09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (3236)

125. mál, rafveitulánasjóður

*Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Mér finnst full ástæða til á þessu stigi málsins að segja nokkur orð í sambandi við ákvæði þessa frv. Ég átti von á því eftir að ég sá nál. fjhn., að það mundi koma fram brtt., en það hefir ekki orðið. Vil ég því segja örfá orð um mína afstöðu í málinu, sérstaklega um það, hvernig skuli afla þessum sjóði tekna. Áætlunin er, að árlegt gjald skuli vera 3%, og er þetta ákvæði hörð og ósanngjörn krafa til þeirra bæjarfélaga, sem hafa lagt í þau stórræði að byggja á síðustu árum stórar rafstöðvar. Það er vitanlegt og hefir ekki verið vefengt, að hinar stóru rafstöðvar bæjanna eru ekki aðeins komnar upp vegna þarfa bæjarmanna sjálfra, heldur einnig fyrir þarfir sveitanna í kring, og það hefir ekki heldur verið vefengt, að það leiðir af sér bæði beinan og óbeinan hagnað fyrir strjálbýlið. Út frá þessum aflstöðvum hugsa menn sér, að lagðar verði taugar út í dreifbýlið, og flm. frv. hugsa sér að stofna sjóð í þessu skyni, þótt líka sé vitanlega gert ráð fyrir að styrkja smærri stöðvar. Ég játa, að ekki verður hjá því komizt í náinni framtið að gefa sveitunum kost á að komast í samband við hinar stærri rafmagnsstöðvar. Mér hefir alltaf dottið í hug, að leyfilegt hlyti að vera að bera saman símakerfi landsins og væntanleg rafveitukerfi. Í l. er ákveðið, að taugar frá aðallínunum út um sveitirnar séu styrktar að 2/5 hlutum, að ég held. Þetta hélt ég annars, að lægi næst að taka á fjárl. sem beint framlag, og ég geri ráð fyrir, að með frv. sé stefnt í svipaða átt, en ég tel, að þessi tekjuöflun samkv. stafl. 2 komi þó harðar niður á þeim bæjarfélögum, sem ekki hafa getað reist rafveitur nema fá lán. Þar sem hér er um ábyrgð að ræða, telja að vísu margir, að rétt sé að skattleggja á þennan hátt. En þegar athugað er, hversu sum bæjarfélög hafa brotizt í þessar framkvæmdir, getur það ekki talizt maklegt að leggja á þau slíkan skatt. Til dæmis reyndist um rafveitu Akureyrar, sem nú er nýlega lokið, að hún varð talsvert dýrari en áætlað hafði verið, efni hafði hækkað í verði og svo framvegis. Svo kom verðfelling krónunnar, sem orsakaði nýja hækkun. Og ég hygg, að á rafveitunni stóru í Reykjavík hafi orðið allverulegur halli vegna gengislækkunarinnar, og svo er um allar skuldir, sem bæjarfélögin standa undir vegna rafveitubygginga. Það má reyndar segja, að bæjarfélögin geti náð þessu aftur með því að hækka rafmagnsverðið, en þá er eins og komið sé við hjarta íbúanna, enda væri óheppilegt að fara að raska taxtanum fyrir ekki stærra brot en hér er um að ræða. Fyrir 10–12 þús. kr., sem Akureyrarbær fengi þarna í skattauka, yrði hann að líkindum að borga nær álíka upphæð aftur á einhvern hátt. Bæjarfélaginu myndi áreiðanlega veitast erfitt að standa undir þessum byrðum, án þess að leggja á íbúana nýjar byrðar, því að hér er ekki um annað að ræða en leggja skatt á skuldirnar.