14.12.1939
Neðri deild: 83. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (3243)

125. mál, rafveitulánasjóður

*Pétur Halldórsson:

Í þessu kapítalfátæka landi er ekki að furða, þó að menn séu gjarnir að reyna að finna kapítal, sem öllum er ljóst, að mikill skortur er á og mikil þörf er á, og þessu kapítali er svo háttað nú á vorum tímum, að það er talið ofvaxið nokkrum manni að eignast eitthvað, og ef menn eignast eitthvað, þá er það gjarnan með skattsvikum, því að eins og skattalögin eru nú, þá er það allt tekið af þeim.

Hér er nú eitt sýnishorn af þessum heilabrotum, þar sem skattlagðar eru sjálfar skuldirnar til þess að stofna með þeim banka. Þetta skyldi maður halda, að væri merkilegt snjallræði, ef hægt er að snúa skuldunum upp í það mótsetta, en það er vafalaust ýmislegt við það að athuga. Hv. flm. hefir komið auga á, að þéttbýlinu hér á landi hefir tekizt með allskonar l. að koma upp m. a. rafveitum. Þarf ekki að lýsa því, að skilyrðið til, að slíkar stofnanir geti risið upp, er, að svo sé háttað, að þörf sé á kraftinum og þá um leið að hægt sé að gera kraftinn hagnýtan, svo að þetta geti gefið arð. Og skilyrðið til þess, að svona stofnanir geti gefið arð, er vitanlega fyrst og fremst, að til viðbótar við kraftinn sé líka annar kraftur, sem þarf til þess að samstarfs sé að vænta, sem sé fólkið, og þá helzt fjölmenni. Nú kemur hv. flm. auga á, að þetta eru svo mikilsverð þægindi, að æskilegt er að koma því svo fyrir, að allir, hvar sem þeir eru, geti notið slíkra þæginda, þó að þeir hafi engin skilyrði til að geta borið þau uppi, og vill nú í því skyni gera það að skyldu þeirra að deila þessum þægindum við aðra og á þennan hátt leggja fram með skatti á þessi fyrirtæki fé til þess að dreifa þessum krafti víðar heldur en „ökonomiskt“ er, svo að svari kostnaði.

Á það hefir verið bent áður, að svona einfalt er þetta ekki. Það ber að taka tillit til þess líka, að þar, sem þessi fyrirtæki eru sett upp, eins og í Reykjavík og öðrum stórum kaupstöðum landsins, er það svo, að þótt fengið hafi verið lán til fyrstu stofnunar, þá eiga þessi fyrirtæki, ekki eingöngu á byrjunarárunum, heldur og miklu lengur, í hinum mestu fjárhagsörðugleikum. Má gera grein fyrir, hvernig á því stendur, jafnvel í stuttu máli. Er þá fyrst og fremst að taka það fram, að ekki er hægt að selja afurðir þessa fyrirtækis við svo háu verði sem eigandi eða umráðamaður kynni að óska. Aftur á móti virðast varla vera takmörk fyrir því, eins og t. d. hjá rafmagnsstöð Reykjavíkur og Sogsvirkjuninni, hversu mikla fjárhagslega þörf þau hafa. Svo er það í Reykjavík a. m. k., að það ber mest á fjárþörf og fjárhagserfiðleikum þessa fyrirtækis á byrjunarárunum. Það er þá líka svo, að þar, sem rafstöðvar hafa verið reistar úti á landi, er það kunnugt, að þessi fyrirtæki eiga við talsverða og jafnvel verulega stórkostlega fjárhagsörðugleika að etja eins og er. Og svo kemur það undarlega, að það er ekki eins og þessir fjárhagsörðugleikar leysist fljótlega. Það er jafnan svo, að þegar virkjun er svo fjárhagslega stödd, að hún ber sig sjálf og gæti lagt eitthvað af mörkum, þá verður að fara að auka virkjunina, svo að þá byrja sömu örðugleikar á ný. Það er því langt frá, að þessi fyrirtæki geti verið skattstofn til viðbótar við þeirra eigin þörf. Þau eiga miklu fremur við verulega erfiðleika að stríða. Þar að auki má benda á, að þarflaust er að fara þessa leið, sem hér á að leggja út á, vegna þess að alltaf er hægt að fá lán til að leggja taugar út frá þeim miðstöðvum, sem bera sig, og það á að gera það með lánsfé, en ekki skatti. Þannig sýnist mér grundvöllurinn undir þessu frv. í raun og veru. Hann er misskilningur á eðli þessa máls.

Þá er talað um, að eðlilegt sé að leggja þennan skatt á, vegna þess að þessar stofnanir hafi fengið ríkisábyrgð og ríkið eigi því rétt á að fá skatt af þessum fyrirtækjum. Gegn þessu má spyrja: Er það gagnslaust fyrir ríkið sjálft, að þessar stofnanir hafa verið reistar? Hefir ríkið ekkert fengið á móti þeirri hjálp, sem það hefir veitt til að koma slíkum stofnunum upp? Því má óhikað svara játandi. Það er alveg rétt, að bæjar- og sveitarfélög hafa hag af því, að raforkuveitum er komið upp, en það er vitanlegt, að ríkið hefir einnig hag af því. Ríkið hefir þannig fengið laun fyrir þá aðstoð, sem það hefir veitt með sinni ábyrgð. Þannig er einnig að þessu leyti rangur grundvöllur undir þessu frv.

Hv. frsm. tók svo til orða, að segja mætti, að þeir staðir væru ekki byggilegir, þar sem ekki næðist til rafmagns. Þó að við takmörkuðum það við þetta land, þá er það hrein fjarstæða, stórkostleg fjarstæða, því að þótt þægindi séu að þessu og gagn mikið, þá eru þetta mestu öfgar, að segja það hér í sölum Alþingis, að eðlilegt sé, að allir, sem ná ekki til rafmagns á voru landi, þyrpist frá sínum heimkynnum þangað, sem má ná til rafmagnsljósa. Það er ekki gott verk að halda fram slíkum fjarstæðum hér á Alþingi.

Nú skyldu menn halda, að þetta væri ekki verulegur skattur á þessi fyrirtæki; en svo er ekki, hann er stórkostlegur. Hvað Sogsvirkjunina snertir, þá er skatturinn á tímabilinu, sem þessi lán standa, hér um bil 1 millj. sænskra króna, eða um 11/2 millj. ísl. króna. Geta allir séð, hvílíka refsingu á að leggja á slíka stofnun, þetta nytjafyrirtæki, sem bæjarstjórn Reykjavíkur hefir brotizt í að koma upp.

Ég skal svo skýra frá, hvernig þessi kostnaður mundi koma niður á Sogsvirkjuninni einni saman:

Árslok

s.kr.

%

s.kr.

1939

5463000.00

0.5

27315.00

1940

5269000.00

1

52960.00

1941

5122000.00

1

51220.00

1942

4940000.00

1

49400.00

1943

4750000.00

1

47500.00

1944

4550000.00

1

45500.00

1945

4342000.00

1.5

65130.00

1946

4124000.00

1.5

61860.00

1947

3896000.00

1.5

58420.00

1948

3658000.00

1.5

54870.00

1949

3409000.00

1.5

51135.00

1950

3148000.00

2

62960.00

1951

2875000.00

2

57500.00

1952

2590000.00

2

51800.00

1953

2293000.00

2

45860.00

1954

1982000.00

2

39640.00

1955

1657000.00

2.5

41425.00

1956

1317000.00

2.5

32925.00

1957

961000.00

2.5

24025.00

1958

589000.00

2.5

14725.00

1959

201000.01

2.5

5025.00

s.kr.

941195.00

Hér er því um stórkostlegan skatt að ræða, sem væntanlega myndi verða til þess, að erfitt reyndist að fá lán, þegar leitað væri fjár til slíkra fyrirtækja, því að lánveitandi lítur fyrst og fremst á afkomumöguleika fyrirtækisins. — Hér væri Alþ. því komið inn á ranga braut. Auk þess álít ég, að þetta sé svo mikið principmál, að einstakir þm. eigi ekki að bera fram slík stórmál án fylgis ríkisstj. Tel ég ótækt, að frv. nái fram að ganga án þess að athugað sé rækilega, hver áhrif slík skattaálagning hefir fyrir framkvæmd þessara mála í landinu.

Í greinargerð frv. er sagt, að hér sé farið eftir norskri fyrirmynd, án þess þó að gera grein fyrir því nánar. Ef nota á það til þess að lokka þm. til fylgis við frv., væri ekki úr vegi að skýra fyrirkomulagið í Noregi nokkru nánar. Mér er líka nær að halda, að hér sé málum blandað. Mér er kunnugt um, að í Noregi var um og eftir stríðið komið upp mörgum rafveitum. Þessar rafveitur voru svo stórar og ofviða, að þær komust fljótlega í mikla fjárhagsörðugleika, og varð ríkið að styðja þær og gerir enn í dag. Mér þykir því undarlegt, ef þær eru stórkostlegur skattstofn, eins og hér er gefið í skyn. Og þó svo væri, kemur það í raun og veru ekki málinu við hér, við getum ekki gleypt við erlendum aðferðum ómeltum, hvorki Norðmanna né annara. Mér virðist því, að frá hvaða sjónarmiði sem þetta er skoðað, sé hér um stórhættulegt mál að ræða, og svo mikið grundvallaratriði, að ekki megi reka það gegnum þingið með offorsi og kappi, að ég tali nú ekki um, ef þetta kynni að verða að átakamáli milli dreifbýlisins og þéttbýlisins.

En mér er spurn: Er ekki nóg komið af bankastofnunum og útlánasjóðum, sem stofnaðir eru af skattafé landsmanna? Það, sem sparast í þjóðfélaginu á ári hverju, á eðlilega að vera til ráðstöfunar fyrir lánsstofnanir, en að ríkið sé að taka sparifé landsmanna með sköttum til þess að stofna með nýjan banka er misskilningur á verkefni Alþingis.

Ég vænti því, að frv. þetta nái ekki fram að ganga, því að ég tel, að grundvöllur þess sé rangur og ekki annað en misskilningur á eðli þessara mála.