14.04.1939
Neðri deild: 40. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (3139)

72. mál, alþýðutryggingar

Vilmundur Jónsson:

Hv. þm. V.-Sk. hefir misskilið það, sem ég sagði, og ekki var annað en það, sem ég hefi skjöl fyrir, að ég hefði haft milligöngu milli kjósenda minna og tryggingarstofnunarinnar um að fá breytt reglugerðinni, sem hér um ræðir. Hann virðist aftur á móti hafa haft milligöngu milli kjósenda sinna og tryggingarstofnunarinnar um að brjóta reglugerðina, og á það allvel við fyrir mann í hans stöðu. Slíkt hefði mér ekki dottið í hug að fara fram á.

Hið eina, sem ég kann að hafa ofmælt í ræðu minni — og þó raunar ekki ofmælt —, er það, að ég sagði, að aðrir myndu ekki hafa óskað eftir breyt. á þessari reglugerð en N.-Ísfirðingar. Ég geri tæplega ráð fyrir, að V.-Skaftfellingar hafi óskað breyt. á reglugerð, sem hefir aldrei verið framkvæmd á þeim. Þá mátti þeim a sama standa, hvernig hún var. En reglugerðina átti að framkvæma, og hún var framkvæmd á bjargsigamönum í N.-Ísafjarðarsýslu. Því vildu þeir ekki una og óskuðu eftir breyt. Sendu þeir undirskriftir tugum og jafnvel hundruðum saman. Maður kom að vestan og fór með mér til tryggingarstofnunarinnar. Fyrir þessa milligöngu var reglugerðinni breytt, eins og bréflega liggur fyrir.

Upplýsingar hv. þm. um það, hvar slysahættan sé mest við þessa atvinnugrein, eru þveröfugar við reynsluna í N.-Ísafjarðarsýslu. Þar játa allir, að sigmaðurinn sé í mestri hættu, og er ekki kunnugt, að slys hafi þar nokkurn tíma orðið á öðrum.

Reynsla tryggingarstofnunarinnar um þetta atriði mun og vera hin sama og hjá mönnum vestra, eða öfug við það, sem hv. þm. V.-Sk. upplýsti.