér, þó frv. verði ekki samþ., en ef ríkisvaldið er á móti þeim félagsskap, þá geri ég ráð fyrir, að það sé ósköp einfalt að hleypa nógu mörgum upp í gegnum prófið til að velja úr. Það virðist vera að velkjast fyrir mönnum, að öðrum þræði hálfgert samvizkubit út af annari löggjöf, sem er iðnaðarlöggjöfin, en ég held, að það sé alveg óþarfi að bera þetta frv. saman við þá löggjöf. Ég get ekki með mínum bezta vilja betur séð en að það sé æskilegt, að verkstjórar, eins og aðrir, fái nauðsynlega menntun til að leysa af hendi sitt starf.