03.04.1939
Efri deild: 32. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

Ég vildi í sambandi við þetta frv. mega gera fyrirspurnir til hæstv. atvmrh., ef hann heyrir mál mitt, því að þar sem mér er ljóst, að þetta frv. verður að l., þá er mér mikið áhugamál, að þær bætur, sem felast í 2. gr. frv., verði sem fyllstar, og fyrsta fyrirspurnin er þessi:

Hvaða skilning leggur hæstv. atvmrh. í orðið „ófaglærðs verkafólks og sjómanna“?

Til skýringar fyrirspurn minni skal ég taka þetta fram: vélstjórarnir á vélbátaflotanum eru illa launaðir yfirleitt, og í mörgum tilfellum með sama fyrirkomulagi og hásetarnir, nefnilega eru hlutarmenn. Geta þeir ekki heyrt undir þetta ákvæði 2. gr.? — Ég vil ennfremur spyrja um, hvort stýrimaður á mótorbát geti ekki heyrt undir þessa skilgreiningu frv., sem ég nefndi?

Þessir stýrimenn eru mjög lágt launaðir menn og sízt betur settir en hásetarnir á þessum skipum. Þar sem þetta er óskýrt í frv., en þarf nauðsynlega að koma fram við umr., hvaða skilning beri að leggja í þessi orð, óska ég eindregið svars hæstv. ráðh. við þessu. Annars hefði ég heldur viljað, að í stað orðsins „faglærður“ komi orðið „iðnlærður“, því að orðið „faglærður“ er dálítið víðtækt orð eins og það er skilið í danskri tungu.

Þá vil ég ennfremur beina þeirri spurningu til hæstv. atvmrh., hvort iðnlærður maður, sem ráðinn er fyrir tímakaup, en nær ekki 3600 kr. árskaupi, komi ekki undir ákvæðið um að geta fengið kaup sitt bætt, eins og þeir, sem fastráðnir eru. Það er ekki hægt að segja um iðnaðarmann, sem ráðinn er upp á tímakaup að hann sé fastráðinn. En hann getur orðið fyrir svo miklum atvinnumissi, að árstekjur hans geti alls ekki náð þessu marki. Ég tel sanngjarnt, að slíkur iðnaðarmaður fái uppbót á tekjur sínar, ef hann er undir þessum árstekjum.

Að síðustu vil ég spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hann telji, að sjómenn, sem eingöngu eru ráðnir fyrir aflaverðlaun af skippundi eða tonni, heyri undir ákvæðið um hlutarmenn. Ég skal skýra þetta svolítið nánar. Í nokkrum verstöðvum eru menn, sem ráðnir eru upp á vissa krónuupphæð af hverju skippundi eða tonni, og það er ekkert eðlilegra en það, að ef fiskverð hækkar fyrir aðgerðir gengisfallsins, þá hækki kaup þessara premíumanna einnig.

Ég vil óska þess, að hæstv. ráðh. svari þessum fyrirspurnum mínum, ef hann treystir sér til þess. Ég tel þetta nauðsynlegt, svo það valdi ekki deilum síðar, hverjir heyri undir þetta og hverjir ekki.

Það var margt í ræðu hæstv. fjmrh., sem ástæða væri til að svara. En það situr nú kannske ekki á mér að gera það. Hann var að vitna í 2 stór þjóðlönd, annarsvegar Frakkland og hinsvegar Bretland, sem bæði hefðu gripið til þess ráðs að fella gengið. Það er rétt. Ég fékk í gær sent frá útlöndum gott heimildarritum Frakkland. Í Frakklandi hefir kaupmáttur frankans fallið um 30% síðan 1936, en á sama tíma hefir kaupgjaldið hækkað um 25%. Þetta er dálítil spegilmynd af því, hvernig ástandið hefir verið í Frakklandi. Þetta er ein af afleiðingunum, sem gengisfall hefir í för með sér, að það hlýtur að ganga út yfir hinar vinnandi stéttir. Í Bretlandi hefir sú breyt., sem gerð var á sterlingspundinu,ekki verkað á hinn vinnandi mann. Það lítur út fyrir, að búreikningsvísitalan hafi sama og ekkert hækkað þar þrátt fyrir breyt. þá, sem gerð var á pundinu. Ég hefi fyrir mér skýrslu, sem reiknuð var út á síðastl. hausti, svo ég veit, að þetta er rétt. Það er eðlilegt, að gengisbreyt. valdi litlum sárindum í þjóðlandi, þar sem hún hefir litla röskun í för með sér. Það hefir orðið þannig í Bretlandi, en þetta er alveg öfugt í Frakklandi. Ég óttast, að afleiðingin hjá okkur verði ekki ólík því, sem hún varð í Frakklandi. Ég vildi, að þessi spá mín yrði aðeins hrakspá.

Ég tel mig ekki lakari Íslending en hvern annan og ég vil þjóð minni allt hið bezta. Ég vil því vera með í aðgerðum, sem ég tel, að muni verða henni til blessunar. En ég get ekki séð. að sú leið, sem hér hefir verið valin, sé sú viturlegasta, sem hægt var að fara. Það má vel vera, að ég sé ekki nógu skýr til þess að sjá og gagnrýna þetta eins og vera ætti, þar sem svo margir í þinginu hafa komizt að annarri niðurstöðu. Þó er mér ekki grunlaust um, að margir, sem kosið hafa að fylgja þessu frv., beri í brjósti nokkurn ótta og ugg um það, hvað af þessu kann að leiða. Ég vil ekki, að fyrir Íslandi eigi að liggja að lenda í svipuðu ástandi og Þýzkaland lenti í eftir stríðið, þegar seðlabunkarnir lágu í höndum manna einskis virði.

Ég held ég hafi þá gert grein fyrir, hvað fyrir mér vakir. Ég er yfirleitt trúlaus á blessun gengislækkunar og tel, að hún komi of hart niður á þeim, sem sízt mega við því. Að vísu kemur hún líka hart niður á þeim, sem eru betur megandi, en þó ekki í sama hlutfalli og hjá hinum.

Mönnum finnst kannske undarlegt, að ég einn af þingflokki Alþfl. skuli hafa tekið þessa afstöðu. En ég get sagt það, að full eining er í okkar flokki um það, að við megum halda okkar skoðun um einstök mál. Ég lít þannig á málið eins og ég hefi þegar nokkuð skýrt, og ég vil taka það fram, að það þarf ekki að valda neinum klofningi frá minni hálfu. Ég deili ekki á aðra, þó þeir hafi tekið aðra afstöðu í þessu máli.

Ég geri ekki ráð fyrir, að ég muni taka til máls aftur, nema sérstakt tiletni gefist til, en mun bíða þar til útkljáð er um þetta mál.