06.11.1939
Neðri deild: 53. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (3149)

93. mál, skattfrelsi h/f Eimskipafélags Íslands

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég þarf ekki að flytja langt mál um þetta frv., því í raun og veru er það sagt í hinni stuttu grg. frv., sem ég tel þörf á að segja til skýringar eða viðbótar því, sem felst í gr. frv.

Aðalatriðið er það, að Eimskipafélag Íslands hefir lengi haft í hyggju að byggja nýtt skip. en því máli var þann veg komið sumarið 1939, að stjórn félagsins átti viðræður um málið við ríkisstj. og fór fram á ýms fríðindi af hendi ríkissjóðs. ef þetta skip yrði byggt. Eftir að þessar viðræður höfðu farið fram og bréfaskipti milli þessara aðila um málið, þá réðst stjórn Eimskipafélags Íslands í það, eftir að hafa tekið málið til nánari athugunar, að leita hófanna um byggingu slíks skips hjá ýmsum nágrannaþjóðum okkar. En stjórn félagsins taldi sig hafa fengið vilyrði hjá ríkisstj., ef hún gæti fullnægt vissum skilyrðum, sem ríkisstj. hafði sett, og fyrirheit af hendi stj. um viðbótarstuðning við Eimskipafélag Íslands, sem stjórn félagsins taldi nægja til þess að félagið gæti hafizt handa í þessu máli. Eftir að hafa fengið þessar upplýsingar og leitað hófanna um samninga um byggingu þessa skips, þá réðst stjórnin í að gera samning um byggingu þess og taldi þá, að hún ætti vísan stuðning ríkisstj. í þessu máli.

Það var annar maður, sem sat þá í embætti atvmrh. heldur en nú, og ég tel ástæðulaust fyrir mig að fjölyrða um hans skilning á þessu máli. Hann gerir það sjálfsagt sjálfur. En ég segi fyrir mitt leyti, að eftir að ég tók við embættinu og málið hafði verið lagt fyrir mig, þá taldi ég það liggja þannig fyrir, að mér væri skylt, enda var mér það líka ljúft, að uppfylla loforð þau, sem stjórn Eimskipafélags Íslands taldi sig hafa fengið.

Ég hefi nú með því að leggja þetta frv. fyrir hv. d. að því leyti uppfyllt loforð þau, sem stjórn Eimskipafélagsins var gefið. Ég mun að sjálfsögðu reyna að fylgja þessu frv. fram á hv. Alþ. og þar með verða við tilmælum félagsstj. um að bera fram frv., sem fer í þá átt, að ef félagið lætur smíða slíkt skip, þá skuli það undanþegið gjöldum til ríkissjóðs vegna innflutnings skipsins til Íslands, skrásetningar þess og þinglestrar eignarheimildarskjala um það, ásamt þar að lútandi stimpilgjöldum, og ennfremur öllum sköttum og gjöldum af skipinu til ríkissjóðs eða annara opinberra sjóða í fyrstu tíu árin eftir að það byrjar siglingar.

Ég læt þessa stuttu grg. nægja. En því miður hafa þeir atburðir gerzt, sem öllum hv. þdm. er kunnugt um, hin mikla styrjöld, sem að minni hyggju mun valda því, að litlar líkur eru til, að hafizt verði handa um þessa byggingu. Ég taldi þó rétt að leggja frv. fram, því ég vilda standa við loforð, sem ég gaf. Ég mun því, að svo miklu leyti sem Eimskipafélag Íslands afræður að halda áfram byggingu þessa skips, fylgja frv. fram eftir því, sem geta mín leyfir. En ég endurtek, að ég tel ekki miklar líkur til, að úr þessu verði.

Ég veit, að þetta mál hefir valdið nokkrum ágreiningi, en ég tel ekki ástæðu til þess fyrir hv. þm. að tefja störf þingsins með umr. um þetta mál á þessu stigi þess. Það mun verða tími til þess, þegar frv. kemur frá n., enda mun ég þá færa fram víðtækari greinargerð, sem ég tel ekki nauðsynlegt að gera fyrr en kemur til úrslita frv.