09.11.1939
Neðri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (3165)

103. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Ísaf. sagði um það, sem ég talaði hér áðan, þá veit ég, að hann og fleiri skilja, að þær ástæður. sem voru fyrir, að Vinnuveitendafélagið lét í ljós, að það teldi sig ekki meðmælt þessu máli, lágu ekki í því, að þeir teldu, að ekki væri gengið á hlut verkamanna, heldur hafa þeir litið svo á, að ef ríkisvaldið færi að skipta sér af þessum málum, þá gæti það lent í höndum manna, sem væru óvinveittir atvinnurekendum.

Ég hefi ekki séð, hvaða l. það eru, sem gilda ættu um það, að kaupgjald ætti ekki að hækka um einn eyri. Hv. þm. Ísaf. veit eins vel og aðrir þm., hvaða ástand hefir skapazt af völdum stríðsins. Þeir samningar eru óteljandi, sem rift hefir verið vegna þess ástands, sem skapazt hefir vegna stríðsins. Það ætti ekki síður að gilda fyrir verkalýðsfélagið Dagsbrún en aðra. Þegar tekin var ákvörðun um að segja ekki upp samningum, þá var gengið út frá því sem vissu, að ef stríð kæmi, þá yrðu gerðar sérstakar ráðstafanir.

Viðvíkjandi því, sem sagt hefir verið um þjóðarnauðsyn, sem á að vera þessa valdandi, þá mætti spyrja, hvort verkamenn og bændur séu ekki líka hluti af þjóðinni. Ég hygg, að það sé yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar, sem binda á á þennan hátt, án þess að leitað sé álits þeirra stofnana, sem eru sérstakir fulltrúar fyrir þessar stéttir. Hvers vegna á það ekki að vera svo, ef krefjast á þess, að hver maður taki á sig byrðar í sambandi við hið lélega fjárhagsástand, að það sé borið undir samtök verkamanna, enda eru verkamenn vanir að færa fórnir ekki síður en aðrar stéttir.

Þá minntist hv. þm. Ísaf. á starfsemi verklýðsfélaga og vildi meina, að þessi löggjöf væri nauðsynleg vegna þess, að sum verklýðsfélög gætu ekki bjargað sér sjálf vegna þess ástands, sem þau væru í. Hann sagði, að á fundum í Dagsbrún væru þetta 80–100 manns. Ég hefi nú verið formaður Dagsbrúnar um 14 ár, og á þeim tíma hefir félagið talið þetta frá 500 upp í 2300 manns. Fyrst eftir að ég varð formaður félagsins voru fundir oft ekki fjölmennari en 50–60–l00 manns, en nú eru þeir aldrei fámennari en 160–200 manns. Þetta gildir því ekki fyrir Dagsbrún. Hún er eitt af þeim fáu félögum, sem þrátt fyrir þessi 1., sem skerða réttindi verkamanna, hefir gert 2 samninga á árinu, sem bæta kjör verkamanna.

Mér er ekki kunnugt um, að nokkurt félag. sem hv. þm. Ísaf. telur undir sínum væng, hafi gert það betur. Ekki er hægt að segja það um hið dauða félag Baldur á Ísafirði, en hv. þm. vann einu sinni ýms góð verk í þágu þess. hað eru ekki nema 20–30 menn, sem sækja þar fundi nú. Sjómannafélagið hefir aðeins haldið 2 fundi á árinu, og laumazt til að halda þá með svo stuttum fyrirvara, að menn hafa ekki getað sótt þá.

Ég er ekki fullur af vantrú á verkamönnum. Ég býst við, að þeir sýni sama þrótt og festu framvegis eins og þeir hafa gert, og það sé þess vegna bezt að láta þá sjálfráða um sín mál og þá muni þeir lækna þau mein, sem komið hafa af sundrung seinni ára. Það er það, sem frv. fer fram á. Hinsvegar er haldið þeim ákvæðum, að kaupgjald fylgi dýrtíðinni, en þau eru aðeins bætt.