25.11.1939
Neðri deild: 68. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (3204)

115. mál, fræðsla barna

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Það er farið fram á það í þessu frv., að ríkið aðstoði með fjárframlögum, þegar svo er ástatt, að ekki er til húsnæði fyrir leikfimikennslu í sveitum, eins og á að vera samkvæmt fræðslulögunum, og greiði að nokkrum hluta kostnaðinn við húsnæði til leikfimikennslunnar. En eins og frv. er borið fram, þá er ætlazt til þess eins, að ríkissjóður leggi fram fé til þessa í sveitum. Þetta er væntanlega vegna þess, að hv. flm. er ekki kunnugt um, að víðar en í sveitum er svo ástatt, að leigja þarf húsnæði til leikfimikennslu barnaskólanna, og það er vegna þess, að ekki hefir verið talið mögulegt vegna kostnaðar að koma upp nægilegu húsnæði vegna leikfimikennslu barnaskólanna. Það er ekki ósanngjarnt, ef ríkissjóður tekur þátt í kostnaðinum við húsnæði fyrir leikfimikennsluna í sveitum. að hann á sama hátt geri það í kaupstöðum.

Ég efast ekki um, að utan Rvíkur þurfi að leigja húsnæði vegna leikfimikennslu. Það er svo, að með fræðslulögunum er kaupstöðum gert að skyldu að hafa fleiri tíma fyrir leikfimikennslu heldur en í sveitum. Af því stafar það, að húsnæðið er ekki nægilegt. Á meðan svo er ástatt, þá er sanngjarnt, að ríkissjóður taki þátt í þessum kostnaði að 1/3.

Brtt. sú, sem ég ber fram í sambandi við frv., fer fram á, að á meðan svo er ástatt, að húsnæði er tekið á leigu vegna leikfimikennslunnar, þá greiði ríkissjóður þetta framlag til húsnæðisins.

Ég vænti þess, að hv. dm. líti á þetta sem sanngirnismál.