17.11.1939
Neðri deild: 62. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (3192)

114. mál, jarðræktarlög

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Það var auðheyrt á ræðu hv. 2.þm. Skagf., að hann langar í umr. um þetta mál, á vissan veg. Hann fór allgeyst úr hlaði, og fór inn á þau atriði, sem frekast eru til að vekja hvatskeytlegar umr. Ég hélt, að slíkt myndi ekki henda hann, því að ég bjóst við, að hann hefði fengið þann skóla hjá flokksbræðrum sínum í því að hafa hemil á sjálfum sér í sambúðinni við samstarfsflokkana, sem vinna eiga saman, að slíkar rokur sem þessar væru útilokaðar, en vel má það vera honum til afsökunar, að hann hefir jafnan með sósíalistum viljað ganga, og á því bágt með að stilla skap sitt, er aðrir flokkar eiga í hlut. — Mér skildist helzt, að hann óskaði þess, að málið dagaði uppi, komist bara til n. sem hann réði lögum og lofum í. Annars trúi ég ekki öðru en að eitthvað annað en fram kom í ræðu hv. þm. hafi legið á bak við orð hans, eitthvað, sem gerði hann svo úrillan, að hann fór að vera á móti sanngjörnu máli samstarfsflokks síns, þegar allir aðrir vinna „loyalt“ saman. Það, sem hann sérstaklega hafði sem ástæðu gegn frv. þessu, var það, að til væri nefnd, sem skipuð hefði verið með samþykki landbrh. til þess að endurskoða jarðræktarlögin. Að ég hafi sagt, að nefnd þessi hafi verið skipuð í fyrra, er fjarstæða; ég sagðist aðeins hafa heyrt það, að hún hefði verið skipuð á búnaðarþinginu í fyrra. En hvað sem þessu líður, þá tel ég það út af fyrir sig ekki geta hindrað framkomu mála hér á Alþingi, þó að einhverjir aðrir kunni að vera með þau. Annars hefði verið miklu hreinlegra hjá hv. þm. að tilkynna strax, að slíku máli sem þessu mætti ekki hreyfa hér á Alþingi. enda þótt slíkt nái að sjálfsögðu engri átt.

Þá gaf hv. þm. þær upplýsingar, að nefnd þessi ætlaði að byrja á störfum sínum í dag, og honum þótti undarlegt, að frv. skyldi einmitt koma fram sama daginn og n. byrjaði að vinna. Út af þessu vil ég spyrja hv. þm., hvort hann haldi, að frv. komi fyrst í dag fram í þinginu, og sé jafnframt tekið til umræðu. Mér virðist ekki fjarri lagi að minna hv. þm. á, að það var fyrir nokkru skipuð milliþinganefnd í bankamálum til þess að endurskoða bankalöggjöf landsins, en þá skeður það, einmitt á meðan nefndin sat á rökstólum, að þessi hv. þm. ásamt fleirum kemur fram með till. um að breyta launum bankastjóra Búnaðarbankans. hækka þau allverulega. Hv. þm. var þá bent á, að bankamálin í heild væru til athugunar í nefnd, en hann sinnti því engu, lagði bara þeim mun meiri áherzlu á að knýja frv. sitt fram, og beitti til þess öllum mögulegum brögðum. Hann brýndi meðal annars bændur deildarinnar á því, að þeir gætu vart verið þekktir fyrir að greiða bankastjóra sínum lægri laun en öðrum bankastjórum væru greidd. Þetta gerði hv. þm. þrátt fyrir það, þó að málið væri til athugunar í milliþinganefnd.

Hvað frv. mitt og okkar flm. snertir, þá á það sízt minni rétt á sér en frv. hv. 2. þm. Skagfirðinga um breyt. á lögum Búnaðarbankans átti á sínum tíma, og ég held einmitt, að framkoma þess hér á Alþingi ætti frekar en hitt að verða nefnd búnaðarþingsins aðvörun til þess að taka þau atriði, sem það fjallar um, til gaumgæfilegrar athugunar og afgreiðslu í samkomulagi við vilja samstarfsflokkanna hér á Alþingi; og það teldi ég eðlilegt, því að ég hefi haldið, að samvinna flokkanna væri frekar til þess að leysa ágreiningsmál þeirra heldur en til þess að níðast á þeim.

Þá sagði þessi hv. þm., að til væru önnur lög, sem alveg eins þyrfti að breyta eins og þeim, sem hér er farið fram á að breyta, eða lögin um byggingar- og landnámssjóð. En hér er allt öðru máli að gegna. Ákvæði 1 7. gr. jarðræktarlaganna snerta alla bændur á landinu, sem jarðir eiga, en hitt snertir aðeins þá fáu, sem byggja hús; þeir vita því að hverju þeir ganga og geta gengið að eða frá. Hitt hefir aftur orðið til þess, að sumir bændur hafa hætt við að láta mæla jarðabætur sínar, því að þeir telja sig eiga jarðabæturnar og vilja engar kvaðir binda jörðum sínum með þeim. Þeir vilja jafnvel taka lán til þess að framkvæma þær heldur en taka á móti styrknum, sem háður er þessu ákvæði.