03.04.1939
Efri deild: 32. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég held ég verði að sleppa því að halda langa ræðu um þetta mál nú og sleppa mörgu því, sem ég hefði annars sagt undir kringumstæðum, sem ég hefði talið, að það hefði meiri þýðingu. Það er komið fram á nóti og fáir þm. eru í d., og því færri áheyrendur, og þar að auki alveg ráðið, hvernig þetta mál á að fara. En þegar búið er að leiða það til lykta, þá er hinsvegar ákveðið að hafa um það útvarpsumræður fyrir alþjóð, og má það heita einkennileg ráðstöfun. Ég held, að það séu einhver sterkari öfl en rök eða sannfæring, sem ráða því, hvernig menn greiða atkv. í þessu máli, og þess vegna sé það þýðingarlaust að hafa um það langt mál.

Í dag höfum við í fyrsta skipti fengið að sjá í höfuðatriðum stefnu hinnar nýju breiðfylkingar, þessarar flokkasamsteypu, sem stendur í samningum um að mynda stjórn gegn þjóðinni, sem á að heita þjóðstjórn. Stefnuskráin er í aðalatriðum á þessa leið: Gengislækkun eins og felst í þessu frv., þ. e. þjófnaður úr vasa almennings, sem nemur millj. króna. Það mun kannske vera talið, að ég hafi um þetta nokkuð ákveðin orð, og hæstv. fjmrh. gerði sér ákaflega mikið far um í sinni ræðu að sýna fram á, hversu lítið þessi gengislækkun kæmi við almenning í landinu. Ég var alveg hissa á því, hvað hann lagði sig mikið niður við að reyna að sannfæra okkur um, hvað áhrifin af gengislækkuninni yrðu lítil fyrir almenning í landinu, þegar vitað er, að næstu daga og næstu vikur mun reynslan skera úr um það, og það er enginn vafi, að reynslan mun þar bera annan vitnisburð en hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. var að tala um ráðstafanir, sem gerðar mundu verða móti verðhækkun með því að ákveða hámarksverð. Ég hélt, að hann væri nú búinn að fá svo mikla reynslu af því, hve lítils virði slíkar ráðstafanir eru, að úr þeim væri ekki of mikið gerandi. Hvað snertir ákvæðið um húsaleiguna, þá gildir sama máli. Svo framarlega sem byggingar stöðvast að miklu leyti og meiri húsnæðisskortur verður, þá er sama hvað í l. stendur, því húsaleigan hækkar þrátt fyrir það. L. um þetta efni myndu að öllum líkindum verða í framkvæmdinni eins og l. um kjallaraíbúðir, sem sé þýðingarlaus. Menn hafa fengið að búa í rökum og heilsuspillandi kjöllurum, ef þeir hafa ekki átt annars völ. Menn telja það jafnvel velgerning að brjóta l., svo þeir fái að vera í kjöllurunum. Hið sama verður um húsaleigul., svo framarlega sem menn eiga ekki í annað hús að venda en til þeirra, sem vilja með einhverjum baksamningum leigja fólki húsnæði fyrir hærra verð en l. ákveða, þá eru menn hinum sama manni þakklátir fyrir, að hann skuli vilja leigja þeim fyrir þessi kjör. Slík lögmál viðskiptalífsins eru miklu sterkari en öll löggjöf.

Hvað það snertir að reikna aðeins með hækkun á erlendum varningi, þá má þó gera ráð fyrir, að hækkun verði á landbúnaðarafurðum samkv. frv., og það er enginn vafi á því að það verður einnig hækkun á iðnaðarvörum. Hráefni til iðnaðar hækkar, og þá leiðir af sjálfu sér, að iðnaðarvörur hljóta að hækka í verði; auk þess sem þær vörur, sem fluttar eru til landsins frá útlöndum í samkeppni við innlendan iðnað, hækka, þá hljóta þar með að verða meiri möguleikar til þess að hækka hinar innlendu vörur.

Til þess að þessi gengislækkun geti náð þeim tilgangi, sem er höfuðtilgangur frv., sem sé að lækka laun verkalýðsins og launþeganna í landinu, þá felst í frv. bann gegn verkföllum. Það er annað höfuðstefnuskráratriði hinnar nýju breiðfylkingar. Bann við verkföllum þýðir, að það þarf að koma upp sterkri ríkislögreglu, til þess að hægt sé að gera slíkar ráðstafanir gildandi. Þriðja stefnuskráratriðið, sem hin nýja breiðfylking hefir, er ríkislögregla. Þetta atriði er að vísu ekki tekið fram í þessu frv., en það er afleiðing af því og hefir verið boðað í blöðum allra þeirra flokka, sem að þessari nýju samsteypu standa.

Allt þetta er gert til þess að hjálpa útgerðinni, eftir því sem okkur er sagt. Það hefir sem sé komið í ljós, sem að vísu var vitað fyrir löngu síðan, að allmikill hluti útgerðarinnar hefir verið rekinn með tapi. En það, sem okkur fyrst og fremst varðar um í þessu sambandi, er það. hverjar orsakirnar eru fyrir þessu tapi útgerðarinnar á undanförnum árum. Það er í fyrsta lagi alveg rangt, sem oft hefir verið gert og líka í dag, að slengja allri útgerð landsmanna í sama pott. Það er rétt, að allmikill hluti stórútgerðarinnar er rekinn með tapi, en aftur á móti hygg ég það rétt, að mestur hluti smærri útgerðarfyrirtækja hafi borið sig, og sum stórútgerðarfyrirtæki hafa líka borið sig. Hver er orsökin til þess, að þessi fyrirtæki hafa borið sig þrátt fyrir erfiðleikana? Hún er einföld. Hún er sú, að þau hafa verið rekin á sómasamlegan hátt. Aftur á móti hefir mikill hluti útgerðarinnar verið rekinn fyrir neðan allar hellur. Þetta er hin einfalda skýring á þessu atriði. Í þessu sambandi er gaman að athuga það, sem hæstv. atvmrh. sagði í dag, þegar hann var með fáum orðum að rekja það, sem hann taldi orsakirnar til þess, að ástand útgerðarinnar væri orðið svo hörmulegt. Hann sagði, að töpin stöfuðu af aflaleysi og því, hvað skipin væru orðið úrelt og gömul. Þetta er athugunarvert. Á aflaleysið nú að fara að verða röksemd fyrir gengislækkun? Það er hjákátlegt. Ég býst ekki við, að hæstv. atvmrh. haldi, að atvinnan aukist með gengislækkun, þó enginn fiskur sé í sjónum, eða aflinn glæðist, þó gengið sé lækkað. — Svo talaði hann um hitt atriðið, að togararnir væru orðnir gamlir og úreltir. Það er satt. Meðan útgerðin græddi og fiskverðið var 50–100% hærra en nú, þá var ekkert lagt til hliðar til þess að endurnýja framleiðslutækin með. Þess vegna stendur nú okkar þjóð í því einstæða ástandi, að framleiðslutækin í undirstöðuatvinnuvegi landsmanna eru ekki endurnýjuð. Ég spyr: Getur slíkt ástand haldizt, að einstökum mönnum sé leyft að draga fé út úr þeim atvinnuvegi, sem þjóðarbúskapur landsmanna byggist á, þannig, að framleiðslutæki hans séu ekki endurnýjuð? Og það sé ekki gert, þegar vitað er, að bankarnir hafa veitt þessum fyrirtækjum mjög rífleg lán, og það án þess, að full trygging kæmi á móti? Það mun vera dæmi þess, að á togara, sem ekki mundi seljast fyrir meira en 100 þús. kr. á frjálsum markaði, hvíldu mörg hundruð þúsunda. Með svona reikningsaðferðum er afarauðvelt að fá tap.

En það er fleira, sem er „rotið í ríki Danmerkur“. Veiðarfærasóuninni í hinni íslenzku útgerð er viðbrugðið. Það er fullyrt af kunnugum, að oft og einatt hafi veiðarfæraeyðslan hjá hinum íslenzku togurum verið allt að helmingi meiri en hjá erlendum togurum, sem stundað hafa veiðar hér við land. Samkv. skýrslum þeim, sem fyrir liggja frá þeirri nefnd, sem hefir rannsakað þetta mál, þá hefir veiðarfærakostnaður 32 togara numið árið 1937 1 milljón og 100 þús. kr. Hvað segja menn um það, ef hægt væri að spara á þessum lið 500–600 þús. kr.? Kolaeyðslan hefir numið á 3. millj. kr., og þar má áreiðanlega mikið spara. Svo eru vextir, sem eru margfalt á við það, sem þeir ættu að vera, ef reiknað er af sannvirði framleiðslutækjanna. Tapið allt árið 1937 er í skýrslunni talið 900 þús. kr. Það virðist ekki ólíklegt, að það mætti spara á þessum liðum þá upphæð, sem tapið nemur.

Nú er þess að gæta, að einmitt þessi ár hafa verið aflaleysisár, og þó ekkert af þessu kæmi til greina, sem getið hefir verið um, þá má jafnvel gera ráð fyrir, ef um „normal“ afla væri að ræða, að þá hefði um ekkert tap verið að ræða hjá þessum fyrirtækjum, eins og hv. 3. landsk. tók réttilega fram. Við allt þetta hefir svo bætzt gengdarlaus fjársóun,þegar vel hefir gengið, og óhæfileg laun nokkurra manna. Öll ráðsmennskan í bönkunum og í útgerðinni hefir orðið til þess að skapa nauðsynina á hinum háu vöxtum. Gífurlega miklu fé hefir verið veitt í óarðberandi fyrirtæki og það hefir komið gjaldeyrismálum okkar í öngþveiti.

Þannig lítur þá öll þessi svikamylla út. Það er augljóst, að þó að gengið verði lækkað, þá halda orsakirnar áfram að verka, sem valda tapi sjávarútvegsins, og þar sem ekki er fengið neitt fé til þess að tryggja gengið, þá er ekkert líklegra en bráðum komi aftur fram kröfur um gengislækkun vegna nýs hruns.

Það, sem þarf að gera, eru allt aðrir hlutir en þeir, sem hér liggja fyrir till. um. Það, sem þarf að gera, er í stórum dráttum eftirfarandi: Í fyrsta lagi þarf að gerbreyta um stjórn í bankamálum landsins og koma óreiðufyrirtækjunum á hreint og gefa innflutning útgerðarvara frjálsan [Eyða í handr.]

Í þriðja lagi þarf að bæta rekstur útgerðarinnar sjálfrar með víðtækum ráðstöfunum til að gera hana samkeppnisfæra. Þarf að haga lánveitingum eftir því, hvernig útgerðin er rekin, og veita verðlaun þeim fyrirtækjum, sem eru til fyrirmyndar, en ekki, eins og að undanförnu hefir verið gert, þeim, sem lakast hafa verið rekin. Á grundvelli slíkra ráðstafana er svo hægt að fara að hugsa til að endurnýja fiskiflotann og koma upp atvinnurekstri til fjölbreyttrar vinnslu sjávarafurða og að afla nýrra og öruggari markaða en við nú höfum. En þetta útheimtir aftur á móti straumhvörf í atvinnumálum og stjórnmálum og hreinsun í bönkum og opinberum stofnunum. En það er vegna þessa, sem ekki má minnast á þetta í sölum Alþ., þar sem þeir hafa sjálfir ráðin, sem skapað hafa öngþveitið. Þessir menn lifa sjálfir hátt á sama tíma og þeir gráta tárum hræsnaranna yfir hinum erfiðu tímum, sem þeir sjálfir hafa skapað.

Að lokum vil ég segja það viðvíkjandi lögfesting kaupgjalds og banni við verkföllum, að við sósíalistar litum á slíkar ráðstafanir sem beint stjórnarskrárbrot og teljum þar af leiðandi verkalýðsfélögin hafa óbundnar hendur, þó að þetta verði samþ. En þeir, sem hylla ranglætið, hljóta líka að hylla ofbeldið, og það er enginn efi á því, að það verður næsti liður á dagskrá hjá þessum háu herrum.

Ég hefi hér lagt fram rökstudda dagskrá, sem felur í sér vantraust á ríkisstjórnina. Það er samskonar dagskrá eins og samflokksmenn mínir lögðu fram í Nd. Ég skal ekki hafa um þá dagskrá fleiri orð, en vil aðeins taka það fram, að ég lít svo á, að það, hvernig menn greiða atkv. um dagskrána, sé mælikvarði á afstöðu þeirra til þessa máls, gengislækkunar og banni við verkföllum. Það eru slík höfuðstefnumál, að það er ómögulegt fyrir þá, sem andvígir eru slíkum ráðstöfunum, að styðja stjórn, sem lætur framkvæma þær.