10.11.1939
Neðri deild: 57. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (3176)

107. mál, útsvör

*Steingrímur Steinþórsson:

Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta frv., en ég verð að gera grein fyrir atkv. mínu, því að ég er staðráðinn í því að greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi við 1. umr. Það er að vísu fremur sjaldgæft, að slíkt sé gert, en mér virðist þetta frv. vera svo mikil fjarstæða, að það sé að leika skrípaleik að vísa því til n. Að hugsa sér, að farið verði að afnema tekju- og eignarskatt og svipta ríkissjóð þeim gjaldstofni, nær ekki nokkurri átt. En ég hygg, að hv. flm. þess, 6. þm. Reykv., geti hugsað á þessa leið: Mestur hluti tekju- og eignarskattsins á öllu landinu er innheimtur hér í Reykjavík, og kjósendur mínir hér í Reykjavík munu því verða þessu frv. fegnir, því að þetta bæjarfélag ber mest úr býtum með tilliti til tekju- og eignarskatts. En þótt langmestur hluti af tekju- og eignarskatti sé greiddur hér í Reykjavík, af því að hún er höfuðborg landsins, og hingað dragast fjármunirnir, væri það samt hróplegt ranglæti að láta hana eina sitja yfir þessum tekjustofni. Frá því sjónarmiði séð er þetta frv. svo fjarri allri sanngirni, að við, sem höfum hagsmuna að gæta úti um land, getum ekki greitt atkv. með þessu frv. til 2. umr. og n. Þetta er nákvæmlega sama sem að afhenda Reykjavíkurbæ þessa skatta. Ég kalla það engin sérréttindi, þó að bent sé á, að ekki sé hægt að leggja tvöfaldan skatt á samvinnufélögin, en það ákvæði var sett, þegar l. um samvinnufélög voru samþ., en það var árið 1921.

Þetta eru þau tvö meginatriði, sem gera þetta frv. frá mínu sjónarmiði að svo mikilli fjarstæðu, að ég er staðráðinn í að greiða atkv. gegn því við 1. umr. Ég tel mál, sem borið er fram á slíkum grundvelli sem þessum, varla þess vert að rökræða það.