24.11.1939
Neðri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (3225)

119. mál, eftirlit með sveitarfélögum

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Hv. 4. landsk. gerði nokkrar aths. við þetta frv. og fyrirspurnir viðvíkjandi einstökum gr. þess, og tel ég sjálfsagt að svara þeim og gera nokkru nánari grein fyrir málinu.

Fyrsta aths., sem hann gerði, er við 2. gr. þessa frv.: „Félagsmálaráðh. hefir yfirstjórn allra sveitarmálefna í landinu.“ Hér er ekki um neitt nýmæli að ræða, því að hingað til hefir það venjulega verið atvmrh., sem hefir haft á hendi yfirstjórn allra sveitarmálefna, að svo miklu leyti sem landslög ákváðu. Hér er það aðeins lögbundið, sem áður hefir verið venja, að atvmrh. færi með þessi mál, og félagsmálaráðh. síðan hann tók við. Það er hreinn misskilningur hjá hv. 4. landsk., að hér sé um nýtt valdboð að ræða. Upphaf þessarar gr. staðfestir aðeins þá reglu, sem áður hefir gilt um yfirstjórn sveitarmálefna.

Þá gerði hv. 4. landsk. fyrirspurn út af 31. gr. þessa frv., og taldi hann, að þar væri næsta ónákvæmt orðalag, og ekki vel ljóst, hvenær setja mætti bæjarfélag undir eftirlit. En ef hv. 4. landsk. hefði lesið næstu gr. þessa frv., þá hefði hann séð þær reglur, er um þetta eiga að gilda.

Það er dálítið óvarlegt, ef menn vilja fá rétta hugmynd um eitthvert mál, að lesa aðeins einhvern hluta þess, sem er slitinn út úr réttu samhengi, og gæta ekki frekar að, og þannig er það hér, ef numið væri staðar við 31. gr. — Þá spurði hv. 4. landsk. einnig um, eftir hvaða fyrirmynd hefði verið farið, þegar sett voru ákvæðin um stjórn þeirra bæjarfélaga, er sett væru undir eftirlit. Hann kvað þá fyrirmynd ekki finnast í norskum l. Það er að vísu rétt, að þegar þetta frv. var samið, var höfð hliðsjón af norskum l., en þó miðað við íslenzka staðhætti. Það var ekki rétt að taka allt viðvíkjandi þessu frá Norðmönnum hrátt og ómelt, og fjarstæða að ætla, að sá, sem samið hefir þetta frv., hafi endilega þurft að sækja fyrirmyndir til Noregs eða annara landa fyrir hverju einasta ákvæði. Það er mesti misskilningur að ætla, að hann hafi verið svo hugmyndasnauður, að hann gæti ekki komið með neina hugmynd, er ekki væri í löggjöf annara landa. Eins og ég minntist áðan á, hefir ákvæðum þessa frv. víða verið hnikað frá norskri löggjöf, þar sem annað þótti betur eiga við staðhætti hér á landi, og hvað þetta ákvæði 34. gr. snertir, kemur það til af því, að eins og kunnugt er hefir hér á landi verið skipaður sérstakur eftirlitsmaður sveitar- og bæjarfélaga. Maðurinn var skipaður í það starf alveg eins og gerist, þegar nýtt starf er veitt, og gert ráð fyrir, að hann fái einn eða fleiri sér til aðstoðar, ef á þarf að halda. Nú er það svo, að frv. gerir ráð fyrir, að hann fari einn með eftirlitið á einn eða annan hátt, þegar fært þykir.

En ég skal ekki segja um það, hvort heppilegt yrði að fara að dæmi Norðmanna um það, að slíkir eftirlitsmenn væru valdir annar af kröfuhöfum og hinn af hlutaðeigandi bæjarfélagi. Mér þætti ekki undarlegt, þótt brtt. kæmu fram við sum atriði þessa frv. Það er smekkatriði, hvort eðlilegra og réttlátara sé, að ríkisstj. skipi alla eftirlitsmennina, eða annar þeirra sé tilnefndur af kröfuaðilum, og hinn af hlutaðeigandi bæjarfélagi. Þegar hv. 4. landsk. gat ekki fundið fyrirmyndina að ákvæðum 34. gr. í norskum l., hélt hann, að fyrirmyndin væri sóti til fasistalandanna. Er um lítinn mun að ræða, hvort fyrirmyndir eru sóttar í kommúnista- eða fasistaríki, og mun hv. þm. hafa leitað fyrirmyndar úr annari slíkri átt.

Um 50. gr. þarf ekki að fjölyrða frekar. Ég er persónulega ekki hlynntur vörugjöldum, álít, að þau komi til greina sem neyðarúrræði, eftir að búið er að þrautreyna leiðir beinu skattanna og þær ekki nægt fyrir útgjöldum bæjar- og sveitarfélaganna.

Hv. 4. landsk. þm. sagði, að ef frv. næði fram að ganga, væri ekkert eftir af sjálfsforræði sveitarfélaganna. En þau skerða að engu leyti fjárráð bæjar- og sveitarfélaga, sem geta staðið án þess að leita á náðir þess opinbera, en geta eftir sem áður stjórnað sínum málum. En leiti bæjar- eða sveitarfélög aðstoðar ríkisins, er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að ríkið hafi nokkra íhlutun um stjórn þeirra félaga, sem gefizt hafa upp, þegar þau áttu ekki annars úrkosta og höfðu gert allt til þess að borga af eigin rammleik. Það er víst, að það er þörf á eftirliti, og því ekki óverulegu. Þau sveitarfélög, sem leitað hafa á náðir ríkisins á undanförnum árum, hefðu þurft meira eftirlit. Margt er í stjórn þessara félaga, sem betur mætti fara og ríkið gæti fært á annan veg. Það er fjarstæða, sem hv. þm. hélt fram, að með þessu frv. sé yfirleitt verið að skerða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna; það er aðeins gert í þeim tilfellum, þegar þau hafa gefizt upp og leitað á opinberar náðir. Samkv. reglu, sem hlýtur að gilda þegar menn leita hjálpar til annara, verður sá, sem hjálpina veitir, að hafa einhverja tryggingu fyrir því, að hjálpin sé notuð á réttan hátt.