25.11.1939
Neðri deild: 68. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (3206)

115. mál, fræðsla barna

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Er nú sanngjarnt að tala svona? Ástæðan til þess, að farið er fram á það, að ríkissjóður taki þátt í kostnaðinum, sem leiðir af að leigja húsnæði fyrir leikfimikennsluna í sveitum, er sú, að þrátt fyrir skyldu l. um að halda kennslunni uppi, þá hafa sveitarfélögin ekki séð sér fært vegna fjárhagsástæðna að koma upp húsnæði fyrir leikfimikennsluna, jafnvel þó svo sé, að 1/3 kostnaðar við byggingarnar sé greiddur úr ríkissjóði. En það gildir ekki um kaupstaðina. Þessi skylda er líka lögð á herðar kaupstaðanna, og hún er þar ríkari og meiri en krafan í sveitunum að því er snertir leikfimikennslu barna. En ástandið er alveg eins í kaupstöðunum og sveitunum, að þeir hafa ekki getað komið sér upp húsnæði fyrir leikfimikennsluna. Á meðan svo er ástatt er sanngjarnt, að ríkið taki þátt í kostnaðinum á sama hátt í sveitum og kaupstöðum.

Mér finnst það varla frambærileg ástæða, að þar sem kaupstaðirnir eigi engan rétt á aðstoð ríkisvaldsins til byggingar leikfimihúsa, þá megi ekki fallast á, að kaupstöðunum sé veitt aðstoð til leikfimihaldsins. Það er líka allra sízt frambærileg ástæða, að þar sem þessi kostnaður, sem ríkið leggur á Rvík sérstaklega, sé svona mikill, þá sé varla fært að taka þátt í honum að sama skapi og farið er fram á, að gert sé í sveitum, þar sem það kostar svo sáralítið. Hvortveggja kostnaðurinn kemur af því, að ríkið mælir svo fyrir, að það sé skylt að kenna leikfimi, og það meir í kaupstöðum en sveitum. Ég vil segja, að með því að kostnaðurinn er svona mikill, sem lagður er á kaupstaðina, þar sem kostnaðurinn í Rvík nemur tugum þús., þá geti varla komið til mála annað en að ríkið taki þátt í þessum kostnaði.

Ég er nú ekki kunnugur því, hvernig þetta er í kaupstöðum utan Rvíkur, þó mér þyki líklegt, ef í þeim kaupstöðum er farið eftir fyrirmælum fræðslul., þá hljóti það að vera svo, að kaupstaðirnir hafi einhvern kostnað af leigu húsnæðis vegna leikfimikennslunnar.

Ég sé ekki, að það komi til mála að leggja það sjónarmið til grundvallar, sem hv. frsm. vildi leggja áherzlu á, að þar sem kostnaðurinn væri svo mikill í Rvík, þá væri varla fært fyrir ríkissjóðinn að taka þátt í honum. Ég vil segja, að af því þessi kvöð er svona rík í kaupstöðunum, þá sé rík ástæða fyrir ríkið að taka þátt í henni. Auk kostnaðarins, sem við höfum við það að leigja húsnæði fyrir leikfimikennsluna, þá verðum við að aka börnunum, sem búa í úthverfum bæjarins, til leikfimikennslunnar og kosta verulegu fé til þess.

Ég vænti þess að öllu þessu athuguðu, að hv. d. fallist á að láta styrkinn ná til allra skólahéraða í landinu, sem svona stendur á um.