09.11.1939
Neðri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (3162)

103. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég skil það mjög vel, að hv. þm. Ísaf. beri aðra fyrir brjósti en verkamenn. Ég skal ekki segja um það, hvort það hafa verið þessir 7 launþegar ríkisins, sem eru þm. Alþfl., eða e. t. v. einhverjir aðrir, sem pólitík Alþfl. virðist upp á síðkastið miðast við. Það má undarlegt heita, að þessi hv. þm. skuli nú standa hér upp og flytja ræðu til að reyna að gera sem mest réttindarán á öllu því, sem framkvæmt hefir verið fyrir verkalýðinn. Allan þann tíma, sem Alþfl. hefir starfað, frá stofnun hans þar til fyrir einu ári, sem sé meðan nokkur sósíalisti var til í þeim flokki, var það eitt af aðalatriðunum í stefnuskrá hans, að verkamenn hefðu rétt til að ákveða kaupgjald sitt. En nú heldur einn af þm. Alþfl. því fram, að það hafi ekki verið níðzt á verkamönnum með l. um gengisskráningu í vor, slíkt komi miklu þyngra niður á öðrum. En ég ætla þá að rifja upp fyrir honum, hvernig það var hér í þingsölunum hinn 20. marz 1938, þegar Alþfl. dró ráðh. sinn út úr ríkisstj. Af hverju var það gert? Það var gert vegna þess, að Alþ. hafði lögfest gerðardóm til að ákveða kaup sjómanna. Alþfl. þótti þá óhæfa að hafa ráðh. sinn lengur í ríkisstj., þegar kaup skyldi útkljáð með gerðardómi. Þessi l. ákváðu, hvernig gerðardómurinn skyldi skipaður, og verksvið hans að ákveða kaup sjómanna. Þá áleit Alþfl., að honum bæri að berjast móti slíku réttindaráni gagnvart verkalýðnum sem l. þessi væru. Svo leið rúmt ár, þar til Alþfl. var svo gersamlega búinn að varpa þeirri kenningu fyrir borð, að hann hamaðist við að eyðileggja 20 ára starf sitt með samþykkt l. um gengisskráningu 4. apríl 1939, og settist í stj. með hv. þm. G.-K. (ÓTh). Það þýðir ekki neitt fyrir þm. Alþfl. að segja okkur, sem þekkjum verklýðshreyfinguna, það, sem hann sagði, sem eru tóm glamuryrði, að l. um gengisskráningu hafi verið samþ. til að bjarga þjóðarheildinni. Voru þau ekki samþ. til að bjarga Kveldúlfi? Það er því ekki til neins fyrir hann að koma hér og segja okkur, að þetta, sem hann hefir gert, sé ekki að bregðast verkalýðshreyfingunni og þeim kenningum, sem hún heldur við. Hann dirfðist hér að bera það á borð fyrir okkur, að það hafi orðið að bjarga þjóðarheildinni. Honum má það vera manna ljósast, að það var verið að bjarga Kveldúlfi. Það þarf ekki að bera það á borð fyrir verkamenn, að með gengislögunum hafi þjóðarheildinni verið bjargað. En þau hafa gert eitt. Þau hafa gefið atvinnurekendunum tækifæri til þess að brjóta dýrmætan rétt verkamanna á bak aftur og skaða þeirra hagsmuni og gefið atvinnurekendunum ennfremur vissu um, að það mátti nota Alþingi til þess að ræna verkamennina rétti þeirra. Það er það versta, sem gerzt hefir í sambandi við þetta, því að það voru þeir ekki vissir um fyrr, að væri mögulegt.

Svo kom þessi hv. þm. með það, að með þessum l. væru hagsmunir fleiri en verkamanna brotnir á bak aftur, t. d. hagsmunir húseigenda. Já, mikil lifandi skelfing og ósköp eru að vita til þess! Ég býst við, að upp undir 99%, eða a. m. k. mikill meiri hluti af húsum í Reykjavík, séu byggð fyrir lán, sem tekin hafa verið í íslenzkum krónum, eða að það sé þá búið að konvertera lánunum yfir í íslenzkar krónur fyrir löngu síðan. Það er því á allra vitorði, að sjálfsagt er að halda húsaleigunni mjög mikið niðri, og t. d. síðan stríðið hófst, virðist sú hugmynd hafa verið uppi og almennt talið sjálfsagt, að húsaleiga þyrfti ekki að hækka, þó að erlendur gjaldeyrir hækkaði. En nú fer þessi hv. þm. að bera hag húseigendanna fyrir brjósti. Það er sérstök tegund húseigenda, sem má taka tillit til, en það eru verkamenn, sem reyna með miklum erfiðleikum að halda húsum sínum frá að lenda í klónum á bönkunum og húsaleiguokrurunum, en það, sem mestu máli skiptir fyrir þá, er, að þeir fái að hafa atvinnu áfram.

Svo kom þessi hv. þm. að því, að okkur farist sízt að tala fyrir hönd verkalýðssamtakanna. vegna þess að við viljum á allan hátt rífa þau niður. Ég vil segja honum, að það er fólksins í landinu að dæma um, hverja það kýs sér fyrir fulltrúa, og hann getur ekki sett sig á háan hest og sagt: Allir þeir verkamenn, sem kjósa kommúnista á þing, tilheyra ekki verkamannastéttinni og ættu ekki að hafa málfrelsi eða kosningarrétt. — Þeir eru mikill hluti verkalýðsins og sterkasti hluti samtaka þeirra og verða ekki þurrkaðir út með stóryrðum. En viðvíkjandi því, sem hann sagði, að við værum að rífa niður verkalýðssamtökin, þá þætti mér vænt um, að hann vildi nefna eitt einasta dæmi, eina einustu staðreynd sínu máli til stuðnings. Ég vil skora á hann að nefna eitt einasta verkalýðsfélag, nefna eitt einasta dæmi um, að kommúnistar hafi reynt að kljúfa verkalýðsfélögin, t. d. að þar, sem þeir hafa verið í minni hluta, hafi þeir klofið félagið og stofnað annað nýtt. En það er ekki hægt, því að þau dæmi eru ekki til. En ég get nefnt dæmi um, að hann flokksmenn hafa stofnað klofningsfélög, af því að þeir hafa orðið í minni hluta og ekki þolað það, og það er það, sem við köllum að rífa niður verkalýðssamtökin, því að það er grundvöllurinn fyrir verkalýðssamtökunum, að aðeins eitt félag sé á hverjum stað. En það er ekki nóg með, að hans flokkur rífi þessi samtök þannig niður; hann og hans flokkur heldur því fram í blöðum sínum, að það eigi að veru mörg verkalýðsfélög á hverjum stað. Þessa kenningu flytur Alþýðublaðið, að félögin megi vera mörg, eitt fyrir lúterstrúarmenn, eitt fyrir kaþólska menn, eitt fyrir heiðingja, eitt fyrir sjálfstæðismenn, eitt fyrir framsóknarmenn, eitt fyrir alþýðuflokksmenn og svo fjögur fyrir sósíalista. Hvað er að rífa niður verkalýðssamtökin, ef það er ekki gert með því að kljúfa þannig grundvöllinn og halda því svo einnig fram. að félögin eigi að vera í sem allra flestum pörtum?

Svo segir þessi hv. þm., að Alþýðusamband Íslands sé slíkt sverð og skjöldur fyrir verkalýðinn, að það sé ógurlegt til þess að vita, að við skulum jafnvel leyfa okkur að gagnrýna það, þetta séu frelsissamtök. sem séu svo hátt upp hafin, að enginn eigi að dirfast að kasta á þau skugga. Ég vil spyrja, hvort ekki megi þá vera í þessum frelsissamtökum svo mikið frelsi, að verkamenn geti gengið inn í félögin, þar sem þeir eru verkamenn og fengið að kjósa þar eins og allar lýðræðisvenjur bjóða. Ég veit, að þessi hv. þm. á erfitt með að svara þessu, því að hann hefir verið með í að breyta þessu, sem átti að vera frelsissamtök, í kúgunarsamtök fyrir nokkra hálaunamenn, fámenna klíku, sem bannaði að kjósa aðra á þing Alþýðusambandsins en þá. Ég skal ekki fara langt út i, hversu beitt sverðið hefir verið eða óklofinn skjöldurinn í hvert sinn, sem átti að beita því.

Svo segir hv. þm., að við höfum í raun og veru engan rétt til að tala þarna með. Það er eðlilegt og rökrétt hjá honum. Það er von með menn, sem hafa ekki getað staðið fyrir sínu máli, sem hafa gripið til einræðis innan sinna vébanda, sem nú útrýma frelsi og lýðræði úr sínum eigin samtökum, sem ekki þora að horfast í augu við vilja meiri hlutans í þessum samtökum, það er eðlilegt, að þeir vilji nú gripa til einræðis einnig utan þessara samtaka, sem sé í þjóðfélaginu sjálfu. Það er eðlilegt, að þegar þm. eins og hv. þm. Ísaf. og hans helztu flokksmenn sjá, að þeir geta ómögulega haldið völdum yfir verkalýðnum með lýðræðislegu móti, þá hugsi þeir sér, af því að til er annar vettvangur fyrir andstæðinga þeirra til að tala á, að banna þeim einnig þennan vettvang, sem sé þjóðfélagið sjálft, eins og bezt sést á því, að sumir helztu leiðtogar þeirra hafa sagt, að setja eigi suma menn utan gátta í þjóðfélaginu, og ég sé ekki betur en að hv. þm. Ísaf. taki undir það, vilji kúga alþýðuna og lýðræðið, en hafa við völd fámenna klíku braskara og bitlingamanna, einnig í sjálfu þjóðfélaginu. Það er eðlilegt, að þessi hv. þm., sem hefir unnið eið að því að halda stjórnarskrána, skuli nú vilja, að ekki fái að ríkja fullkomið málfrelsi. Það er óþægilegt fyrir þá, að sýnt sé fram á, hvernig þeir setja sína hagsmuni framar hagsmunum þeirra, sem þeir eiga að vinna fyrir, og eðlilegt, að þeim þyki betra að leggja út í kosningar, ef sósialistar hafa ekki málfrelsi.