22.11.1939
Neðri deild: 65. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (3216)

117. mál, jarðræktarlög

*Flm. (Eiríkur Einarsson):

Ég skal ekki fjölyrða til andsvara við ræðu hv. 2. þm. Skagf., enda talaði hann hófsamlega og vinsamlega um það málefni, sem hér er fyrir hendi.

Ég gekk þess ekki dulinn, að bráðlega myndu koma fram athugasemdir um það, að frv. væri erfitt í framkvæmd, og segja má, að flestum flm. finnist hægast að vísa erfiðleikunum til annara.

Í frv. er ákveðið, að ráðh. skuli fyrir 20. febr. ár hvert ákveða, hvort heimildin skuli notuð það ár eða ekki. Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að það myndi reynast erfitt í framkvæmd og þyrfti að ákveðast fyrr á árinu, og er það auðvitað ekki nema lítil breyting að breyta því tímatakmarki.

Hv. síðasti ræðumaður nam sérstaklega staðar við 2 orð í frvgr., þar sem segir, að fénu skuli varið til styrktar kaupum á áburði, sem bændum er „brýn þörf“ á. Ég veit, að þessi orð eru óákveðin, en ég gerði þetta vísvitandi, þar sem þetta frv. er í rauninni aðeins bending um, hve brýn þörfin er, en hitt er þeim ætlað að ákveða, sem nánar eiga að fara með málin og setja um þau reglugerð. Ég tel ekki fjarri lagi, að til þess að þessi styrkveiting verði ekki af handahófi, þá verði leitað upplýsinga hjá hinum einstöku búnaðarfélögum, sem hvert um sig hafa yfirlit yfir búskap og framkvæmdir í sinni sveit. Ég vil og benda á, að slíkar skýrslugerðir gætu veitt upplýsingar um, hve mikið er af ræktuðu landi á hverju býli, hve mikill töðufengur og búpeningur mikill. Getur slíkt getið miklar leiðbeiningar, svo ekki verði rennt blint í sjóinn um þetta. Ég skal viðurkenna, að þetta er erfitt að ákveða svo, að hvergi skeiki.

Hv. síðasti ræðumaður minntist á það, að hann vildi hvetja menn til að auka framræslustarfsemina og gera það að aðaljarðræktarframkvæmdum næstu ára. Það er rétt, að mikið af nýrækt síðustu ára er unnið úr mýrlendi og þar er framræslan mjög nauðsynleg, og tel ég fyllilega réttmætt, að bændur séu hvattir til að auka framræsluna. En það er annað mál. Það stefnir að framtíðartakmarki, en það bætir ekki úr þeirri aðkallandi þörf, sem er fyrir útlendan áburð.

Ég vil endurtaka, að það gladdi mig, hve ræða hv. þm. var hófsamleg og vinsamleg, þar sem hann á sæfi í þeirri n., sem málið á að fara til, og ég vona, að þótt hv. nm. sjái sér ekki fært að samþ. þetta frv., þá geti þeir fallizt á eitthvað annað, sem stefnir í sömu átt, en það má ekki dragast lengur, að gerðar verði einhverjar ráðstafanir í þessu sambandi.