17.11.1939
Neðri deild: 62. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (3194)

114. mál, jarðræktarlög

*Flm. (Gísli Sveinsson) :

Mér var það ánægja, að hv. 2. þm. Skagf. gerði nú í síðari ræðu sinni tilraun til þess að vera rólegri en hann var í hinni fyrri. Annars vil ég benda honum á, að það var algerlega að gefnu tilefni frá honum, að ég fór að tala um stjórnarsamvinnuna; hann fór nfl. sjálfur að tala um afstöðu mína til stjórnarsamvinnunnar. Þessa láðist honum að geta vegna óróleika síns og taugaæsings.

Þá vil ég benda honum á, enda þótt hann gæfist með öllu upp við að svara höfuðatriðum ræðu minnar, að þeir, sem byggja íbúðarhús úti á landi, fá ekki allir lán úr byggingar- og landnámssjóði; það eru nfl. margir, sem lán fá úr ræktunarsjóði. En hitt á hv. þm. að vita, að menn geta ekki fengið jarðræktarstyrk nema á þennan eina veg. Þeim er þess vegna nauðugur einn kostur, að snúa sér hina réttu leið, til þess samkvæmt jarðræktarlögunum að fá þennan styrk, og þá fylgir þessi kvöð. Þeir eru því annaðhvort kúgaðir út úr því að fá þessi verðlaun eða kúgaðir inn undir þetta.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekar orðum um þetta.