28.02.1939
Neðri deild: 9. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (3037)

17. mál, verðjöfnunar- og styrktarsjóður rjómabúa

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Þetta frv., sem liggur fyrir nú, var einnig flutt á síðasta þingi, en náði þá ekki afgreiðslu. Það strandaði í landbn.; hún skilaði ekki áliti.

Hinsvegar er það mín skoðun og fleiri, að brýn nauðsyn sé á því að gera einhverjar ráðstafanir til styrktar rjómabúum í landinu. Þetta var blómleg atvinnugrein á sínum tíma, en smátt og smátt hafa rjómabúin helzt úr lestinni, bæði af eðlilegum ástæðum og einnig vegna þess, að menn hafa beint hugum sínum í aðra átt um meðferð mjólkurafurða. Nýtízku mjólkurbú hafa risið upp, einkum síðan 1930, og má telja, að menn muni una mjög vel þeim afrakstri, sem þau gefa þeim.

Hinsvegar er það vitað, að á stórum svæðum í landinu er mjólkurframleiðslan ekki það mikil, að unnt sé að koma fótum undir eða reka kostnaðarsöm mjólkurbú. Á þeim stöðum virðist sjálfsagt að koma upp rjómabúum, sem nytu tilsvarandi styrks frá hinu opinbera og fullkomin mjólkurbú gera nú.

Það er ekki nema eðlilegt, að menn óski eftir að komast inn á þau svæði, þar sem mjólkurbú eru starfrækt. En það eru mjög miklir erfiðleikar á því að taka fleiri inn á þau verðjöfnunarsvæði, sem fyrir eru, bæði vegna þess, hvað framleiðslan er orðin mikil, og ekki síður vegna hins, hversu mjólkurbúin hafa takmarkað rúm. Stærsta mjólkurbú landsins, Mjólkurbú Flóamanna, mun ekki geta tekið á móti öllu meiri mjólk, og sama er að segja um hin búin.

Í gildandi l. eru sett ákvæði um blöndun smjörs í smjörlíki. Þetta stuðlar mjög að aukinni notkun smjörs, og eins og sakir standa er það sú eina tegund mjólkurafurða, sem svo að segja ótakmarkaðir sölumöguleikar eru fyrir.

Aðalákvæði frv. eru, að leggja gjald á smjörlíki og útlendan fóðurbæti, sem flyzt til landsins, og verja því til styrktar rjómabúum, eins og segir í 2. gr. frv.

Ég get upplýst, að þar, sem ég þekki til í öðrum löndum og mjólkurskipulag er komið í svipað horf og hjá okkur, hafa þessir tekjuliðir verið teknir upp til styrktar mjólkurskipulaginu, Það gjald, sem gert er ráð fyrir í frv. — 10 aur. á hvert kg smjörlíkis og 4 aur. á hvert kg. erlends fóðurbætis —, mun vera í lægra lagi, miðað við aðrar þjóðir. Eftir því, sem hagstofan getur upp um útlendan fóðurbæti, fluttan til landsins, mundi þessi skattur nema, miðað við árið 1937, 54609 kr., og heldur meira árið 1938. Innflutningur erlends fóðurbætis hefir farið mjög minnkandi á síðari árum. Ef miðað er við árið 1936, hefði 4 aur. skatturinn numið 148240 kr.

Eftir þessum tölum að dæma, má gera ráð fyrir, að þessi 4 au. skattur á hvert kg erlends fóðurbætis gæfi á næstunni eitthvað svipaðar tekjur og hann myndi hafa gefið hin tvö síðustu árin, eða um 50 þús. kr.

Í skýrslu Landsbankans frá 1937 er gefið upp, að það ár hafi sjö smjörlíkisverksmiðjur framleitt 1373 tonn af smjörlíki. Með 10 au. skatti á kg mundi þetta gefa um 135300 kr., eða báðir skattarnir samanlagðir kringum 190000 kr. á ári, miðað við 1937 og 1938.

Ég vil ekki halda því fram, að ég hafi hitt á það eina rétta hámark eða lágmark þessa skatts, en ég veit, að með þeim tekjum, sem unnt væri að ná inn á þennan hátt, mætti gera mjög mikið til styrktar rjómabúum og mjólkurframleiðslu á þeim stöðum í landinu, þar sem erfiðast er að koma mjólk í verð.

Í núgildandi l. eru fyrirmæli um það, að styrkja skuli nýbyggingu fullkominna mjólkurbúa um ¼ hluta stofnkostnaðar. Hinsvegar eru engin ákvæði í l. um styrk til rjómabúa, þó að þeim l. undanskildum, sem sett voru vegna mæðiveikinnar og mæla svo fyrir, að á þeim stöðum, sem mæðiveikin hefir gengið yfir, megi leggja nokkuð af mæðiveikifénu í stofnun rjómabúa.

Það, sem ætlazt er til með frv. þessu, er í fyrsta lagi að verðuppbæta smjör, sem unnið er í löggiltum rjómabúum. Í öðru lagi að verðuppbæta smjör, sem unnið er í löggiltum mjólkurbúum, úr rjóma frá framleiðendum, sem hafa erfiða aðstöðu til að senda mjólk sína óunna til búanna. Það liggur í augum uppi, hversu mikill hægðarauki yrði að því fyrir bændur í afskekktum sveitahéruðum, að senda aðeins rjómann til búanna. En með núverandi skipulagi er þetta ómögulegt, vegna þess að það er tiltölulega svo lítil verðuppbót, sem menn fá fyrir hann, miðað við að senda mjólkina óunna.

Síðari liðir 2. gr. frv. eru um það, að styrkja byggingu nýrra rjómabúa og þá þætti mjólkurskipulagsins, sem landbúnaðarráðherra telur sérstaka ástæðu til.

Það má geta þess, að ýms atriði, sem l. ekki ná yfir, gætu verið æskileg til fullkomnunar skipulaginu, eins og t. d. allskonar auglýsinga- og fræðslustarfsemi í þessum efnum, sömuleiðis sjóðmyndun til tryggingar verðjöfnun milli ára og annað þessháttar, sem stuðlaði að þróun þessarar framleiðslugreinar landsmanna.

Ég vil ekki fullyrða neitt um það, að þetta frv., eins og það er lagt fyrir d., sé í því formi, að þar megi ekkert um bæta. Ég er manna fúsastur til samvinnu við þá, sem á annað borð hafa fullan hug á að bæta það, sem þessu frv. er ætlað að gera og ég er sannfærður um, að mikil þörf er fyrir.

Skal ég svo ekki hafa þessi orð fleiri, því ég veit, að þm. er málið ljóst.

Ég óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn., í von um, að hún taki ekki öðrum eins lausatökum á því og í fyrra.