10.11.1939
Neðri deild: 57. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (3177)

107. mál, útsvör

*Bergur Jónsson:

Ég hefi enga ástæðu til að orðlengja mikið um þetta. Hv. flm. svaraði mér sama sem engu. Út af því, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði, að hann myndi greiða atkv. gegn þessu frv. við l. umr., vil ég geta þess, að það er yfirleitt ekki venja mín að greiða atkv. gegn frv. við 1. umr., því að ef þau eru fráleit, má svæfa þau í n.

Í öðru lagi er hér um það að ræða, að kippa burtu einum af sterkustu tekjustofnum ríkissjóðs, en samt sé ég enga ástæðu til að greiða atkv. gegn því við þessa umr. og meina því að komast til nefndar, nema hæstv . fjmrh., sem hlýtur fyrst og fremst að láta sér umhugað um, að tekjur ríkissjóðs verði ekki rýrðar með slíkum frv., óski eftir annari meðferð. Honum hlýtur að vera sárast um, að tekjur ríkissjóðs minnki í upphafi starfstíma síns. En ef hann ekki óskar þess, mun ég ekki hverfa frá þeirri yfirlýsingu, sem ég gaf fyrst í ræðu minni; enda þótt ég álíti frv. mjög fráleitt og á engan hátt þannig undirbúið, að ástæða sé fyrir Alþ. að taka það í fullri alvöru, þá vildi ég samt sýna hv. flm. þá velvild, að neita því ekki um að ganga til n. Ég ætla því að gera nokkurskonar hrossakaup við hann, ef ég kynni að bera fram frv., sem væri alveg fráleitt að hans dómi. (SK: Þegar þm. er búinn að greiða atkv. með því við 3. umr., skulum við semja um launin). Viðvíkjandi því, sem hv. 4. landsk. (ÍslH) benti á, að þarna væri á ferðinni frv., sem ætti að sýna okkur framsóknarmönnum, að verið sé að reyna að tæla okkur til skemmdarverka gegn þeim stofnunum, sem ættu að vera okkur kærastar, sem sé samvinnufélögunum, get ég fullvissað hann um, að hann getur verið alveg áhyggjulaus um það, að við munum hvorki leita til hans ná flokksbræðra hans um ráðleggingar um, hvernig við eigum að forðast að vera tældir pólitískt. Við búumst ekki við að geta fengið nein heilræði þaðan. Að vísu hefir einn af hinum þekktari og mikilsvirtari stjórnmálamönnum landsins gengið til samvinnu við þann flokk undir nýju flaggi, sem sé hv. 3. þm. Reykv. (Hv). En allir, sem til þekkja, munu nokkurnveginn sammála um, að það, að hann gleypti þessa tálbeitu, verði hans pólitíski dauði. Þannig hlýtur að fara, þegar hann bindur bagga sína með stjórnmálamönnum, sem sízt er von um að nokkur þori að treysta einkanlega nú upp á síðkastið, þegar það er orðið bert, að þeir eru alls ekki íslenzkir stjórnmálamenn, heldur annaðhvort sjálfrátt eða ósjálfrátt (hv. þm. A.-Húnv. (JPálm) talaði um ósjálfráð öfl) eru þeir orðnir svo þrælbundnir, að þeir lofa öll þau verk, sem eitt stórveldi gerir, hversu fráleit sem þau eru fyrir augum allra hlutlausra manna. Þjónustan við þessa háu herra, svo að notað sé þeirra eigið orðalag, er vægast sagt mjög varhugaverð afstaða hjá íslenzkum stjórnmálaflokki. Ég tel engan vafa á að það hefði verið gott fyrir hv. 3. þm. Reykv., ef einhver vinur hans hefði varað hann við félagsskap þessara manna, en því miður var honum ekki gefið það heilræði, aðenda þótt hann gæti ekki átt samleið með sínum flokksbræðrum, skyldi hann ekki binda bagga sína með þessum flokki því að það væri alveg öruggt að það yrði hans pólitíski dauði.