09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (3235)

125. mál, rafveitulánasjóður

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Fjárhagsnefnd hefir haft þetta frumvarp um rafveitulánasjóð til athugunar, og hefir nefndin orðið sammála um að mæla með samþykkt frumv. Hinsvegar hafa tveir nm., hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. V.-Ísf., áskilið sér rétt til þess að bera fram brtt. Það var shlj. álit n., að frv. stefndi í rétta átt og að það stefndi til þess að unnt yrði með tímanum að koma rafmagninu út um landið, en eins og nú er, er ómögulegt, nema þar sem þéttbýli er mest, að koma upp rafstöðvum. Raforkan er svo merkileg, að það er alltaf meira og meira, sem hún grípur inn í athafnalíf manna. Ef svo fer, að sú sveit verði talin óbyggileg, sem ekki getur náð til raforku, er ekki nema eðlilegt, að leitað verði einhverra úrræða til þess að byggja fyrir framtíðina í þessu efni.

Hjá n. komu ekki fram neinar brtt., og þar sem hv. nm., sem skrifuðu undir nál. með fyrirvara, hafa ekki komið með neina brtt., liggja engar slíkar fyrir.