09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (3017)

11. mál, jarðhiti

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Herra forseti! Þetta frv., sem hefir legið alllengi fyrir allshn., hefir n. tekið rækilega til athugunar. Fyrir n. lá líka annað frv. um sama efni, gert af sérstakri n. og nokkru fyllra. Allshn. bar saman frv. þessi, og ákváðum við að leggja þetta fyrir hv. d. Á þskj. 392 hefir n. gert allverulegar brtt. við frv., og vil ég gera nokkra grein fyrir aðalefni þeirra.

Fyrst vil ég benda á það, að í nál. er prentvilla. Þar sem stendur: „við 1. gr. 3. málsgr“ á að standa: Við 4. gr. 3, málsgr., en í þeirri málsgr. er svo ákveðið, að ef um hitaorku er að ræða, sem tveir eða fleiri eiga, og vilji einn þeirra hagnýta hana, en hinir ekki, þá geti honum verið heimilt að nota alla orkuna endurgjaldslaust. Þetta teljum við varhugavert, að sá, sem ef til vill er fjárhagslega sterkastur. geti tekið orkuna til virkjunar, þó að hinum sé það ef til vill um megn. N. hefir gert brtt. við þetta á þá leið, að þeim, sem vill virkja orkuna, skuli ekki vera það heimilt án endurgjalds, og séu þá farnar aðrar leiðir, er þeir geta valið um, sem ekki vilja virkja. Við gerum ráð fyrir, að annaðhvort geti sá eða þeir, sem vilja virkja orkuna, fengið hana keypta eftir mati eða tekið hana á leigu fyrir upphæð, sem ákveðin sé með mati. Með þessu eru tryggðir hagsmunir þeirra, sem minna mega sín.

Næsta brtt. er við 5. gr. frv. Aftan við málsgr: „Ekki er jarðareigandi skyldur til, þegar svo stendur á sem í grein þessari segir, við brottför landseta að innleysa þau mannvirki, er ábúandi hefir gert til hagnýtingar hveraorku“ — á að bætast: önnur en þau, sem gerð hafa verið til heimilis- og búsþarfa. (Hér er líka prentvilla, þar stendur „húsþarfa“ í stað búsþarfa).

3. brtt. er við 6. gr. Hún gengur út á það, að í stað þess, sem ákveðið er í 6. gr., að ríkissjóður skuli alltaf hafa forkaupsrétt að jarðhitasvæðum, skuli um þetta fara eftir ákvæðum l. nr. 55 15. júní 1926. og hafi ríkissjóður forkaupsrétt aðeins að þeim aðilum frágengnum. sem hafa hann samkv. l.

N. ætlast til, að forkaupsréttur ríkisins sé færður aftur fyrir forkaupsrétt sveita og héraða, þannig að fyrst gangi eigandi eða ábúandi fyrir, þá sveitarfélagið, og ríkið yrði þá sem þriðji aðili. Að öðru leyti fari forkaupsréttur eftir ákvæðum l. nr. 55 frá 1926, um forkaupsrétt á jörðum. Þó hefir n. bætt við, að síðasta málsgr. verði á þá leið, að eftir að sveitarfélag hefir notað forkaupsrétt og selur aftur innan 5 ára. fær ríkið fyrst forkaupsrétt í þeim tilfellum. Ennfremur fannst n. rétt að hjálpa þeim aðilum, sem ekki geta í bili haft ástæður til að nota sinn forkaupsrétt, með því að fyrirbyggja, að aðrir fái hann.

Þá er 4. brtt., við 7. gr., um að greinin orðist eins og í till. segir.

N. hefir lagt til, að 8. gr. falli burt. Einnig hefir hún breytt orðalagi og fært til betra máls í 9. gr.

Ég held, að ekki sé þörf að gera frekari grein fyrir þessum brtt., en þetta er höfuðinnihald þeirra.