24.11.1939
Neðri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (3223)

119. mál, eftirlit með sveitarfélögum

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Hv. 1. flm. málsins gat þess, er það var hér fyrst til 1. umr., að málið væri flutt að minni tilhlutun og ég myndi fylgja því úr hlaði með nokkrum orðum. — Eins og hv. dm. er kunnugt, hefir fjárkreppa sú, sem að undanförnu hefir gengið yfir landið, mjög þjakað bæjar- og sveitarfélögin. Atvinnuleysi hefir steðjað að, einkum í kaupstöðunum, framfærsluþunginn aukizt og önnur útgjöld. Hefir af því leitt, að mörg bæjar- og sveitarfélög hafa lent í miklum vandræðum, og sum hafa sokkið svo djúpt, að þau hafa orðið að leita styrks hjá ríkissjóði til þess að geta haldið lífinu í íbúunum. Hinsvegar hefir það komið í ljós, að samtímis því, að ríkið hefir þurft að hafa mikil afskipti af bæjar- og sveitarfélögunum, hafa verið til aðeins mjög ófullkomin lagaákvæði um það, hvaða valdi ríkið megi beita og hversu langt það megi ganga í því að rétta hag þeirra. Að vísu hafa nokkrum sinnum verið sett lagaákvæði um þetta á undanförnum árum, en þau eru engan veginn fullnægjandi. Á þinginu 1933 voru sett l. um ráðstafanir út af fjárþröng bæjarfélaga, og var þá komin í ljós sú mikla kreppa, sem síðar ágerðist. Þessi löggjöf var allófullkomin og veitti ríkinu lítið svigrúm til athafna. Svo var á þinginu 1935 sett löggjöf um kreppulánasjóð bæjar- og sveitarfélaga. Þá var svo komið, að sum bæjarfélög voru að gefast upp út af fjárhagsvandræðunum. Þessi l. voru til mikils gagns fyrir marga hreppa, sem fengu eftirgjöf skulda sinna, en sú eftirgjöf náði ekki til bæjarfélaganna. Árið 1937 voru svo sett l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga og eftirlit með þeim og hag þeirra. Var þeim l. breytt nokkuð í upphafi þessa þings, sem nú stendur. Samt hefir það komið í ljós að mínu áliti og þeirra, er um þessi mál hafa fjallað, að þessi l. hafa ekki veitt ríkinu nægar heimildir í þessu efni. Samkv. þessum síðastnefndu l. var skipaður eftirlitsmaður með bæjar- og sveitarfélögum. Eftir að hann hafði rætt þessi mál við ráðuneytið, varð samkomulag um, að nauðsynlegt væri að setja ýtarlegri 1. um þessi efni. Þar sem bæði eftirlitsmanninum og ráðuneytinu var kunnugt um, að svipuð vandræði hefðu átt sér stað í Noregi og að sett hafði verið þar í landi ærið fullkomin löggjöf um slík mál, sem reynd hafði verið um skeið með góðum árangri, var ákveðið, að eftirlitsmaðurinn skyldi fara til Noregs til að kynna sér þessi mál. Eftir að hafa gert það og rætt á ný við félagsmálaráðuneytið, varð sú niðurstaðan, að hann skyldi vinna að samningu lagafrv., þar sem fram væru sett þau nýmæli, er ástæða þætti til að taka upp. Árangurinn af því starfi er þetta frv. Vil ég nú víkja nokkrum orðum að hverjum kafla þess um sig.

I. kafli frv. er aðeins ein gr., og er hún skilgreining á hugtakinu sveitarfélag, til hagræðis fyrir löggjöfina.

En II. kafli þessa frv. ræðir um verksvið eftirlitsmanns sveitar- og bæjarfélaga og svarar að miklu leyti til 3. kafla l. um sama efni frá 193 7. Að vísu er þessi kafli nokkru fyllri hér en í 1. frá 1937, en það virtist ástæða til þess að nokkru fyllri ákvæði yrðu sett um það mál en áður var. Ég þarf ekki að skýra þennan kafla frekar, þar sem höfuðatriði hans voru áður í gildandi l.

III. kafli fjallar um það, hvernig fara skuli að, ef sveitar- eða bæjarfélög lenda í fjárþröng, án þess að nauðsynlegt sé talið, að sveitar- eða bæjarfélagið verði sett undir opinbera stjórn eða eftirlit. Upp í þann kafla eru tekin mörg ákvæði l. um sama efni frá 1933, en þó líka nokkur nýmæli til viðbótar, sem álitið var, að þar ættu frekast heima að því leyti, að þessi kafli fjallar um fjárþröng sveitarfélaga. Ég skal aðeins drepa á það, að af greinum þessa kafla er það 24. gr., sem ég vil vekja sérstaka athygli á, því að ég tel hana næsta nauðsynlega. 21. gr. þessa frv. er um það, að ráðh. sé heimilt að ákveða, að verja megi úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga árlega, meðan þess er þörf, allt að 100 þús. kr. til þess að greiða fyrir skuldaskilum illa stæðra sveitarfélaga. Ennfremur segir svo: „Getur ráðh. ákveðið, að nokkurn hluta þeirrar fjárhæðar, sem þarf, megi veita sem styrk til sveitarfélagsins, er eigi sé endurkræfur, en nokkurn hlutann sem lán, er sveitarfélaginu beri að greiða ásamt vöxtum á tilteknum tíma“.

Nú er málum svo háttað, samkv. skýrslu félagsmálaráðun., að sum sveitar- og bæjarfélög hér á landi eru algerlega ómegnug þess að standa straum af skuldbindingum sínum, og jafnvel sumar sýslur líka. Ein sýsla landsins er svo illa komin, að verið er að ganga að eigum hennar fyrir lán, er hvíla á sýslunni, og sýslan sér þess engan kost að standa undir þessum lánum, ef greiða skal áfallna vexti og afborganir. Er þar að vísu ekki um stóra upphæð að ræða, en þó svo háa, að útlit er fyrir, að þessi sýsla muni ekki lengur geta risið undir því. Auk þess eru nokkur bæjar- og sveitarfélög svo illa stæð, að þau virðast alls ekki geta staðið straum af veðdeildarlánum, sem hvíla á eignum þeirra, og ekki heldur af kreppusjóðslánum, er þessi sveitarfélög hafa tekið. Ég ætla að nefna eitt sveitarfélag sem dæmi, sem ég vil þó ekki nafngreina. Það tók allstórt lán úr kreppulánasjóði, og nú telur það sig með engu móti geta staðið undir vöxtum og afborgunum af því á yfirstandandi ári, en það hefir fært skilríki fyrir því, að á næstu árum muni það geta staðið undir öllum sínum skuldbindingum, þar á meðal láninu úr kreppulánasjóði, en til þess að bæta úr yfirstandandi vandræðum, telur það sig muni þurfa 10–20 þús. kr., og með því móti myndi það geta bjargað sér sjálft fjárhagslega án aðstoðar annarstaðar að. Ég nefndi þetta eina dæmi til þess að sýna, hvernig háttað muni vera um fjárhag sveitarfélaga; ástæður margra þeirra eru þannig, að tiltölulega smávægileg hjálp gæti bjargað þeim yfir örðugleikana. Þess vegna er lagt til í 24. gr. þessa frv., að allt að 100 þús. kr. af fé jöfnunarsjóðs megi verja til að greiða fyrir skuldaskilum illa stæðra sveitarfélaga. Ég þori að fullyrða, að með þessu móti megi fleyta sumum sýslum og bæjarfélögum yfir verstu erfiðleikana, og það bæði algerlega og fljótt, ef ríkisstjórnin hefði slíka heimild í höndum.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að ef svo færi, að þetta frv. næði ekki fram að ganga á þessu þingi vegna þess, hve nú er orðið áliðið þingtímans, að hæstv. Nd. tæki til athugunar, hvort ekki væri rétt að lögfesta einhver ákvæði þessa frv. í sambandi við frv. um breyt. á framfærslul., sérstaklega þá heimild, sem um ræðir í 24. gr.

Í 25. gr. þessa frv. eru nokkur nýmæli. Ríkisstj. er heimilað að ákveða, ef sveitarfélag, sem ríkissjóður hefir tekizt á hendur ábyrgð fyrir, leitar aðstoðar samkv. þessum l.:

1. Að vextir og afborganir, sem ríkissjóður hefir lagt út vegna sveitarfélagsins, skuli gefið eftir að einhverju eða öllu leyti.

2. Að veita sveitarfélögum undanþágu frá greiðslum vaxta og afborgana, annarshvors eða hvorstveggja, tiltekinn tíma, af lánum, sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir.

3. Að taka að sér svo mikið af láni sveitarfélags, sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir, sem nauðsyn krefur til þess að sveitarfélagið komist á fjárhagslega tryggan grundvöll.

Þessar gr. og nokkrar fleiri eru miðaðar við það, að sveitarfélag hafi lent í slíkum vandræðum, að ríkið hafi beinlínis orðið að hlaupa undir bagga og leggja fram peninga. Einstök sveitarfélög hafa á undanförnum árum leitað til ríkisvaldsins, og hefir það ekki séð sér fært að skorast undan því, til þess að afstýra því, að enn meiri verðmæti færu forgörðum en orðið var, en svo myndi hafa orðið, ef gengið hefði verið að sveitarfélögunum, þegar þau gátu ekki staðið undir skuldbindingum, sem á þeim hvíldu. Reikningar ríkisins bera með sér, að það eru allstórar upphæðir, sem ríkissjóður hefir orðið að greiða fyrir sveitarfélögin vegna fjárhagsvandræða þeirra. Ég geri ráð fyrir, að svo verði yfirleitt áfram, a. m. k. eru ekki líkur til, að hagur sveitarfélaga batni almennt eins og nú standa sakir. Það virðist því rétt og eðlilegt, að skýr heimild fengist fyrir því í l., að ríkið hlaupi undir bagga með illa stæðum sveitarfélögum, og má vænta þess, að hvaða ríkisstj., sem færi með völd, myndi nota þá heimild, nema hún teldi þess enga þörf að leysa á þann hátt vandræði ákveðinna sveitarfélaga.

24. og 25. gr. í III. kafla þessa frv. voru þær greinar, sem ég vildi sérstaklega benda á. Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um þann kafla. Aðalatriði þess kafla er að lögbinda það, hvernig að skuli farið, ef sveitarfélag lendir í fjárþröng án þess nauðsynlegt sé talið, að það verði sett undir opinbert eftirlit.

IV. kafli þessa frv. fjallar um, að setja megi sveitarfélag undir eftirlit, ef það vanrækir fjárhagslegar skuldbindingar sínar, eða ef þess af öðrum sökum þykir þurfa vegna fjárhags sveitarfélagsins eða vegna hagsmuna þeirra, er kröfur eiga á hendur því. Hér er um algert nýmæli að ræða, sem ekki hefir þekkzt áður í íslenzkri löggjöf. Eins og fylgiskjölin bera með sér, er þetta frv. að miklu leyti sniðið eftir norskri löggjöf um sama efni, en þó hnikað til eftir mismunandi ástandi á Íslandi og í Noregi hvað þetta snertir. Reynslan af þessari löggjöf í Noregi hefir orðið sú, að mörg sveitarfélög hafa með þessu móti komizt yfir örðugleikana, og það hefir reynzt kleift að koma þeim fjárhagslega á réttan kjöl, svo að þau gætu séð fyrir sér sjálf án aðstoðar ríkisvaldsins. Ég þori ekki að segja um, hvernig reynslan af þessari löggjöf yrði hér á Íslandi ég býst við, að það færi mikið eftir því, hvernig hún yrði framkvæmd, því að löggjöfin sjálf er ekki hér frekar en annarstaðar höfuðatriðið. Höfuðatriðið er, að sú heimild, sem til er í l., verði notuð skynsamlega, til þess að hún nái tilgangi sínum. En ég álít, að það væri miklu réttara, bæði vegna ríkisvaldsins sjálfs og líka vegna þeirra sveitarfélaga, sem lenda í fjárhagsvandræðum, að þessi löggjöf væri til, því að samkv. þessu frv. er beinlínis hægt að setja sveitarfélög undir eftirlit og gera ráðstafanir til að ráða fram úr vandræðamálum þeirra.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í einstakar gr. þessa frv. fyrir sig, því að ákvæði frv. liggja skýrt fyrir, en ég vil aðeins leyfa mér að benda að lokum á V.-kafla frv., sem hefir að geyma ýms ákvæði, og sérstaklega á 50. gr. frv., sem er fyrsta gr. í þeim kafla. Hún fjallar um það, að ráðh. sé heimilt að leyfa kaupstað eða kauptúni, sem er undir eftirliti, eða fengið hefir skuldaskil samkv. ákvæðum II. kafla l. þessara og á við mikla fjárhagsörðugleika að stríða, að leggja vörugjald á vörur þær, sem fluttar eru til og frá kaupstaðnum eða kauptúninu. Eins og kunnugt er, hefir a. m. k. eitt bæjarfélag hér á landi um eitt skeið fengið heimild samkv. sérstökum l. til að leggja slíkt gjald á vörur. Mikið hefir verið rætt um það á undanförnum árum, og mörg fleiri bæjarfélög hafa farið fram á að fá slíka heimild. Víst er um það, að þetta hefir sætt allmiklum og að mínu viti talsvert rökstuddum andmælum hér á Alþ., þar sem hér er um fjáröflunaraðferð að ræða, sem er í sjálfu sér ekki ýkja réttlát. Ég vil nú segja það, að ég verð að vera því fylgjandi; eins og oft verður, þegar ekki er völ á góðum úrræðum, verður stundum að grípa til þeirra, sem eru miður skemmtileg. Ég tel, að það gæti verið nauðsynlegt fyrir ríkisstj. að hafa slíka heimild. því að með því móti væri unnt að bæta úr vandræðum einstakra bæjarfélaga, sem þau hafa komizt í vegna misæris undanfarinna ára, enda er eigi ætlazt til, að slíkt leyfi gildi nema í hæsta lagi 4 ár, en að jafnaði skemur, og fer það að sjálfsögðu eftir mati ríkisstj. á hverjum tíma, og verður að treysta því, að hún notfæri sér ekki slíka heimild án þess að full ástæða sé til. Þetta er höfuðatriði V. kafla þessa frv.. en auk þess eru þar nokkur önnur ákvæði, sem ég hirði ekki um að rekja.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara nákvæmlegar út í efni þessa frv., en ég vil brýna það fyrir hv. Nd. að taka tillit til þess, að það myndi áreiðanlega verða hægara fyrir hvaða ríkisstj. sem er að hafa eftirlit með og gera ráðstafanir til að bæta úr fjárhagsvandræðum sumra sveitarfélaga, ef til væri fullkomin löggjöf, er heimilaði ríkisstj. að gera ráðstafanir, sem gætu komið að fullu gagni; og sem betur fer er það svo, að ef eitthvað batnar í ári, myndi það fljótt segja til sín hjá þeim sveitarfélögum, sem hafa byggt afkomu sína svo að segja eingöngu á sjávarútgerð. Aflatregða hefir verið sumstaðar hér við land síðari ár, samfara markaðserfiðleikum og lágu verði á sjávarafurðum, og allt þetta hefir orðið til þess, að sum bæjarfélög hafa lent í verulegum vandræðum, og jafnvel komizt í öngþveiti hvað fjármál snertir. En ef eitthvað rætist úr með útgerðina, mun hagur þeirra batna, enda er svo háttað í sumum þeirra, að bæði bæjarfélögin sjálf og einstakir menn hafa sýnt viðleitni til að útvega bæði skipastól og önnur tæki, sem verður hægt að nota, þegar svo fer, sem vonandi getur orðið fljótlega, að eitthvað rætist úr, bæði hvað snertir fiskaflann og einnig sölu á honum. En þó að við getum vonazt eftir betra árferði, og að þá myndi hagur ýmsra bæjarfélaga batna, verðum við samt að horfast í augu við þá staðreynd, að eins og sakir standa nú, eru sum þeirra næstum á heljarþröminni, og munu beinlínis komast í öngþveiti, ef ekkert er að gert. Þess vegna verður að gera einhverjar ráðstafanir, svo að allt reki ekki á reiðanum og ríkið láti skeika að sköpuðu, þótt skuldir og vandræði bæjarfélaganna fari vaxandi, þar til gengið er að þeim. Það veltur mikið á því, að ríkisvaldið geri nógu fljótt ráðstafanir til þess, að allt fari ekki í þrot hjá þeim bæjarfélögum, sem hafa um langt skeið barizt, sum ágætri og þrautseigri baráttu, til þess að halda uppi hag sveitarfélagsins.

Ég vil að endingu brýna það fyrir hv. Nd. að taka til alvarlegrar íhugunar, hvort ekki sé unnt, þótt langt sé liðið á þetta þing, að láta þetta frv. ná fram að ganga í þeirri mynd, sem það nú er. Það myndi koma að miklu gagni fyrir sveitar- og bæjarfélögin og ríkið í heild sinni.