31.03.1939
Neðri deild: 31. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í C-deild Alþingistíðinda. (3123)

58. mál, útvegsmálaráð

*Flm. (Ísleifur Högnason):

Í grg. þeirri, sem fylgir frv., er tekið fram allt það helzta, er máli skiptir um tilgang frv. við flm. frv. þessa lítum svo á, að það sé ekki rétt að halda áfram að reka útgerðina með tapi, eins og gert hefir verið að undanförnu. Árið 1937 áttu formenn stjórnmálaflokkanna kost á að sjá rekstrarafkomu útgerðarinnar, og man ég ekki betur en að þá væri gert ráð fyrir á annað hundrað þús. króna tapi á togara á ári, og 6–8 þús. kr. á smábátum, en nú hefir það komið í ljós, að þetta er ekki alls kostar rétt. Tapið er mjög misjafnt, en mun láta nærri að vera um 30 þús. kr. til jafnaðar á togara á ári, en þó er það svo, að sum útgerðarfyrirtæki eru rekin með hagnaði, og það sæmilegum hagnaði. Bendir það aftur óneitanlega til þess, að möguleikar séu á því að láta útgerðina bera sig, ef hyggilega er að farið.

Þær leiðir, sem efst eru á baugi til úrbóta á. afkomu útvegsins, eru aðallega tvær. Fyrst útflutningsverðlaun, sem yrði að ná með hátolli, sem mjög verður að draga í efa, að sé kleift að leggja á og ná inn.

Hitt ráðið er að lækka verðgildi íslenzkra peninga, og það er auðveldasta leiðin fyrir valdhafana, því að með því lækka þeir kaup allra, er taka laun sín í peningum. Af slíkum ráðstöfunum yrði því vafasamur hagnaður fyrir aðra en þá, sem flytja meira út en þeir kaupa aftur fyrir af erlendum vörum. Við, sem að frv. þessu stöndum, teljum því báðar þessar leiðir til viðreisnar útveginum forkastanlegar. Hinsvegar teljum við, að hér þurfi eitthvað að gera. og því viljum við, að þær ráðstafanir einar séu gerðar, sem bezt og öruggast tryggja afkomu þessa atvinnuvegar í framtíðinni. Það er því till. okkar, að öllum, sem að útgerðarmálum starfa, sé veitt fræðsla um þessi mál, og að tekin séu ráðin af þeim, sem reynslan er búin að sanna, að ekkert vit hafa á útgerðarmálum, enda þótt þeir telji sig sjálfa alveg ómissandi menn á þeim vettvangi. Þessi aðstoð sjávarútveginum til handa er hugsuð eitthvað í svipuðu formi og fræðsla sú, sem Búnaðarfélag Íslands veitir nú landbúnaðinum. Það er að vísu rétt, að til er stofnun. sem heitir Fiskifélag Íslands, en skýrslur sýna, að það er mjög í afturför frá því, sem það var. Af starfsemi þess virðist ekki annað eftir en að halda út blaðinu Ægi, og halda einstöku sinnum námskeið í meðferð mótorvéla.

Eins og ég tók fram áðan, þá teljum við það alveg forkastanlegt með öllu að fara að lækka gengi krónunnar eða gera aðrar ráðstafanir um fjárframlög útveginum til handa, að óbreyttu því skipulagi og þeirri stjórn, sem nú er almennt á málum útvegsins. Það teljum við sama og hella dýrum legi í botnlaust fat, og því er það, að við leggjum til, að hér sé horfið inn á nýjar leiðir.

Að endingu vil ég geta þess, að kostnaður við útvegsmálaráðið mun verða meiri en kostnaðurinn við fiskimálanefnd, en þess ber að gæta, að svo er til ætlazt, að fiskimálanefnd verði lögð niður, og Fiskifélagið að mestu leyti a. m. k., — störf þessara tveggja stofnana sameinuð í eitt, en af því ætti aftur að geta orðið verulegur sparnaður.

Ég hygg nú, að ég hafi drepið á það, sem mestu máli skiptir og ekki er skýrt tekið fram í grg. frv. Óska ég þess svo, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn., að þessari umr. lokinni.