16.03.1939
Neðri deild: 20. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (3065)

33. mál, alþýðutryggingar

*Ásgeir Ásgeirsson:

Það hefir komið fram í þessum umr., að einhver munur sé á starfsmönnum Landsbankans og Útvegsbankans að því er lífeyrissjóðinn snertir. Það er að vísu formlegur munur á þeim, en ég fæ ekki séð, að um raunverulegan mun sé að ræða. Landsbankasjóðurinn er að vísu lögfestur, en Útvegsbankans ekki, en það stafar af því, að það hafa aldrei verið sett fullkomin l. um Útvegsbanka Íslands. Lög hans eru sumpart gömul Íslandsbankalög og sumpart frá því er bankinn var endurreistur. Það hefir alltaf staðið til almennari löggjöf en þetta, og ég veit, að á þingi væri ekki fyrirstaða gegn því, að eftirlaunasjóður Útvegsbankans nyti hins sama og Landsbankans. Annaðhvort verður að láta Útvegsbankann njóta sömu kjara og Landsbankann eða taka réttindin af Landsbankanum. Þeir verða að vera jafnir.