03.04.1939
Neðri deild: 35. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Garðar Þorsteinsson:

Ég vildi gera nokkra grein fyrir atkv. mínu umfram það. sem fram hefir komið, m. a. frá hv. þm. V.-Sk. Á 6 mínútum er að vísu ekki hægt að segja margt. En ef tími væri til, þá væri freistandi að renna huganum til baka og leita að ástæðunum fyrir því, að nú þarf að grípa til þessara ráðstafana. Ég á sérstaklega við það, að stjórnarflokkarnir, sem setið hafa að völdum síðan 1927, hafa aldrei skilið afstöðu Sjálfstfl., hafa ekki talið stefnu Jóns Þorlákssonar leiðina til betra gengis fyrir þjóðina. Meira að segja 1935, er von var um að geta fengið fram fjárlög, sem gætu bætt aðstöðu ríkisins, hækkuðu þeir fjárl. í staðinn fyrir að draga úr útgjöldunum. Þeir hafa aldrei skeytt till. um það að leyfa smáútgerðinni umráð yfir gjaldeyrinum, svo að hún gæti keypt nauðsynjavöru sína sjálf, en aftur á móti hefir S. Í. S. verið látið ráða að fullu yfir sínum gjaldeyri.

Þegar rætt var um þetta, var eina ráðið til að fá bót á því ráðna talin sú, að mynda þjóðstjórn. Það hefir nú farið út um þúfur í bili. En þó hafa menn komið sér saman um þetta frv. En annars er þetta mál svo illa upplýst af hlutaðeigendum, að ótrúlegt er, þar sem þetta er eitt stærsta málið, sem fyrir þingið hefir komið. Stjórnarflokkarnir hafa ekki gert tilraun til að sýna með tölum, hve mikið útveginn vanti til að vera hallalaus, né heldur, hve mikið þessi gengislækkun muni færa útveginum nettó. Þetta er enn óupplýst mál. Í grg. frv. er sagt, að togararnir séu reknir með einnar millj. tapi á ári. Hv. þm. G.-K. segist ekki geta gengið inn á premíuleiðina, því að hún geti ekki bætt úr þessu og hann vilji ekki bera ábyrgð á því að leggja á þjóðina frá 4½ til 9 millj. kr. Hér skilur nú nokkuð á milli. Hvor talan á að gilda? Það er auðséð, að þessir menn hafa ekki gert sér ljóst, hversu mikið fé skuli nást með gengisfellingunni.

Ég tel, að leiðin, sem heppilegust hefði verið. sé sú, að veita uppbót á sjávarafurðum. Á móti þessu hafa engin gild rök verið færð.

Til þess nú að ráða bót á erfiðleikum sjávarútvegsins er borið fram frv. um að lækka krónuna niður í 27, miðað við sterlingspund. En nú er hinsvegar víst, að allar afurðir, sem sjávarútvegurinn þarf að kaupa, hljóta að hækka allmikið í verði. Eini liðurinn, sem segja mætti, að kæmi ekki alveg til frádráttar, er kaupgjaldið. En það myndi ekki muna meira en svo, að það yrði 6% miðað við þann aukna krónufjölda, sem útgerðarmaður fær eftir frv. Ef um 5 millj. kr. kaupupphæð er að ræða, þá nemur þetta 300 þús. kr., og getur sú upphæð ekki ráðið bót á erfiðleikunum. Það er ekki hægt að halda því tvennu fram í einu, að kauplækkun eigi að ráða bót á halla sjávarútvegsins, og jafnframt, að ekki sé nema um óverulega kauplækkun að ræða, eins og sósíalistar segja. Þessi gengislækkun verkar vissulega sem skattur, en fyrst og fremst á þá, sem lægst hafa launin, því að á nauðsynjavörum almennings kemur hún niður fyrst og fremst. Án þess að ég sé því hlynntur, að tollar og skattar séu hækkaðir, finnst mér það undarlegt, að í frv. er sagt, að skattar og tollar séu nú svo háir, að ekki sé þar á bætandi. En þessi gengislækkun verkar einmitt sem hækkun skatta og tolla. Það er ekki auðvelt að benda á marga liði, sem ekki hækka við þetta. Húsaleiga hlýtur t. d. að hækka; hjá því verður ekki komizt. Nýbyggð hús hljóta auðvitað að hækka í verði og þar með húsaleiga í þeim, þó að hægt væri að halda henni niðri í gömlum húsum, sem er ekki heldur hægt, því að þá væri ekki framar hægt að selja hús við sannvirði. við höfum haft húsaleigul. hér og vitum, hvernig þau lánuðust. Ég held, að eina leiðin sé að reyna að lækka dýrtíðina með því að gefa verzlunina frjálsari en hún er nú.

Með þessum ráðstöfunum er líka verið að minnka lánstraust landsins út á við. Hafa komið aðvörunarraddir um þetta frá mönnum erlendis, sem hafa með fjárhag landsins að gera. Ég vil benda á, að í bönkum liggja inni milljónir króna í íslenzkri mynt, sem erlendir kröfuhafar hafa átt inni árum saman í von um að fá það yfirfært. Þegar nú búið er að nota þetta fé til útlána innanlands, þá eiga þessir menn að fá aðeins 82% af því. Það getur enginn í alvöru haldið því fram, að erlenda kröfuhafa varði ekki um, hvort við lækkum gengið eða ekki, af því að þeir eigi að fá fé sitt endurgreitt í erlendri mynt. Ef maður kemur til mín og biður mig að lána sér 1000 kr. og ég spyr hann: Hvernig er þinn fjárhagur? — þá getur hann ekki látið sér nægja að svara: Það varðar þig ekkert um, en ég borga mína skuld. Það er auðvitað, að fjárhagur okkar hefir mikil áhrif á lánstraust okkar erlendis.

Ég lýsi því hér með yfir, að ég er á móti þessu frv., af því að það nær ekki þeim tilgangi, sem því er ætlað að ná.