17.11.1939
Neðri deild: 62. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (3191)

114. mál, jarðræktarlög

*Steingrímur Steinþórsson:

Ég hygg, að það hafi verið í fyrra, sem við hv. þm. V.-Sk áttum orðaskipti um samskonar frv. sem þetta. (GSv: Það var í hitteðfyrra). Ég ætla því ekki að fara inn á langar umr. um málið nú, aðeins fara um það nokkrum orðum, sérstaklega af því, að hv. flm. minntist á, að nú væri starfandi nefnd frá búnaðarþinginu, sem ætti að taka jarðræktarlögin í heild til athugunar og leggja niðurstöðurnar fyrir næsta búnaðarþing. Um nefnd þessa er það að segja að hún var sett í samráði við ríkisstj. og kom einmitt til bæjarins í gær og mun því um það bil vera að hefja störf sín. Það er því harla undarlegt að vera nú að flytja frv. til breyt. á jarðræktarlögunum, þegar á að fara að endurskoða þau með fullu samþykki landbrh. Annars er það undarlegt, að hv. flm. skuli ekki bera fram annað frv. samhliða þessu, en það er frv. til breyt. á l. um byggingar- og landnámssjóð, því að þar eru einmitt hliðstæð ákvæði hinum umdeildu ákvæðum 17. gr. jarðræktarlaganna, þar sem bannað er að selja nokkra fasteign umfram kostnaðarverð. Þarna er því um harðari ákvæði að ræða en ákvæðið um fylgiféð í jarðræktarlögunum. Hér er því misræmi í framkomu hv. flm., að vilja halda ákvæðinu um byggingu jarða, en ekki að því er snertir umbætur á þeim. Mér finnst, að annaðhvort eigi bæði ákvæðin að gilda eða hvorugt.

Ég tel mál þetta ekkert erindi eiga inn í þingið eins og nú standa sakir, þar sem verið er að endurskoða lögin fyrir tilstilli stjórnarinnar. Ég tel mig því ekki geta greitt atkv. með því til 2. umr., en mun ekki setja mig á móti því, að það gangi til n., ef það á annað borð verður samþ., að það gangi til 2. umr., því að það mun etlaust koma til n. þeirrar, er ég á sæti i.

Það gladdi mig að heyra hv. þm. V.-Sk. tala um þá nauðsyn, sem á því væri nú að hafa trausta og örugga samvinnu um stjórn landsins milli stjórnmálaflokkanna, á þeim alvarlegu tímum, sem nú eru. Þetta gleður mig þeim mun meir, sem það hefir orkað allmjög tvímælis hingað til, hve hollur hv. þm. V.-Sk. væri samvinnu flokkanna.