10.11.1939
Neðri deild: 57. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (3175)

107. mál, útsvör

Ísleifur Högnason:

Ég man ekki nákvæmlega, hvernig ég orðaði það síðast, er ég tók til máls, en átti við, að með þessu frv. ætti að afnema samvinnufélögin. Ég held ég megi fullyrða, að í ræðu minni hafi ég komizt að orði eitthvað á þá leið, að það ætti að svipta samvinnufélögin öllum þeim rétti, sem þau hefðu áður notið; svipta þau þeim rétti, að þurfa ekki að greiða tvöfalda skatta. Það sér hver maður, sem íhugar það, að með þessu frv. á að afnema l. um útsvör, tekju- og eignarskatt á næstu 5 árum, og með því móti missir ríkissjóður af nokkrum þús. kr. árlega, að ríkið þarf að ná þeim skatti inn á annan hátt, enda er það líka viðurkennt, að ríkisstj. yrði að leita annara leiða vegna þess að það er allmikil tekjurýrnun fyrir ríkissjóð að missa þetta. Ríkisstj. mun víst ætla að hækka tolla á nauðsynjavörum. En kemur það harðast niður á þeim. sem hafa miklar tekjur og greiða háa skatta? Nei, slíkir tollar hljóta að koma þyngst niður á þeim fátækari, og ætla ég, að þetta sé hverjum þm. ljóst.