03.04.1939
Neðri deild: 35. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Haraldur Guðmundsson:

Í 2. gr. frv. á þskj. 119 er tekinn upp nokkur hluti þeirra tillagna,

sem Alþfl. setti sem skilyrði fyrir stuðningi sínum við gengislækkunina. Vænti ég því, að það teljist réttmætt, þó að við alþýðuflokksmenn gerum tilraun til þess að leiðrétta það, sem hér hefir farið á annan veg en við teljum heppilegt. Við alþýðuflokksmennirnir fjórir, hv. þm. N.-Ísf., hv. þm. V.-Ísf., hv. þm. Hafnf. og ég, berum því fram brtt. á þskj. 121, þar sem við leggjum fyrst til, að í stað orðsins „fjölskyldumanna“ í 2. gr. næstsíðasta málsl. 1. málsgr. komi: „manna“. Um þessa brtt. er óþarfi að fara mörgum orðum, því að þótt hún verði samþ., raskar hún mjög lítið frv.

Önnur brtt. gengur í þá átt, að þau verkalýðsfélög, sem hafa verið svo forsjál að hafa í samningum sínum ákvæði um breytingar á kaupi vegna gengislækkunar eða hækkunar á verðvísitölu, megi velja um það, hvort meðlimir þeirra fái kauphækkun samkv. þeim ákvæðum eða samkv. reglum 2. gr. Og ef ekki er ákveðið í samningi, frá hvaða tíma og eftir hvaða vísitölu kaup skuli breytast, skuli finna vísitöluna samkv. 2. gr. og breyting kaupsins koma til framkvæmda í fyrsta sinn 1. júlí 1939.

Þriðja brtt. fer fram á það, að sjómenn, sem ráðnir eru upp á hlut úr afla eða aflaverðlaun, sem miðast við aflamagn, skuli njóta þeirrar verðhækkunar, sem stafar af gengislækkuninni, og gildi netta jafnt þótt gerðir hafi verið samningar fyrirfram um söluverð aflahluta.

Hæstv. atvmrh. hefir þegar svarað nokkru um þessi atriði; gerði hann það nú fyrir stuttu, er hann svaraði fyrirspurn minni. En að því er snertir síðasta atriðið, hvernig gengislækkunin skuli verða gagnvart sjómönnum, sem eru ráðnir upp á hlut úr afla eða aflaverðlaun miðuð við aflamagn, vildi ég óska umsagnar hæstv. ráðherra.