09.11.1939
Neðri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (3159)

103. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Einar Olgeirsson:

Ég vildi sérstaklega minnast á aðalatriði þessa frv. Ég tel, að aðalatriði frv. sé það, að Alþ. veiti verkamönnum aftur þann rétt, sem þeir höfðu áður, til þess að setja sjálfir verðið á sína vinna og til þess að mega semja um það við þá, sem hana vilja kaupa. Þessi réttur var tekinn af þeim í vor. Og ég er hræddur um, að hvorki hv. þm. né fjöldinn aliur af íbúum landsins geri sér ljóst, hversu geigvænlegt brot þetta var á öllum mannréttindum, sem þarna kom fram gagnvart verkalýðnum. Ég álít þess vegna nauðsynlegt, að hv. þm. geri sér það vel ljóst, hvað verkalýðurinn er að fara fram á með þeim kröfum, sem hér eru fram bornar og öll þau verkalýðsfélög, sem enn hafa um þetta rætt, hafa óskað eftir, að fram væru bornar. Það hefir verið á vitorði meiri hl. þm. á Alþ., eins og það er nú skipað, að í núv. þjóðfélagi ætti verkalýðurinn við ófrelsi að búa. Framsfl. hefir í blaði sínu, Tímanum, áður fyrr alls ekki neitt dregið úr því, að þau kjör, sem verkalýðurinn ætti við að búa, væru í raun réttri nokkurskonar þrælahald. Ég ætla að leyfa mér. með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp nokkur orð úr grein, er birtist í 12. árg. Tímans, 58. tbl. Þar segir svo: „Annarsvegar stendur fámenn stétt atvinnurekenda, með veltuféð allt og atvinnutækin í sínum höndum, hinsvegar tómhentir öreigar, atvinnulega ósjálfbjarga, sem selja lifandi orku sína á leigu eins og vinnudýr eða vélar. Slíkt er vitanlega aðeins eitt stig af þrældómi. Sannvirði vinnunnar er aldrei fundið, enda aldrei eftir því leitað, heldur er vinnan metin af handahófi, eftir því sem verða niðurstöðurnar af sífelldum deilum og þjarki fjandsamlegra aðila.“

Þetta er sú skoðun, sem Framsfl. og aðalmálgagn hans, Tíminn, viðurkenndu fyrir 10 árum, og allan þann tíma, sem Alþfl. var skoðaður sem sósíalistaflokur, hélt hann hinu sama fram. Það virðist því ekki þurfa að efast um, að þeim flokkum, er skipa meiri hl. þessa þings, hafi verið ljóst, að verkalýðurinn ætti í auðvaldsþjóðfélagi við einskonar þrældóm að búa, og svo mun það vera meðan auðvaldið yfirleitt reynir að spilla því lýðræði, sem almenningi er látið í té. Verkalýðurinn verður að selja vinnuafl sitt til að geta lifað og er því sem vinnudýr eða vélar. Hann á aðeins einn rétt, sem getur linað þennan þrældóm, sem sé að bindast samtökum og gera verkföll, til að hækkað verði kaupið, sem hann fær. En l. um gengisskráningu gera þann eina rétt, sem hann átti til að bæta kjör sín, að engu. Honum er neitað um rétt til að bindast samtökum og knýja vinnuveitendur til að greiða hærra kaup. Sá réttur, sem verkalýðurinn átti, er nú skertur. Alþ. hefir ekki aðeins horft upp á það öll þau ár, sem meiri hl. þess var ljóst, að sá þrældómur, sem Tíminn talar um, að ætti sér stað, haldi áfram, — það var ekki nóg með það, að Alþ. gerði ekkert til að afnema þetta ófremdarástand meðal þjóðarinnar, að verkalýðurinn yrði að selja vinnuafl sitt daglega til þess að geta dregið fram lífið, — það var ekki nóg með það, að Alþ. gerði ekkert til að laga þetta ófremdarástand, heldur hefir það með l. um gengisskráningu frá 4. apríl 1939 svipt verkalýðinn þeim einu ráðum, sem hann lagalega átti til þess að geta bætt kjör sín og hækkað kaup sitt. Ég býst við, að ekki hafi getað hjá því farið, að meiri hl. Alþ. hafi verið ljóst, hve hróplegt ranglæti . var framið gagnvart verklýðssamtökum landsins með þessari lagasetningu. Ef hv. þm. er það ekki ljóst, þá má merkilegt heita, að þeir sjái ekki ósamræmið milli þess og hins, er þeir hafa haldið fram þegar gengið er til kosninga, eða þær yfirlýsingar, sem flokkarnir hafa gefið frammi fyrir alþjóð. Ég held, að hv. þm. sé sérstaklega nauðsynlegt að gera sér ljóst hvaða órétti verkalýðurinn er beittur með þessu. Það er ómögulegt að ætlast til þess af verkalýð þessa lands, að hann trúi því, ef ákveðnir flokkar tala annarsvegar um, að hann njóti lýðræðis, frelsis og jafnréttis, en reyna hinsvegar að svipta hann þeim rétti, sem hann hefir haft. Menn verða að opna augun fyrir því, að samkv. öllum manntalsskýrslum er það rúmlega helmingur íslenzku þjóðarinnar, sem lifir af því að selja vinnuafl sitt. Rúmur helmingur þjóðarinnar er þá sviptur þeim grundvallarmannréttindum, sem hann hefir haft og eru undirstaða þess lýðræðis, sem reynt hefir verið að koma á í þjóðfélaginu. En hið .,ökonomiska“ ástand ,.kapitalismans“ gerir það að verkum, að reynt er að rýra og veikja þetta lýðræði eins mikið og unnt er, og með þessum gengisl. hefir auðvaldinu á Íslandi alveg sérstaklega tekizt að koma ár sinni fyrir borð og brjóta niður einhver dýrmætustu mannréttindi verkalýðsins. Það er hart að hugsa til þess. að meiri hl. þessa Alþ. hefir ekki þorað að láta l. ganga yfir Kveldúlf og Landsbankann, en hinsvegar þorað að svipta fátækasta hluta þjóðarinnar þeim grundvallarréttindum til að bæta léleg kjör sín, sem hann naut áður. Menn, sem hafa getið í skyn. að þeir væru verndarar smælingjanna og mynduðu þjóðstjórn til þess að fullnægja réttlátum skyldum, geta horft upp á, að önnur eins l. sem þessi séu látin gilda. Ég treysti því, að hv. þm. sé það ljóst, er þeir athuga gengisl., að allt er undir því komið, að þessi óréttur verði lagfærður aftur. Aðalatriði þess frv., sem ég og hv. 3. þm. Reykv. (HV) flytjum hér, er það, að verkalýðurinn fái frelsi til að ákveða kaupgjald sitt. En samkv. núgildandi l. geta hvorki verkamenn né atvinnurekendur breytt kaupgjaldi. En vilji þeir ekki semja, heldur leggja út í baráttu um það, gerir frv. okkar ráð fyrir, að kaupgjald hækki hlutfallslega við vaxandi dýrtíð í landinu, en þó ekki fullkomlega, því að full hækkun verður ekki á kaupinu fyrr en í næsta mánuði. Þess vegna er tryggt með þessu frv., að verkalýðurinn fái frelsi sitt aftur.

Í öðru lagi, ef hvorki verkalýðsfélög né atvinnurekendur vilja semja, mælir þetta frv. svo fyrir, að kaupgjaldið hækki hlutfallslega við það, sem dýrtíðin eykst. Ég vil taka það fram að við erum ekki að leggja til, að kaupgjaldið verði lögboðið. Aðalatriðið er, að verkalýðurinn fái fullt frelsi til að hækka kaup sitt í hlutfalli við dýrtíðina; hitt er aðeins varaskeifa, ef verkalýðsfélög vildu ekki nota þennan rétt. Nú liggja fyrir Alþ. margar áskoranir frá verkalýðsfélögum á landinu, að félögin fái fullt frelsi viðvíkjandi kaupgjaldi, og verkamönnum verði tryggð kauphækkun í hlutfalli við vaxandi dýrtíð, og auk þessara áskorana munu vera allmargar samþykktir verkalýðsfélaga um sama efni, sem ekki eru komnar til Alþ. enn.

Ennfremur er farið fram á það í þessu frv., að alþýðutryggingar verði hækkaðar. Það eru einmitt samskonar ákvæði, sem samþ. hafa verið víða erlendis, t. d. í Danmörku, þegar gengið breyttist og dýrtiðin fór vaxandi.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á þessu frv. í sambandi við ellilaunin, sem eru allt of 1ág, ef gamalmenni eiga að geta lifað á þeim, og fram- færslustyrkurinn, sem hefir komið fram sem uppbót á ellilaunin, er líka of lítill. Samkv. útreikningi Hagstofu Íslands á árinu 1938 vantaði 500 kr. til þess að 5 manna fjölskylda gæti framfleytt lífinu á 80 aura styrk á dag, og þá geta menn gert sér í hugarlund, hve ófullnægjandi sá styrkur muni vera nú. Mikill hluti þess fólks, sem lifir á framfærslustyrk og líka á ellilaunum, lifir bókstaflega sultarlífi. Það er víst ekki til of mikils mælzt við Alþ., sem sér enga ástæðu til að hreyfa við hálaunamönnunum og þeirra tekjum, að það gangi inn á að hækka ellilaun og örorkubætur.

Viðvíkjandi rétti bænda í þessum efnum og réttindum þeirra, er hafa tekjur af fasteignum, er gert ráð fyrir í þessu frv., að þær n., sem áður hafa verið skipaðar, t. d. mjólkur- og kjötverðlagsnefnd o. fl., fái að halda þeim réttindum, sem þær hafa áður haft, og reynt verði að ákveða verðlag á landbúnaðarafurðum sem sanngjarnast, bæði með tilliti til framleiðenda og neytenda.

Ég tel mjög mikið undir því komið, að þetta frv. í því formi, sem við flm. leggjum það fram, nái samþykki Alþ., til þess að hið sama Alþ., sem hefir beitt verkalýðinn órétti með samþykkt gengisl., bæti nú fyrir það aftur.